Háskóli Íslands

Bárðarbunga ágúst 2014

Á þessari síðu er að finna efni og gögn sem starfsmenn Jarðvísindastofnunar Háskólans og samstarfsaðilar þeirra hafa aflað. Starfsmenn hafa kappkostað að gögn og bráðabirgðaniðurstöður komi fyrir sjónir almennings svo fljótt sem auðið er. Fólk er beðið að virða lögbundinn höfundar- og birtingarrétt og nota ekki gögnin til úrvinnslu og birtingar án leyfis.

Nýjustu upplýsingarnar eru efst en síðan í heild gefur yfirlit um framvindu mála. Í dagatali er flýtileið á hvern dag:

Ágúst: 17-18-19-20-21-22-23-24-25-26-27-28-29-30-31
 

31. ágúst 2014

Stöðuskýrsla 31. ágúst 2014 - samantekt unnin af Veðurstofu Íslands og Jarðvísindastofnun Háskólans (pdf)

31.08.2014 kl. 12:00 - Fundi vísindamannaráðs Almannavarna sitja vísindamenn frá Veðurstofu Íslands og Jarðvísindastofnun Háskólans ásamt fulltrúum frá Almannavarnardeild ríkislögreglustjóra

Á fundi vísindamannaráðs í morgun kom eftirfarandi fram:

 • Hraungos hófst í Holuhrauni, líklega upp úr kl. 04 í nótt, á sama stað og gaus fyrir tveimur dögum. Sprungan virist vera uþb. 1,5 km löng. Tekið var eftir því á vefmyndavél Mílu um 05:51. Færri skjálftar fylgja gosinu en því fyrra, en meira hraun kemur upp.
 • Hraunstraumurinn var uþb 1 km breiður og um 3 km langur til norðausturs um kl. 07:30. Hraunið er talið nokkurra metra þykkt og flæðið var að líkindum um 1000 m3 á sek.
 •  Skjálftavirkni hefur verið lítil á gossvæðinu. Um 500 skjálftar hafa mælst á svæðinu, sá stærsti 3,8 í Bárðarbunguöskjunni. Óveður á svæðinu gerir það að verkum að minni skjálftar greinast verr.
 • GPS-mælingar sýna áframhaldandi gliðnun á svæðinu norðan Dyngjujökuls. Gasbólstrar rísa frá sprungunni í nokkur hundruð metra hæð.
 • Veðurskilyrði gera erfitt að fylgjast með gosinu en vísindamenn eru á staðnum og nota hvert tækifæri til þess að afla upplýsinga um kviku- og gas útstreymi
 • Athugað verður hvort hægt er að fljúga yfir gosstöðvarnar síðar í dag en veður hamlar flugi í augnablikinu.

Frá Veðurstofu Íslands: Litakóði fyrir flug er rauður fyrir Bárðarbungu og gulur fyrir Öskju.

Frá gosinu snemma í morgun. Mynd: Ármann Höskuldsson
 

30. ágúst 2014

30.08.20104 kl. 11:45 – Bárðarbunga 

Fundi vísindamannaráðs Almannavarna sitja vísindamenn frá Veðurstofu Íslands og Jarðvísindastofnun Háskólans ásamt fulltrúum frá Almannavarnardeild ríkislögreglustjóra

Á fundi vísindamannaráðs í morgun kom eftirfarandi fram: 

 Skjálftavirkni er enn mjög mikil, rúmlega 700 skjálftar hafa mælst frá miðnætti. Mest virkni hefur verið á 15 km löngu svæði með miðju á jaðri Dyngjujökuls. Hefur sú virkni ekki færst norðar í tvo sólarhringa.  

• Stærstu skjálftarnir frá miðnætti voru: 

Kl. 02:35, af stærðinni 4,5 í norður hluta Bárðarbunguöskju, kl. 06:18 annar stór af stærðinni 4,2 á svipuðum slóðum. Sá þriðji af stærðinni  5,4 mældist kl. 7:03 á suðurbrún Bárðarbunguöskjunnar. 

• Um 20 skjálftar hafa mælst í kring um Öskju. Spennubreytingar vegna berggangsins gætu skýrt þessa virkni. 

 GPS mælingar sýna áframhaldandi láréttar færslur vegna gliðnunar við norðurjaðar Vatnajökuls. 

• Engar óvenjulegar breytingar hafa mælst á rennsli í Jökulsá á Fjöllum. Það sama á við um aðrar ár sem renna norðvestur úr Vatnajökli.

• Sýni voru tekin úr Holuhrauni í gær og eru í efnagreiningu. 

