Háskóli Íslands

Landris nærri Svartsengi undanfarna daga og orsakir þess er eitt helsta viðfangsefni jarðvísindamanna þessa dagana. Í dag, fimmtudaginn 30. janúar, var fundur í vísindamannaráði Almannavarna og þar var vísindafólk á Jarðvísindastofnun mætt, enda vinnur það náið með Almannavörnum og sérfræðingum á öðrum stofnunum í að meta ástandið. 

Tilkynning Almannavarna eftir fundinn er hér fyrir neðan en hana má líka finna á vef Almannavarnadeildar Ríkislögreglustjóra.

Skýringartexti með myndinni hér til hliðar:

Myndin sýnir jarðskorpuhreyfingar á Reykjanesskaga 18.-30. janúar mældar með InSAR bylgjuvíxlmælingum á myndum frá Sentinel-1 gervitunglinu (InSAR:  interferometric analysis of synthetic aperture radar images), fengin með sjálfvirkri úrvinnslu gervitunglagagna. Myndin sýnir breytingar á fjarlægð til gervitungls í millimetrum (LOS:  line-of-sight change), en fjarlægðarbreytingin tengist bæði landrisi og láréttum færslum jarðskorpunnar. Örvar á myndinni sýna flugstefnu og sjónarhorn gervitunglsins. Miðja svæðisins þar sem breytingar greinast í myndinni, undir því sjónarhorni sem gervitunglið tekur myndina, er við fjallið Þorbjörn (sem er í miðju rauða svæðisins). Rismiðja er aðeins vestan við þetta svæði, þar sem fjarlægðarbreytingin mælir líka lárétta færslu. Rauði liturinn táknar breytingar yfir 30 millimetra.  Úrvinnsla:  Vincent Drouin, ÍSOR.  Landrisið hófst um 21. janúar.

 

 

Tilkynning Almannavarna: 

Fundur í vísindaráði Almannavarna

30. janúar 2020 kl. 17:23

Jarðvísindamenn hittust á vísindaráðsfundi almannavarna í dag og fóru yfir stöðu mála vegna landriss og jarðskjálftavirkni í grennd við fjallið Þorbjörn á Reykjanesskaga. Þar kom fram að jarðskjálftavirkni heldur áfram á svæðinu. Jarðskjálftavirknin dreifist á nokkrar sprungur norður af Grindavík. Verið er að bæta þremur nýjum jarðskjálftamælum við rauntímavöktun Veðurstofunnar og tveir í viðbót verða settir upp á næstu dögum. Helsti tilgangur þeirra er að bæta áreiðanleika jarðskjálftastaðsetninga.

Landið við Þorbjörn rís enn og nemur landrisið 3-4 cm þar sem það er mest. Veðurstofan hefur sett upp þrjá nýja GPS mæla á svæðinu. Þær niðurstöður sem fengist hafa benda til að risið eigi upptök á um 4 km dýpi en töluverð óvissa er enn á dýpi þenslumiðju. Merkin sem sjást eru til samræmis við að kvika sé að safnast fyrir í jarðskorpunni. Líkanreikningar benda til að rúmmál hennar sé nú 1-2 milljón rúmmetrar. Of snemmt er að útiloka aðrar skýringar en kvikuinnskot þykir sú líklegasta. Engin áhrif kviku hafa komið fram í jarðhitakerfi Svartsengis.

Gas- og efnamælingar í jarðhitavökva hafa verið auknar á jarðhitasvæðinu við Svartsengi og Eldvörp í samstarfi við HS-orku. ÍSOR vinnur að þyngdarmælingum til að kanna og fylgjast með mögulegum breytingum í jarðskorpunni.

Á fundinum var rýnt í þær sviðsmyndir sem liggja fyrir og reynt að draga fram þá þætti sem þarf að kanna betur.

Sviðsmyndirnar voru bornar saman við þekkta atburði á Íslandi og annarsstaðar.

Fundinn sátu:  Vísindamenn frá Veðurstofu Íslands, Jarðvísindastofnun Háskólans, Ísor ásamt fulltrúum frá almannavarnadeild ríkislögreglustjóra, HS-Orku, Umhverfisstofnun og lögreglunni á Suðurnesjum.

Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is