Háskóli Íslands

Átta lausar nýdoktorastöður á sviði hafs, loftslags, menningar og samfélags

Auglýst er eftir umsóknum um átta nýdoktorastöður í náttúruvísindum og hug- og félagsvísindum við Rannsóknasetur H.H. Margrétar II Danadrottningar og frú Vigdísar Finnbogadóttur um haf, loftslag og samfélag (ROCS). Nýdoktorarnir munu stunda rannsóknir bæði við Kaupmannahafnarháskóla og Háskóla Íslands og er gert ráð fyrir að þeir sinni rannsóknum bæði hér og í Danmörku.

Óskað er eftir því að ráða þrjá nýdoktora á sviði hug- og félagsvísinda sem munu á tveggja ára tímabili kanna áhrif hafsins og loftslagsbreytinga á íslenskt samfélag og menningu. 

Einnig er óskað eftir því að ráða fimm nýdoktora á sviði náttúruvísinda sem munu á tveggja ára tímabili kanna samband loftslags- og vistkerfa í gegnum söguna í hafi og á landi, með því að kortleggja tengsl loftslags og lífríkis hafsins á mannöldinni og rannsaka loftslagstengdar breytingar á láði og legi.

Áhersla á hafið umhverfis Ísland

Rannsóknasetrið um haf, loftslag og samfélag (ROCS) var stofnað af Carlsbergsjóðnum í samvinnu við íslensk stjórnvöld í tilefni áttræðisafmælis Margrétar II Danadrottningar og níræðisafmælis Vigdísar Finnbogadóttur, fyrrverandi forseta Íslands, í vor. Það er þverfaglegt og er því ætlað að auka skilning á samspili loftslagsbreytinga og vistkerfa hafsins og mikilvægi þeirra fyrir íslenskt samfélag og menningu. Þótt þungamiðja rannsóknanna við ROCS verði hafið umhverfis Ísland er líklegt að drjúgur hluti af niðurstöðum  rannsóknanna muni nýtast til skilnings á þróuninni í Norður-Atlantshafi í heild sinni. 

ROCS tilheyrir bæði Kaupmannahafnarháskóla og Háskóla Íslands og Katherine Richardson, prófessor við Kaupmannahafnarháskóla, stýrir því í samvinnu við danska og íslenska vísindamenn. 

„Við vitum að loftslagið í formi veðra og vinda hefur bein áhrif á fólk. Engu að síður vitum við ótrúlega lítið um þau óbeinu áhrif sem loftslag hefur á fólk og samfélag manna,“ segir Katherine. „Margra þessara áhrifaþátta má sjá stað í breytingum í náttúrunni. Íslenskt samfélag hefur alltaf verið afar háð auðlindum hafsins en hraðar breytingar eiga sér nú stað í hafinu vegna loftslagsbreytinga. Þess vegna er Ísland einstaklega vel fallið til þess að vera vettvangur rannsókna sem varpað geta ljósi á samspil mannlífs og loftslags, bæði í fortíð og nútíð.“

Framlagi Carlsbergsjóðsins til rannsóknasetursins verður fyrst og fremst varið til að ráða nýdoktora eins og nú verður gert. Þeir munu gegna lykilhlutverki við að efla samvinnu þeirra dönsku og íslensku vísindamanna sem tengjast rannsóknasetrinu.

Vakin er athygli á því að aðeins þau sem hlutu doktorsgráðu á síðustu fimm árum geta sótt um. Tekið verður tillit til leyfa (s.s. mæðra- og feðraorlofs, veikinda, o.s.frv.). Sé umsækjandi ekki kominn með doktorsgráðu á umsóknarfresti verður að skila mati á doktorsgráðunni í seinasta lagi 1. nóvember á hádegi (að dönskum tíma).

Umsóknarfrestur er til 1. október 2020. Frekari upplýsingar er að finna á vefsíðu Rannís og á vefsíðu Carlsbergsjóðsins.

Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is