Háskóli Íslands

Atburðarás

Síðan í janúar 2020 hefur verið í gangi merkileg atburðarás á Reykjanesskaga með töluverðri jarðskjálftavirkni og landrisi sem nemur nú allt að 8 cm. Meginhluti virkninnar hefur verið í eldstöðvakerfinu Svartsengi, með miðju nálægt móbergsfjallinu Þorbirni (Mynd 1). Atburðarásin hefur verið á þann veg að síðari hluta janúar reis land mest um 3-4 mm á dag en í byrjun febrúar dró mjög úr landrisinu. Um miðjan febrúar jókst skjálftavirkni í grennd við Sýrfell og Reykjanestá, sem tilheyra eldstöðvakerfinu Reykjanesi, líklega vegna kvikuhreyfinga djúpt (um 8-13 km dýpi) í rótum eldstöðvakerfisins. Þegar hægði virkninni undir Sýrfelli í fyrri hluta mars byrjaði aftur landris og jarðskjálftavirkni við Þorbjörn. Landrisið nú er þó a.m.k. helmingi hægara en í upphafsfasa virkninnar og stendur enn yfir í byrjun apríl.

Mynd 1: Litaðir kassar sýna útlínur innskota sem hafa átt sér stað síðan í janúar á vestanverðum Reykjanesskaga skv. líkönum Michelle Parks á VÍ. Einnig eru sýndar staðsetningar GPS mælistöðva og jarðskjálfta.

Mælistöðvar og mannskapur

Samdægurs og uppgötvaðist að landris væri í gangi við Svartsengi fóru Þorsteinn Jónsson, tæknimaður JHÍ, ásamt Cécile Ducrocq, doktorsnema við HÍ, og settu upp fimm GPS mælitæki á svæðinu. Fyrir voru tvær síritandi GPS stöðvar við Svartsengi og tvær stöðvar við Reykjanestá sem reknar eru af JHÍ og HS-Orku. Veðurstofa Íslands (VÍ) setti upp tvær síritandi GPS stöðvar og JHÍ hefur bætt við all nokkrum GPS mælitækjum til viðbótar. Alls eru nú í gangi 23 GPS mælistöðvar á vestanverðum Reykjanesskaga (Mynd 2). Átta GPS stöðvanna (frá VÍ og JHÍ) eru með varanlegri uppsetningu, raforkuframleiðslu og fjarskiptum; en fimmtán stöðvanna frá JHÍ eru settar upp tímabundið og þarf að vitja þeirra í hverri viku til að sækja gögn, skipta um rafgeyma og tryggja að mælitækin séu rétt staðsett yfir mælipunktum (Myndir 3-5). Hér hafa nemendur fengið tækifæri til að stunda gagnasöfnun, úrvinnslu og túlkun mælinga við raunverulegar aðstæður. Landmælingar Íslands hafa lagt til fimm GPS tæki tímabundið. Til lengri tíma væri æskilegt að fjölga GPS stöðvum með varanlegri uppsetningu. Öflugt samstarf er milli stofnanna og fyrirtækja sem koma að vöktun og rannsóknum á svæðinu og leggjast allir á eitt við að bæta skilning á þeim ferlum sem nú eiga sér stað á Reykjanesskaga.

Mynd 2: Staðsetningar GPS mælistöðva á vestanverðum Reykjanesskaga. Alls eru 23 GPS stöðvar nú í gangi á vestanverðum Reykjanesskaga