• Ekki er hægt að segja til um það á þessari stundu hvert framhaldið verður. Fjórir möguleikar eru taldir líklegastir: 

o Að innflæði kviku stöðvist og skjálftahrinan fjari út og ekki komi til annars eldgoss.

o Gangurinn nái til yfirborðs og eldgos hefjist á ný norðan Dyngjujökuls, jafnvel á nýrri sprungu. Ekki er hægt að útiloka gos með  hraunflæði og/eða sprengivirkni.

o Gangurinn nái til yfirborðs og eldgos hefjist á ný en verulegur hluti eða öll sprungan verði undir Dyngjujökli. Gosið myndi leiða til  jökulhlaups í Jökulsá á Fjöllum og e.t.v. einnig sprengigoss með öskufalli.

o Gos í Bárðarbungu. Gosið gæti leitt til jökulhlaups og e.t.v. einnig sprengigoss með öskufalli. Mestar líkur eru á að hlaup kæmi niður  Jökulsá á Fjöllum, en ekki er hægt að útiloka aðrar hlaupaleiðir: Skjálfandafljót, Kaldakvísl, Skaftárkatla og Grímsvötn.

Ekki er hægt að útiloka aðrar sviðsmyndir.

Frá Veðurstofu Íslands: Litakóði fyrir flug er áfram appelsínugulur yfir Bárðarbungu og gulur yfir Öskju.
 

29. ágúst 2014

Punktar um ferð TF-SIF yfir Vatnajökul í dag 29. ágúst 2014 - Minnisblað frá vísindamönnum í flugi

TF-SIF, flugvél Landhelgisgæslunnar flaug yfir umbrotasvæðið við norðanverðan Vatnajökul í morgun milli kl. 10 og 12:30. Í fluginu voru vísindamenn frá Jarðvísindastofnun Háskólans, Veðurstofu Íslands og fulltrúi frá Almannavarnadeild Ríkislögreglustjóra. Gott skyggni var á svæðinu. Gossprungan í Holuhrauni var könnuð, útbreiðsla hrauns, útbreiðsla sprungna í og við Holuhraun og norðurjaðar Dyngjujökuls og sigdældir suðaustan Bárðarbungu kannaðar . Helstu niðurstöður eru eftirfarandi:

 • Gossprungan er um 600 m á lengd með stefnu SSV-NNA. Hún er nyrst í Holuhrauni og er suðurendi hennar rúmlega 5 km frá jökuljaðri. Gígarnir eru á sama stað og nyrstu gígar Holuhrauns. Engin gosvirkni sást en gufur stíga upp af gosopunum og ná nokkra tugi metra í loft upp. Hrauntungur hafa runnið til beggja átta og ná 100-200 út frá gígunum. Gjóskumyndun hefur verið mjög lítil. Ljósleit dreif, e.t.v. leirdreif, nær 0,5-1 km til vesturs út frá gossprungunni. Flatarmál hraunsins er um 100 þús. fermetrar (0,1 km2) og magn kviku sem komið hefur upp er um 0.4 milljón rúmmetrar sem er setur þennan atburð í flokk minnstu eldgosa.
 • Gossprungan liggur í miðju um eins kílómetra breiðs sigdals sem myndast hefur undanfarna daga norðan Dyngjujökuls vegna framrásar gangsins í jarðskorpunni. Nyrstu sprungur hans eru nokkuð norðan við gossprunguna. Umtalsverðar breytingar hafa ekki orðið á sprungunum frá í gær.
 • Í Dyngjujökli sunnan gossprungunnar hafa ekki orðið breytingar samfara gosinu.
 • Engin aukning hefur orðið á rennsli Jökulsár á Fjöllum við gosið enda engin merki um aukna bráðnun.
 • Sigdældir suðaustan Bárðarbungu hafa ekki breyst að ráði frá í gær.
 • Engar breytingar var að sjá í Öskju.
 • Skýjað var að mestu yfir Grímsvötnum og þau ekki skoðuð sérstaklega.

Hnit á endum gossprungunnar:
Suðurendi: 64°52.29‘N 16°50.01‘V
Norðurendi: 64°52.01‘N 16°50.32‘V

Þátttakendur í fluginu:
Bergur Einarsson (VÍ), Eyjólfur Magnússon (JH), Magnús Tumi Guðmundsson (JH), Sara Barsotti (VÍ), Sibylle von Löwis (VÍ), Þórdís Högnadóttir (JH), Björn Oddsson (Almv.).

Myndir unnar af Eyjólfi Magnússyni

 
29.08.2014 kl. 12:20 – Bárðarbunga/Holuhraun - Fundi vísindamannaráðs Almannavarna sitja vísindamenn frá Veðurstofu Íslands og Jarðvísindastofnun Háskólans ásamt fulltrúum frá Almannavarnardeild ríkislögreglustjóra
 
Niðurstöður fundar vísindamannaráðs:
 
