Háskóli Íslands

Eyjafjallajökull - Virkni og vöktun

Eyjafjallajökull kortEyjafjallajökull er eitt stærsta eldfjall á Íslandi og eitt af fáum sem flokka má sem eldkeilu,en sú gerð eldfjalla er algeng víða um heim.  Fjallið er um 1660 m hátt og ílangt austur-vestur.  Undirhlíðarnar eru brattar og að miklu leyti gerðar úr móbergi frá jökulskeiðum.  Ofan 500-600 m er brattinn minni.  Ofan 900-1000 m hæðar er fjallið þakið jökli.  Efst á Eyjafjallajökli er lítil askja (sigketill), 2-2.5 km í þvermál. Askjan er þakin jökli en eftir ummerkjum að dæma er hún grunn.  Askjan er opin mót norðri þar sem brattur skriðjökull, Gígjökull, fellur niður á láglendi.  Nokkrir klettar standa upp úr jöklinum á börmum öskjunnar.  Þeirra á meðal eru Innri og Fremri Skoltur, Goðasteinn, Guðnasteinn og Hámundur (hæsti tindur jökulsins).

Veturinn 1999-2000 sýndu mælingar landris og aukna skjálftavirkni við Eyjafjallajökul.  Hliðstæður atburður varð 1994.  Þessir atburðir bentu til aukins aðstreymis kviku sem gætu leitt til eldgoss í Eyjafjallajökli.  Vitað var um eldgos í Eyjafjallajökli 1612 og 1821-1823.  Litlar heimildir eru um fyrra gosið en nokkrar um það seinna.  Bæði virðast hafa verið fremur lítil.  Gosið 1821-1823 varð í tindi fjallsins, að því er virðist í norðvesturhluta öskjunnar.  Jökulhlaup komu undan Gígjökli meðan á gosinu stóð.

Haustið 2000 kom skyndilega jökulvatn í Lambafellsá sem á upptök í Svaðbælisheiði. Við athugun kom í ljós að ný kvísl rann undan jöklinum rétt vestan við upptök Laugarár.  Efnagreiningar sýna að kvíslin ber ýmis einkenni jarðhitavatns. Þessi aukning í jarðhita á svæðinu er trúlega afleiðing atburðanna 1999-2000, þegar kvika barst hátt upp í jarðskorpuna undir sunnanverðum Eyjafjallajökli.

Þróun 2002-2010
Þann 27. janúar 2002 varð vart við jarðhita í jökulsprungum efst á Eyjafjallajökli. Úr tveimur sprungunum lagði daufa brennisteinslykt auk þess sem vottaði fyrir gufu. Sprungurnar eru á kolli sem rís öskjurimanum í suðvesturhorni öskjunnar. Kollur þessi er nafnlaus en u.þ.b. mitt á milli Goðasteins og Guðnasteins. 8. og 9. mynd sýna staðinn.

Síðan 2002 hefur ekki orðið vart við breytingar sem tengjast jarðhita í Eyjafjallajökli.  Jökullinn hefur rýrnað hratt frá 1999.  Samhliða flugi yfir Mýrdalsjökul var fylgst með Eyjafjallajökli, ásamt öðru eftirliti. Rétt fyrir miðnætti 20. mars 2010 hófst gos á Fimmvörðuhálsi og lauk því 13. apríl. Að morgni 14. apríl hófst eldgos í toppgíg Eyjafjallajökuls, en því gosi lauk 23. maí 2010. Upplýsingar um gosin 2010 má sjá á hér.

Áfram er fylgst með Eyjafjallajökli eins og áður, auk annarra ýtarlegra rannsókna á atburðunum 2010.

Umsjón með síðu:
Þórdís Högnadóttir, disah@hi.is
Magnús Tumi Guðmundsson

Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is