Háskóli Íslands

Eins of flestir jöklar og íshvel á jörðinni hefur Vatnajökull, stærsti hveljökull Íslands, rýrnað síðustu áratugi. Hann hefur tapað um 135 km3 eða ~4.5% af rúmmáli sínu á tímabilinu 1995-2019. Í nýrri rannsókn við Jarðvísindastofnun Háskóla Íslands sem birt er í tímaritinu Journal of Glaciology (https://doi.org/10.1017/jog.2019.90) er þróun Vatnajökuls í framtíðinni metin með ísflæðilíkani sem knúið er með afkomu samkvæmt spá um veðurfar frá nokkrum mismunandi loftslagslíkönum. Afkomulíkanið, sem reiknar þá orkuþætti sem stjórna bráðnun jökla, er stillt af með gögnum um afkomu og veður (hita, raka, vindhraða og stefnu, ásamt mælingum á stutt og langbylgju inn- og útgeislun) við yfirborð jökulsins sem safnað hefur verið á Vatnajökli síðastliðin 25 ár.

Við notum tvær alþjóðlegar sviðsmyndir um hlýnun í framtíðinni sem settar hafa verið fram af milliríkjanefnd sameinuðu þjóðanna um loftslagsmál önnur gerir ráð fyrir samdrætti í losun gróðurhúsalofttegunda og um 2.4°C hlýnun fram til ársins 2100 en hin reiknar með áframhaldandi sömu losun og nú er og um 3.5°C hlýnun fram til 2100. Eftir árið 2100 gerum við ráð fyrir að jafnvægi hafi náðst í styrk gróðurhúsalofttegunda og ekki hlýni frekar. Líkanið reiknar áfram með loftslagi tímabilsins 2081-2100 fram til 2300. Vegna þess að það tekur jökulinn nokkra áratugi að aðlagast nýju loftslagi er massatap Vatnajökuls fram til ársins 2100 í báðum sviðsmyndunum um 15-30% af rúmmáli hans.

Fyrir 2.4°C hlýnun reiknar líkanið að rúmmál Vatnajökuls rýrni um 30-65% fram til ársins 2300, en við hærri hlýnun myndi um 50-95% rúmmálsins tapast. Hin miklu vikmörk í matinu eru vegna þess að mismunandi loftslagslíkön spá á ólíkan hátt fyrir um framtíðar hitastig og úrkomu, jafnvel þó að gert sé ráð fyrir sömu aukningu á styrk gróðurhúsalofttegunda í andrúmsloftinu. Þessi rannsókn sýnir, eins og fleiri hafa gert áður, að mikilvægt er að nýta safn mismunandi loftslagslíkana þegar metnar eru framtíðarhorfur jöklanna.

Reiknilíkanið sem notað var tekur ekki með í reikningana öll möguleg gagnvirk áhrif jökuls og loftslags, en við teljum að ef þau áhrif væru tekin með myndi massatapið líklega vera 10-20% meira fram til ársins 2300.

Gagna sem nýttust í verkefninu var aflað með stuðningi frá Rannsóknasjóði Evrópu, Rannís, Landsvirkjun, Vegagerðinni. Verkefnið SAMAR var styrkt af Rannís (verkefnisnúmer 140920-051) og doktorsstyrk Rannsóknasjóðs Háskóla Íslands. Framtíðarspár um loftslag voru úr CORDEX safninu (cordex.org).

Louise Steffensen Schmidt og Sveinbjörn Steinþórsson setja veðurstöð vorið 2015

 

 

Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is