Háskóli Íslands

AskjaGPS staðsetning: 65°01'4'' N, 16°45'00'' V
Hæsti punktur: 1516 m.y.s.

Askja er megineldstöð sem rekja má frá síð-Pleistosen til Nútíma. Eldstöðin er um miðbik eystra gosbeltisins og liggur á sprungusveimi sem nær um 80 km til norð-norðausturs. Mikil eldvirkni undir jökli á Öskjusvæðinu á síð-Pleistósen myndaði Dyngjufjöll, sem er að mestu þyrping móbergshryggja.

Elsta gosvirknin einkennist af ólivín-þóleiíti með stórum einingum af plagóklas-dílóttu basalti. Á síðasta kuldaskeiði ísaldar hófst myndun sigketils (50 km2) um miðbik Dyngjufjalla. Fáeinar opnur af súru bergi finnast umhverfis sigketilinn en eldvirknin innan ketilsins einkennist af kvarz-þóleiít hraunum. Mikil hraunabreiða, sem virðist mynduð áður en ketilsigið hófst að marki, þekur austurhlíð eldstöðvarinnar. Hraunabreiðan er úr stórum ólivín-þóleiít hraunum neðst en þróast í smærri og fleiri kvarz-þóleiít hraun efst.

Mikið súrt öskugos varð í Öskju fyrir um 9 þúsund árum sem marka má af öskulagi á svæðinu. Hugsanlegt er að þetta gos hafi valdið verulegu jarðsigi í öskjunni. Smærri askja (12 km2) myndaðist suð-austanvert í sigkatlinum við sprengigos 1875 en þá var einnig rekhrina á sprungusveimi Öskju.
 
Öskjuvatn (220 m djúpt) fyllir nú sigketilinn frá 1875. Gosmökkurinn frá gosinu 1875 hafði hnattræna úrbreiðslu og varð vart í Skandinavíu. Í gosinu  myndaðist einnig gígurinn Víti við gufusprengingu. Í Viti er jarðhitavirkni og jarðhita verður enn vart meðfram Öskuvatni að austan. Mestan hluta Nútíma hafa kvarz-þóleiíthraun sem koma upp innan við öskjuveggina breiðst yfir botn hennar. Yngsta gosvirknin er einkum við eystri brún öskjunnar þar sem fáein basaltgos urðu um 1930. Síðast gaus 1961 við Öskjuop á eystri brún öskjunnar en þá myndaðist kvarz-þóleiíthraun sem rann niður austurhlíðina.

Níels Óskarsson tók saman í febrúar 2011.

Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is