Háskóli Íslands

Eyjafjallajökull

Eyjafjallajökull 2010 - Mynd: Sigrún Hreinsdóttir

GPS staðsetning: 63°38'0"N 19°37'0"V
Hæsti punktur: 1666 m.y.s.

Eyjafjallajökull er megineldstöð sunnarlega á eystra gosbeltinu og myndar eldkeilu sem er  eilítið ílöng A-V. Eldfjallið þekur u.þ.b. 400 km2 svæði og rís 1666 m.y.s. Í miðju eldfjallsins er askja sem er ríflega 2,5 km í þvermál.

Megineldstöðin Eyjafjallajökull hefur verið virk frá síðari hluta síðustu ísaldar. Sökkull fjallsins er úr móbergi með hraunábreiðu og víða eru hryggir sem teygja sig niður hlíðarnar með stefnu frá toppgígnum. Sunnan við fjallið sést að í undirstöðunni skiptast á hraun og móbergslög, mun eldri en megineldstöðin. Jökull hylur u.þ.b. 80 km2 af fjallinu niður að 1000 m.y.s. og er þykkastur í öskjunni, um 200 m.

Gos í Eyjafjallajökli eru talin vera 4-5 síðustu 1500 ár; árið 500 gaus sennilega í toppgígnum, árið 920 eða þar um bil  í Skerjahryggnum, heimildir eru um gos árið 1612 en það hefur enn ekki verið staðfest með rannsóknum, árin 1821-23 varð gos í toppgígnum og síðast árið 2010 í sprungum á Fimmvörðuhálsi og í toppgígnum. Gosin hafa verið fjölbreytt að gerð og samsetningu, allt frá súrum sprengigosum að basískum flæðigosum eins og gosin 2010 eru dæmi um. Efnasamsetning er alkalísk, basíska bergið er alkalíbasalt eða millibasalt (transitional alkali basalt), en súrara bergið er ísúrt (trachyte eða trachyandesite).

Þrjú gos í Eyjafjallajökli urðu á svipuðum tíma og Kötlugos, árin 920, 1612 og 1821-23. Því  hefur komið fram sú tilgáta að virkni þessara eldfjalla geti verið tengd. Þótt ekki sé unnt að útiloka þann möguleika, hafa Kötlugos verið mun tíðari en gosin í Eyjafjallajökli og því getur verið hrein tilviljun að 2 eða 3 gos koma upp á sama tíma í báðum eldstöðvum.

Jökulhlaup samfara gosum í Eyjafjallajökli eru óhjákvæmileg nema í sprungugosum neðan jökulhettunnar. Þau hafa ekki verið stór miðað við hlaupin í Kötlugosum, þar sem jökullinn er talsvert þynnri. Engu að síður valda þau mikilli hættu beggja vegna fjallsins einkum vegna þess hve aðdragandi niður á láglendi er stuttur. Jökulhlaup og eðjuflóð ollu miklu tjóni í gosinu 2010.

Tekið saman af Birgi V. Óskarssyni og Guðrúnu Sverrisdóttur í mars 2012.

Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is