• Klukkan 00:02 sáust merki um hraungos á vefmyndavél Mílu sem staðsett er á Vaðöldu.
• Upp úr miðnætti sáust veik merki um gosóróa á mælum Veðurstofunnar.
• Kl. 00:20 meta vísindamenn Veðurstofunnar, Jarðvísindarstofnunar Háskólans og Cambridge háskóla eldgosið sjónrænt.
• Hraungos varð á 600 metra langri sprungu og lá eftir eldri gossprungu um Holuhraun u.þ.b. 5 km norðan við jaðar Dyngjujökuls. 
• Lítið magn af hrauni kom úr gosinu og hraunrennsli virðist hafa stöðvast um kl. fjögur í nótt.
• Hápunktur gossins er talinn hafa verið á tímabilinu  00:40 – 01:00 
• Töluvert dró úr skjálftavirkni þegar gosið hófst en fjöldi skjálfta er nú aftur svipaður og undanfarna daga.
• TF- SIF fór í loftið kl. 9:30 fyrstu myndir úr vélinni sýna að gufa stígur upp úr gossprungunni.
• Engar vísbendingar eru um að dragi úr ákafa atburðanna. 
• Ekki er hægt að segja til um það á þessari stundu hvert framhaldið verður. Þrír möguleikar eru enn taldir líklegastir:
• Að innflæði kviku stöðvist og skjálftahrinan fjari út og ekki komi til annars eldgoss.
• Gangurinn nái til yfirborðs og eldgos hefjist á ný norðan Dyngjujökuls, jafnvel á nýrri sprungu. Ekki er hægt að útiloka gos með hraunflæði og/eða sprengivirkni.  
• Gangurinn nái til yfirborðs og eldgos hefjist á ný en verulegur hluti eða öll sprungan verði undir Dyngjujökli. Gosið myndi leiða til jökulhlaups í Jökulsá á Fjöllum og e.t.v. einnig sprengigoss með öskufalli.
• Ekki er hægt að útiloka aðrar sviðsmyndir, t.d. gos í Bárðarbunguöskjunni.
 
Frá Veðurstofu Íslands:
Klukkan 10 í morgun færði Veðurstofa Íslands litakóðann fyrir flug yfir Bárðarbungu á appelsínugulan þar sem ekki er talið líklegt að aska berist upp í lofthjúpinn. Litakóði fyrir flug yfir Öskju er enn gulur.

 

Skýringarmynd - Yfirfarnar staðsetningar VÍ af skjálftavirkni í Bárðarbungu frá 16. ágúst til miðnættis 28. ágúst - Bryndís Brandsdóttir

Yfirfarnar staðsetningar VÍ af skjálftavirkni í Bárðarbungu frá 16. ágúst til miðnættis 28. ágúst, er gos hófst í Holuhrauni. Punktastærð er í réttu hlutfalli við stærð skjálftanna. Í upphafi myndast samhliða berggangar við kvikuhlaup frá Bárðarbungu að Kistufelli og til norðausturs. Síðan einangrast virknin við bergganginn undir Dyngjujökli. Framrás gangsins undir Dyngjujökli (sjá lóðréttar línur) virðist beintengd stóru skjálftunum í Bárðarbungu, sem dælir kvikunni eftir honum rúmlega 40 km til norðurs-norðausturs og uppundir yfirborð í Holuhrauni.

Bryndís Brandsdóttir

29. ágúst 2014 kl. 01:05

Sprungugos er hafið norður af Dyngjujökli, nyrst í Holuhrauni. Gosið hófst um miðnætti (u.þ.b. 00:02) m.v. vefmyndavélar og jarðskjálftagögn. Gosið sést ekki á radar og talið er að öskuframleiðsla sé óveruleg. Vísindamenn á svæðinu telja að gosið sé nokkra km norður af sporði Dyngjujökuls, og að hraun renni til suð-austurs og virðist renna hratt.  Veikur gosórói sést á jarðskjálftamælum í samræmi við hraungos án verulegrar sprengivirkni. Engin merki sjást um jökulhlaup.

Litakóði fyrir Bárðarbungu er rauður.

InSAR mælingar á jarðskorpuhreyfingum með ratsjárgervitunglum 

Nákvæmur samanburður og úrvinnslu mynda úr COSMO-SkyMED ratsjárgervitungli Ítölsku geimvísindastofnunarinnar með InSAR aðferð (interferometric analysis of synthetic aperture radar images, bylgjuvíxlmælingar) gerir kleift að meta jarðskorpuhreyfingar.  Bylgjumunstur sýnir hreyfingar þannig að ein heil breyting í litaskala (ein bylgja) svarar til 15 mm færslu jarðskorpunnar.   Tvær ratsjármyndir eru bornar saman til að meta eina bylgjuvíxlmynd.  Bylgjuvíxlmyndirnar tvær spanna tímabilin 10-26 ágúst og 11-27 ágúst og sýna hvernig landsvæði við norðvestur jaðar Vatnajökuls hefur aflagast. InSAR gögnin má nýta í líkanreikningum til að meta stærð og opnun berggangsins sem orðið hefur til undir Vatnajökli síðan umbrotin hófust, ásamt GPS-landmælingum.

Model of surface deformation, incorporating both GPS and satellite data, spanning the period 10th August 2014 - 27th August 2014. The vertical plane represents the location of the dike at depth (red colours show maximum opening). The model indicates that the eruption (red star) is coming from the patch with maximum opening (5m), right at the surface (dark red patch). Black dots show earthquakes during the same time period (since the start of unrest on the 16th August 2014) located by the Icelandic Met Office. Model processed by A.J.H.

Interferogram processing carried out using CSK Products, © ASI (Italian Space Agency) - 2014, delivered under an ASI license to use. COSMO-SkyMed images have been provided in the framework of the Geohazard Supersite Initiative.

