Háskóli Íslands

Grímsvötn


GPS staðsetning: 64°25'12'' N, 17°19'48'' V
Hæsti punktur: 1725 m.y.s.

Grímsvötn liggja í vestanverðum Vatnajökli og eru sú eldstöð sem hefur mestu gostíðni allra íslenskra eldstöðva.  Vitað er um a.m.k. 60 gos á eldstöðvakerfi Grímsvatna síðustu 800 ár og hafa langflest þeirra orðið innan Grímsvatnaöskjunnar.  Grímsvötn eru einnig eitt öflugasta jarðhitasvæði jarðarinnar með náttúrulegt varmatap sem nemur 2000-4000 MW.  Úr Grímsvötnum koma Skeiðarárhlaup en þau voru orsök þess að ekki varð til akfær hringvegur um Ísland fyrr en 1974. Grímsvatnasvæðið liggur undir nokkur hundruð metra þykkum ís víðast hvar.  Íssjármælingar og aðrar jarðeðlisfræðilegar athuganir á 9. áratug 20. aldar vörpuðu ljósi á botnlandslag á svæðinu.  Í ljós kom að Grímsvatnaeldstöðin er um 15 km í þvermál og rís allt að 700-900 m upp af mishæðóttum bergbotni sem liggur í 800-1000 m yfir sjó.  Í miðju Grímsvatna er samsett askja.  Hún hefur verið greind í þrjá hluta:  norðuröskju (12 km2), suður- eða meginöskju (20 km2) og austuröskju (16-18 km2).  Að meginöskjunni að sunnan liggur Grímsfjall.  Á því ná tveir tindar upp úr ísnum, Svíahnúkar Eystri og Vestri.  Eystri Svíahnúkur er hærri.
Á árunum 1938 til 1996 urðu ekki eldgos í Grímsvötnum utan smágoss í lok maí 1983.  Í lok Grímsvatnahlaupa 1945 og 1954 varð aukin virkni jarðhita í sigkötlum í Grímsvötnum.  Leitt hefur verið að því líkum að þá hafi lítil eldgos átt sér stað.  Engin merki sáust þó um gos í flugferðum yfir Grímsvötn og engin gosefni hafa fundist sem rekja mætti til gosa á þessum tíma.  Hins vegar hafa breytingar á jarðhitakötlum svipaðar þeim sem urðu 1945 og 1954 sést á síðustu áratugum án tengsla við eldgos.  

Nýtt virknitímabil virðist hafið í Vatnajökli eftir hið rólega tímabil 1938-1996.  Frá 1996 hafa orðið fjögur eldgos:  Gjálpargosið 1996, Grímsvatnagos í desember 1998 og nóvember 2004, og stórt Grímsvatnagos í maí 2011.

Tekið saman af Guðrúnu Sverrisdóttur í janúar 2012.

Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is