Háskóli Íslands

Bárðarbunga - Atburðir og athuganir laugardaginn 23. ágústÍtarlegar athuganir úr lofti með flugvél Landhelgisgæslunnar TF-SIF sýna að engin merki eru um að gos eða bráðnun við botn hafi átt sér stað undir Dyngjujökli í dag (23. ágúst).  Orsakir aukins óróa hljóta því að hafa verið aðrar en eldgos.  Myndirnar eru ratsjármyndir af Dyngjujökli og Bárðarbungu frá því kl. 16 í dag.  Til samanburðar er ASTER gervitunglamynd frá því í nóvember 2000.

Reynsla af eldgosum í jöklum sýnir eftirfarandi:
- Gosum undir jökli fylgir mikil bráðnun íss.  Jafnvel smæsta gerð af gosi hefði aukið rennsli Jökulsár á Fjöllum um á að giska 100 m3/s (gosið á Fimmvörðuhálsi 2010, sem var mjög lítið, er hér notað sem dæmi).
- Þegar gos hefst undir jökli gildir að langoftast rennur vatn jafnharðan með botni frá gosstað að jökuljaðri.  Ef gos verður síðsumars á leysingasvæði jökuls, þegar rennslisleiðir undir jöklinum eru vel opnar, má reikna með að rennsli vatnsins frá gosstað taki skamma stund.   Má t.d. reikna með að gos 5 km innan jaðars valdi verulegum vatnavöxtum eða hlaupi um eða innan við klukkustund frá því gos hefst.
- Sá tími sem það tekur eldgos að bræða sig í gegnum jökul er háður kvikuflæði í gosinu auk þess að vera sterklega háður þykkt íssins.   Gosið í Grímsvötnum fór t.d. gegnum 150 m þykkan jökul á um einni klukkustund meðan það tók Gjálpargosið, sem var töluvert öflugra, rúma 30 tíma að bræða sig gegnum 600 metra þykkan jökul.  

Af ofangreindu má m.a. ráða að ef gos brýst út undir 500 m þykkum ís í Dyngjujökli verður að reikna með að hlaupvatn komi undan jökli mörgum klukkustundum áður en goss nær upp til yfirborðs.  

Magnús Tumi Guðmundsson

Fjallað er nánar um vá vegna eldgosa í grein í Jökli 2008 (á ensku með íslensku ágripi):
https://notendur.hi.is//~mtg/pdf/2008Jokull58_MTGetal_volchaz.pdf
Um samspil eldfjalls og jökuls í Gjálpargosinu 1996 má lesa í:
https://notendur.hi.is//~mtg/pdf/1997Nature_MTG_FS_HB.pdf
og 
https://notendur.hi.is//~mtg/pdf/2003BullVolc66_MTGetal_Gjalp.pdf
Og um gos í jökli almennt:
https://notendur.hi.is//~mtg/pdf/2005SubglacVolcAct_MTG-DQS.pdf
https://notendur.hi.is//~mtg/pdf/2003GeopMono140_MTG_magma-ice-water.pdf

Einnig má lesa um þessa hluti í tveimur nýlegum bókum:
Jöklar á Íslandi eftir Helga Björnsson
Náttúruvá á Íslandi: Eldgos og jarðskjálftar.  Margir höfundar.  

Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is