 

 

28. ágúst 2014

Um sigdældir við Bárðarbungu - Smantekt jöklahóps Jarðvísindastofnunar Háskólans (pdf)
 

28.08.2014 kl. 12:00 - Fundi vísindamannaráðs Almannavarna sitja vísindamenn frá Veðurstofu Íslands og Jarðvísindastofnun Háskólans ásamt fulltrúum frá Almannavarnardeild ríkislögreglustjóra

Niðurstöður fundar vísindamannaráðs í morgun:

Flogið var yfir Bárðarbungu og svæðið umhverfis í morgun og yfirborð jökulsins kannað. Ekki varð vart við breytingar frá því að sprungur sáust í jöklinum í suðaustanverðri  Bárðarbungu í gærkvöldi. Talið er að þær hafi myndast vegna bráðnunar við botn.

Dældirnar hafa verið staðsettar suðaustur af Bárðarbunguöskjunni líklega innan vatnasviðs Jökulsár á Fjöllum. Sprungumyndanirnar eru þrjár og hringlaga, samanlagt um 5 km að lengd. Um er að ræða svæði þar sem jökullinn er um 400-600 m að þykkt.

Búið er að kanna vatnsstöðu Grímsvatna sem talin er að hafi hækkað um 5-10 m á síðustu dögum, sem samsvarar því að 10-30 milljón m3 af vatni hafi bæst í vötnin. Örlítil aukning í leiðni í Köldukvísl mældist í morgun, orsök er óþekkt. Engin breyting hefur mælst í Hágöngulóni og engin breyting í Jökulsá eða Skjálfandafljóti. Talið er að vatn frá sigdældinni hafi runnið í Grímsvötn eða til Jökulsár á Fjöllum.

Skjálftavirkni er svipuð og undanfarna daga. Um miðnættið voru þrír skjálftar uþb 4 að stærð og einn 5 að stærð kl. 08:13 í morgun, allir í Bárðarbungu.

Skömmu fyrir kl. 08 í morgun jókst skjálftavirkni lítillega í Öskju. Talið er að spennubreytingar vegna gliðnunar af völdum berggangsins hafi áhrif á Öskusvæðinu.

Berggangurinn undir Dyngjujökli hefur lengst 1-1,5 km til norðurs síðan í gær, sem er töluvert minna en undanfarna daga. Hann er nú kominn inn í sprungusvæði Öskju og GPS-mælingar benda til þess að verulegra áhrifa gæti þar.

Niðurstaða fundar vísindamannaráðs Almannavarna (upplýsingablað) verður áfram gefin út um hádegið og eftir fundi ráðsins, gerist þess þörf.

Frá Veðurstofu Íslands: Litakóði fyrir flug er appelsínugulur yfir Bárðarbungu. Litakóði fyrir flug yfir Öskju er nú gulur.
 

Ný síða Veðurstofu Íslands sem sýnir skjálfta og færslur samfelldra GPS stöðva
 

 


 


 


27. ágúst 2014

Líkön byggð á GPS gögnum - Þóra Árnadóttir

Rauðu hringirnir eru skjálftar síðan 23. ágúst og grænar stjörnur eru skjálftar stærri en M4. Skjálftinn í Öskju er efst í hægra horninu.

Láréttar færslur á GPS stöðvum eru sýndar með lituðum örvum, tímabilið eru tilgreind á myndunum neðst til hægri (t.d. 16-23 ágúst). Lengri tímabil eru eru sýnd með bláum örvum (heildar hreyfing fyrir tímabilið), og einn dagur með fjólublárri ör, t.d. gærdagurinn (26-27 ágúst).

Líkanið af ganginum fylgir skjálftavirkninni (má draga sem línu ofaná skjálftavirknina á korti).Þessar myndir sýna hvernig stefna hreyfinga á stöðvunum hefur breyst með tíma (fyrst í NV, SA) og síðan meira í vestur á Dyngjuhálsi þegar gangurinn sveigir til norðurs.

Rauðir kassar eru staðsetningar samfelldra GPS mælistöðva. Hvíta stjarnan á seinni myndinni í öskju Bárðarbungu er skjálfi af stærð M5.7 sem varð í fyrrinótt.

Hér er síðan mynd sem sýnir líkan af færslum undanfarna daga, sem falla að mælingum á færslum á yfirborði.

Líkan af innskoti (gangi = græn lína) og þrýstingslækkun í miðri öskju Bárðarbungu (grænn hexagon) sem fellur vel að GPS mælingum á yfirborði.

Auk þess er líkan af misgengi í öskju Bárðarbungu (grænn ferningur) sem kemur vel saman við M5.7 skjálftann þar.

Mældar færslur eru sýndar með bláum örvum og gulum súlum (lóðréttar) og líkanreikningar með rauðum örvum. Lóðréttar hreyfingar (mældar = gular, líkan= hvítar súlur). Líkan að bergganginum (innskotinu) fellur vel að staðsetningum jarðskjálfta (gulir og rauðir punktar á kortinu). Grænar stjörnur eru skjálftar stærri en M3, hvíta stjarnan er M5.7 skjálftinn, sá stærsti hingað til.

 
27.08.20104 kl. 11:50 – Bárðabunga
Fundi vísindamannaráðs Almannavarna sitja vísindamenn frá Veðurstofu Íslands og Jarðvísindastofnun Háskólans ásamt fulltrúum frá Almannavarnardeild ríkislögreglustjóra

Á fundi vísindamannaráðs í morgun kom eftirfarandi fram:
• Skjálftavirkni er enn mjög mikil, rúmlega 700 skjálftar hafa mælst frá miðnætti. Virknin er nú að mestu utan jökuls og hefur þokast u.þ.b einn km til norðurs frá því í gær.
• Klukkan 00:16 mældist skjálfti af stærðinni 5,3 í Bárðarbunguöskjunni, kl. 02:50 mældist annar stór skjálfti af stærðinni 5,2 á svipuðum slóðum. Klukkan 01:52 mældist skjálfti af stærðinni 4,5 austantil í Öskju og hefur dálítil smáskjálftavirkni fylgt í kjölfarið.
• Berggangurinn undir Dyngjujökli er nú talinn vera rúmlega 40 km langur. Líkanreikningar byggðir á GPS mælingum benda til þess að rúmmálsaukningin síðasta sólarhringinn sé rúmlega 20 milljónir rúmmetra.
• Líkanreikningar benda til að berggangurinn hafi valdið verulegum spennubreytingum á stóru svæði, m.a. til norðurs sem gæti skýrt skjálftavirkni í Öskju.
• Engar vísbendingar eru um að dragi úr ákafa atburðanna.
• Framvegis verða daglegar stöðuskýrslur ekki sendar út síðdegis nema umtalsverðar breytingar verði. Niðurstaða fundar vísindamannaráðs Almannavarna (upplýsingablað) verður áfram gefin út um hádegið.

Frá Veðurstofu Íslands: Litakóði fyrir flug er áfram appelsínugulur yfir Bárðarbungu.


26. ágúst 2014

Stöðuskýrsla 26. ágúst 2014 - samantekt unnin af Veðurstofu Íslands og Jarðvísindastofnun Háskólans (pdf)

26. ágúst 2014 kl. 11:50 - frá vísindaráðsfundi

Fundi vísindaráðs sitja vísindamenn frá Veðurstofu Íslands og Jarðvísindastofnun Háskólans ásamt fulltrúum frá Almannavarnardeild ríkislögreglustjóra. Á fundinum kom eftirfarandi fram:

 • Skjálftavirkni er enn mjög mikil, rúmlega 500 skjálftar hafa mælst frá miðnætti. Virknin þokast áfram til norðurs og er norðurendinn kominn 7 km norður fyrir jökuljaðarinn.
 • Klukkan 01:26 í nótt mældist skjálfti af stærðinni 5,7 í Bárðarbunguöskjunni, en síðan hafa ekki orðið stórir skjálftar þar.
 • Berggangurinn undir Dyngjujökli er nú talinn vera hátt í 40 km langur. Líkanreikningar, byggðir á GPS mælingum, benda til þess að rúmmálsaukningin síðasta sólarhringinn sé 50 milljónir rúmmetra.
 • Engar vísbendingar eru um að dragi úr ákafa atburðanna.
 • Ekki er hægt að segja til um það á þessari stundu hvert framhaldið verður. Þrír möguleikar eru enn taldir líklegastir:     
 • Að innflæði kviku stöðvist og skjálftahrinan fjari út og ekki komi til eldgoss.
 • Gangurinn nái til yfirborðs og eldgos hefjist. Líklegast er að það verði við norðurenda gangsins. Þá er líklegast að verði hraungos með nokkurri sprengivirkni. 
 • Gangurinn nái til yfirborðs og eldgos hefjist en verulegur hluti eða öll sprungan verði undir Dyngjujökli. Gosið myndi leiða til jökulhlaups í Jökulsá á Fjöllum og e.t.v. einnig sprengigoss með öskufalli.
 • Ekki er hægt að útiloka aðrar sviðsmyndir, t.d. gos í Bárðarbunguöskjunni, en líkur á því eru mun minni á þessari stundu.

 Frá Veðurstofu Íslands: Litakóði fyrir flug er áfram appelsínugulur.


25. ágúst 2014

Stöðuskýrsla 25. ágúst 2014 - samantekt unnin af Veðurstofu Íslands og Jarðvísindastofnun Háskólans (pdf)

25.08.20104 kl. 11:00 – Fundi vísindaráðs sitja vísindamenn frá Veðurstofu Íslands og Jarðvísindastofnun Háskólans ásamt fulltrúum frá Almannavarnardeild ríkislögreglustjóra.
 
Á fundi vísindaráðs kl. 10:00 kom eftirfarandi fram:
 • Skjálftavirkni er enn mjög mikil, rúmlega 700 skjálftar hafa mælst frá miðnætti.
 • Virknin þokast áfram til norðurs og er að mestu á 10 km löngu bili, með miðju undir jökuljaðrinum.
 • Klukkan 20:39 í gærkvöldi mældist skjálfti af stærðinni 5 í Bárðarbunguöskjunni, en síðan hafa ekki orðið stórir skjálftar þar.
 • Berggangurinn undir Dyngjujökli er nú talinn vera um 35 km langur. Líkanreikningar byggðir á GPS mælingum benda til að um 300 milljón rúmmetrar af kviku séu í ganginum.
 • GPS mælum verður bætt við norðan við Vonarskarð og á Urðarhálsi á næstu dögum.
 • Engar vísbendingar eru um að dragi úr ákafa atburðanna.
 • Ekki er hægt að segja til um það á þessari stundu hvert framhaldið verður. Þrír möguleikar eru taldir líklegastir:
 • Að innflæði kviku stöðvist og skjálftahrinan fjari út og ekki komi til eldgoss.
 • Gangurinn nái til yfirborðs og elsgos hefjist. Líklegast er að það verði við norðurenda gangsins. Þá er líklegast að verði hraungos með nokkurri sprengivirkni.  
 • Gangurinn nái til yfirborðs og eldgos hefjist en verulegur hluti eða öll sprungan verði undir Dyngjujökli. Gosið myndi leiða til jökulhlaups í Jökulsá á Fjöllum og e.t.v. einnig sprengigoss með öskufalli.
 • Ekki er hægt að útiloka aðrar sviðsmyndir t.d. gos í Bárðarbunguöskjunni en líkur á því eru mun minni á þessari stundu.
   

24. ágúst 2014

Stöðuskýrsla 24. ágúst 2014 - samantekt unnin af Veðurstofu Íslands og Jarðvísindastofnun Háskólans (pdf)

23. ágúst 2014

Bárðarbunga - Atburðir og athuganir laugardaginn 23. ágúst

Ítarlegar athuganir úr lofti með flugvél Landhelgisgæslunnar TF-SIF sýna að engin merki eru um að gos eða bráðnun við botn hafi átt sér stað undir Dyngjujökli í dag (23. ágúst).  Orsakir aukins óróa hljóta því að hafa verið aðrar en eldgos.  Myndirnar eru ratsjármyndir af Dyngjujökli og Bárðarbungu frá því kl. 16 í dag.  Til samanburðar er ASTER gervitunglamynd frá því í nóvember 2000.

Reynsla af eldgosum í jöklum sýnir eftirfarandi:
- Gosum undir jökli fylgir mikil bráðnun íss.  Jafnvel smæsta gerð af gosi hefði aukið rennsli Jökulsár á Fjöllum um á að giska 100 m3/s (gosið á Fimmvörðuhálsi 2010, sem var mjög lítið, er hér notað sem dæmi).
- Þegar gos hefst undir jökli gildir að langoftast rennur vatn jafnharðan með botni frá gosstað að jökuljaðri.  Ef gos verður síðsumars á leysingasvæði jökuls, þegar rennslisleiðir undir jöklinum eru vel opnar, má reikna með að rennsli vatnsins frá gosstað taki skamma stund.   Má t.d. reikna með að gos 5 km innan jaðars valdi verulegum vatnavöxtum eða hlaupi um eða innan við klukkustund frá því gos hefst.
- Sá tími sem það tekur eldgos að bræða sig í gegnum jökul er háður kvikuflæði í gosinu auk þess að vera sterklega háður þykkt íssins.   Gosið í Grímsvötnum fór t.d. gegnum 150 m þykkan jökul á um einni klukkustund meðan það tók Gjálpargosið, sem var töluvert öflugra, rúma 30 tíma að bræða sig gegnum 600 metra þykkan jökul.  

Af ofangreindu má m.a. ráða að ef gos brýst út undir 500 m þykkum ís í Dyngjujökli verður að reikna með að hlaupvatn komi undan jökli mörgum klukkustundum áður en goss nær upp til yfirborðs.  

Magnús Tumi Guðmundsson
 

Stöðuskýrsla 23. ágúst 2014 - samantekt unnin af Veðurstofu Íslands og Jarðvísindastofnun Háskólans (pdf)

23.08.2014 kl. 20:30 – Bárðarbunga (Upplýsingar af vef Veðurstofu Íslands)

 • Í dag klukkan 11:20 sáust merki um óróa sem gáfu sterkar vísbendingar um að gos gæti verið að hefjast. Síðdegis dró úr óróanum, en öflug skjálftavirkni heldur áfram.
 • Upp úr klukkan 14 flaug flugvél Landhelgisgæslunnar TF-SIF að Vatnajökli með sérfræðinga frá Veðurstofunni og Jarðvísindastofnun Háskólans ásamt fulltrúa Almannavarnardeildar Ríkislögreglustjóra.  
 • Flogið var yfir Bárðarbungu, Dyngjujökul og Jökulsá á Fjöllum í góðu skyggni.  Yfirborð jökulsins var grandskoðað m.a. með sérútbúinni ratsjá og hitamyndavél vélarinnar.  Engin ummerki sáust um eldgos í Dyngjujökli eða Bárðarbungu,  né ummerki um flóð við upptök Jökulsár.
 • Flogið var yfir svæðið í nokkra klukkutíma og engar breytingar sáust á þeim tíma. Mat vísindamanna er því að eldgos sé ekki í gangi.
 • Vegna stöðugrar áframhaldandi skjálftavirkni og gliðnunar hefur Veðurstofan ákveðið að litakóði fyrir flug verði áfram rauður. Sú ákvörðun verður endurmetin í fyrramálið.

23. ágúst 2014 kl. 14:10 - lítið eldgos undir jökli hafið? (Upplýsingar af vef Veðurstofu Íslands)

 • Flugvél Landhelgisgæslunnar TF-SIF fór í loftið um hádegið með sérfræðinga frá Veðurstofunni og Jarðvísindastofnun Háskólans ásamt fulltrúum Almannavarna. Gögn frá tækjabúnaði vélarinnar munu berast síðar í dag.
 • Gögn frá ratsjám og vefmyndavélum eru að berast og sýna ekki merki um breytingar á yfirborði jökulsins.
 • Talið er að um 150-400 metra þykkur ís sé yfir svæðinu.
 • Litakóði fyrir flug hefur verið færður upp færður úr appelsínugulu í rautt.
 • Rétt í þessu (14:04) mældist skjálfti sem talinn er vera að minnsta kosti 4,5 að stærð.

22. ágúst 2014

Stöðuskýrsla 22. ágúst 2014 - samantekt unnin af Veðurstofu Íslands og Jarðvísindastofnun Háskólans (pdf)

GPS tímaraðir við Bárðabungu - Ný stöð í Kverkfjöllum, GSIG, farin að senda gögn

3 mánuðir

http://strokkur.raunvis.hi.is/gps/DYNC_3mrap.png
http://strokkur.raunvis.hi.is/gps/HAFS_3mrap.png

http://strokkur.raunvis.hi.is/gps/GFUM_3mrap.png

http://strokkur.raunvis.hi.is/gps/VONC_3mrap.png

http://strokkur.raunvis.hi.is/gps/GSIG_3mrap.png

1 ár
http://strokkur.raunvis.hi.is/gps/DYNC_rap.png
http://strokkur.raunvis.hi.is/gps/HAFS_rap.png
http://strokkur.raunvis.hi.is/gps/GFUM_rap.png
http://strokkur.raunvis.hi.is/gps/VONC_rap.png
http://strokkur.raunvis.hi.is/gps/GSIG_rap.png

Lengri tími
http://strokkur.raunvis.hi.is/gps/DYNC_08.png
http://strokkur.raunvis.hi.is/gps/HAFS_08.png
http://strokkur.raunvis.hi.is/gps/GFUM_08.png
http://strokkur.raunvis.hi.is/gps/VONC_08.png


21. ágúst 2014

Stöðuskýrsla 21. ágúst 2014 - samantekt unnin af Veðurstofu Íslands og Jarðvísindastofnun Háskólans (pdf)

20. ágúst 2014

Stöðuskýrsla 20. ágúst 2014 - samantekt unnin af Veðurstofu Íslands og Jarðvísindastofnun Háskólans (pdf)

Frá því að skjálftahrinan hófst aðfaranótt 16. ágúst hafa GPS stöðvar í nágrenni Bárðarbungu sýnt færslur sem gefa til kynna kvikuhreyfingar í jarðskorpunni.  Mesta hreyfingin sést á GPS stöð á Dyngjuhálsi, en hún hefur færst um 5,4 cm til norðvesturs á tímabilinu frá því kl. 8 þann 15. ágúst til kl. 16 þann 18. ágúst.  Á þessu tímabili hefur GPS stöð við Grímsvötn færst um 1,8 cm til suðurs.

Á kortinu má sjá staðsetningu jarðskjálfta á SIL jarðskjálftamælakerfi Veðurstofu Íslands á tímabilinu 15.-18. ágúst 2014. Færslur á samfelldum GPS mælistöðvum Jarðvísindastofnunar og Veðurstofu Íslands á tímabilinu 15. ágúst 2014 kl. 8 til 18. ágúst kl. 16 eru sýndar með bláum örvum.  Sprungur í nágrenninu eru táknaðar með gulum línum og gossprungur með rauðum línum.

Gert var líkan af því hvernig GPS stöðvarnar myndu færast ef kvika væri að fara úr kvikuhólfi Bárðarbungu („Mogi miðja“) og að kvikan myndi fara inn í sprungusveiminn og mynda gang (þykk rauð lína hjá skjálftasvæði).  Appelsínugulu örvarnar sýna færslur GPS stöðvanna sem líkanið spáir. Upplýsingar um líkanið eru gefnar hér fyrir neðan. Rétt er að undirstrika að þetta líkan er aðeins eitt af fjölmörgum líkönum sem geta útskýrt færslurnar á GPS stöðvunum. 

--------

Hugsanlegt líkan af ganginum:

Lengd gangs: 20 km

Hæð gangs: 2,1 km

Opnun gangs: 1,6 m

Dýpi niður á gang: 3 km

Rúmmál gangs: 80-90 milljón rúmmetrar

Strik = 47,51, halli 90 (fyrirfram ákveðið)

Dýpi á Mogi punkt: 1 km

Rúmmálsbreyting Mogi punkts:

-10 til -30 milljón rúmmetrar

--------

Heimildir notaðar við gerð kortsins:

GPS gögn - Jarðvísindastofnun Háskólans og Veðurstofa Íslands

Líkanútreikningar:  Elías Rafn Heimisson, Freysteinn Sigmundsson

Jarðskjálftar: Veðurstofa Íslands (hluti þeirra er óyfirfarinn).

Sprungur Tungnafellsjökull: Þórhildur Björnsdóttir og

Páll Einarsson (Jökull, 2013).

Sprungur Norðurgosbeltið: Ásta Rut Hjartardóttir

og Páll Einarsson (2012), Ásta Rut Hjartardóttir (2013).

Bakgrunnur:  IS50 Landmælingar Íslands.


19. ágúst 2014

Eftirfarandi upplýsingar eru fengnar af vef Vedurstofu Íslands:

"Skjálftavirkni í kringum Bárðarbungu er enn mikil. Heldur dró úr kringum miðnættið, bætti aftur í upp úr 4 og hefur nú aftur dregið lítillega úr. Virknin gengur sem sagt áfram í bylgjum.

Stærstu skjálftarnir urðu undir morgun en þeir voru allir undir 3 að stærð. Virknin er að mestu bundin við austurhluta Bárðarbungu og hefur færst lítillega til norðausturs."

18. ágúst 2014

Eftirfarandi upplýsingar eru fengnar af vef Vedurstofu Íslands:

"Jarðskjálftavirknin sem hófst í Bárðarbungu 16. ágúst heldur áfram. GPS staðsetningamælingar gefa sterkar vísbendingar um kvikuhreyfingu. Um er að ræða jarðskjálftahreyfingar tengdar kvikuhreyfingu austur af Bárðarbunguöskjunni og við brún Dyngjujökuls skammt austur af Kistufelli.

Klukkan 02:37 aðfararnótt 18. ágúst varð jarðskjálfti, um 4 að stærð, við Kistufell. Það er sterkasti skjálftinn sem mælst hefur á svæðinu frá árinu 1996. Í ljósi endurmats jarðvísindamanna á atburðum síðustu daga hefur Veðurstofan ákveðið að hækka viðvörunarstig fyrir flugmálayfirvöld og er því Bárðarbunga merkt með appelsínugulu samkvæmt litakóða.

Engin merki eru um gos."

Hér að neðan má sjá GPS tímaraðir fyrir mælipunkta í nágrenni Bárðabungu, bláir punktar sýna sólahrings lausnir en þeir rauðu sýna átta tíma lausnir.3m
http://strokkur.raunvis.hi.is/gps/DYNC_3mrap.png
http://strokkur.raunvis.hi.is/gps/HAFS_3mrap.png
http://strokkur.raunvis.hi.is/gps/GFUM_3mrap.png
http://strokkur.raunvis.hi.is/gps/VONC_3mrap.png
1yr
http://strokkur.raunvis.hi.is/gps/DYNC_rap.png
http://strokkur.raunvis.hi.is/gps/HAFS_rap.png
http://strokkur.raunvis.hi.is/gps/GFUM_rap.png
http://strokkur.raunvis.hi.is/gps/VONC_rap.png
long
http://strokkur.raunvis.hi.is/gps/DYNC_08.png
http://strokkur.raunvis.hi.is/gps/HAFS_08.png
http://strokkur.raunvis.hi.is/gps/GFUM_08.png
http://strokkur.raunvis.hi.is/gps/VONC_08.png

17. ágúst 2014

Skjálftahrina hófst í Bárðarbungu kl 3 að nóttu 16. ágúst og hefur verið viðvarandi síðan. GPS mælingar sýna að kvika er á hreyfingu undir eldstöðinni, en hefur ekki náð yfirborði undir jöklinum. Að meðaltali eru skjálftarnir af stærðinni 1,5 en nokkrir eru stærri en M3. Nánari upplýsingar um vöktun Bárðarbungu er að finna á vef Veðurstofu Íslands. Ríkislögreglustjóri hefur í samráði við Almannavarnir lýst yfir óvissustigi, og eldstöðin er samkvæmt því merkt með gulum þríhyrningi sem er alþjóðlegt merki til viðvörunar fyrir flugumferð. 

Bárðarbunga er eitt af stærstu eldfjöllum Íslands. Hún er askja sem er um 10 km í þvermál og er miðja um 200 km langs sprungusveims. Kerfið Bárðarbunga-Veiðivötn er eitt af þeim virkustu á sögulegum tíma. Askjan er þakin ís, 100-200 m þykkum á öskjuriminni, en ca 800 m inni í öskjuskálinni. Gos í Bárðarbungu geta verið mjög afdrifarík vegna jökulhettunnar, mikil flóð myndast óhjákvæmilega þegar hún bráðnar og geta farið til norðurs eða suðurs eftir því hvoru megin vatnaskila gosið kemur upp. Þá er mikil hætta af fíngerðri gjósku sem tætist í vatnsumhverfinu. Síðast varð gos í kerfinu 1996, Gjálpargosið svonefnda sem myndaði mikið flóð sem kom niður Skeiðarársand.

Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is