Grímsvötn - staða 3. nóvember 2010 kl. 17:00.
Minnisblað frá Veðurstofu Íslands og Jarðvísindastofnun Háskólans
Unnið af: Þórunni Skaftadóttur, Agli Axelssyni, Steinunni S. Jakobsdóttur, Matthew J. Roberts og Eyjólfi Magnússyni
Byggt á: Jarðskjálftamælum, vatnamælingum, GPS mælum og athugun úr TF-SIF, flugvél Landhelgisgæslunnar.
Bræðsluvatn: Enn eykst rennsli úr Grímsvötnum. Rennsli var mælt í Gígjukvísl kl. 9:30 í morgun og gaf mælingin 2600 m3/s. Rafleiðni hefur einnig hækkað upp í 560 μS/cm. Rafleiðni í Súlu er svipuð og í Gígjukvísl og hefur rennsli þar aukist. Vatnshæð við brúnna yfir Gígjukvísl hefur hækkað frá því í morgun um 20 cm og hefur sennilegast náð hámarki.
Órói: Klukkan 2:30 í nótt jókst skyndilega óróinn á Grímsfjalli á öllum tíðniböndum, en mest á tíðnibandinu 1,5 - 5 HZ. Óróinn hefur haldist svipaður síðan þá. Ekki er alveg vitað hvað veldur, en möguleg skýring er breyting á vatnsrennsli úr Grímsvötnum. Óróabreytingarnar sjást ekki á öðrum stöðvum.
Jarðskjálftar: Klukka 17:44 í gær mældist skjálfti undir Grímsvötnum, 1,6 að stærð. Í nótt klukkan 02:29, rétt áður en óróinn fór að vaxa, mældist þar lítill skjálfti. Um ísskjálfta virðist vera að ræða. Í morgun á milli klukkan 09:03 og 10:45 mældust fjórir skjálftar, allir á stærðarbilinu 1,5 til 1,6. Þessir skjálftar virðast vera brotaskjálftar.
GPS-aflögun: Engin breyting. Sjá minnisblað frá 1. nóvember 2010.
Heildarmat: Vatnsrennsli heldur áfram að vaxa í Gígjukvísl. Rafleiðni hefur aukist bæði í Gígjukvísl og Súlu. Hlaupið hefur líklega náð hámarki. Hlaupórói eykst á skjálftamælinum á Grímsfjalli vegna breytinga á vatnsrennsli. Engin merki um gosóróa sjást á mælum og engin merki um eldsumbrot sáust í flugi Landhelgisgæslunnar yfir Grímsvötnum eftir hádegihádegi, en ís virtist hafa hrunið í einum sigkatli við Grímsfjall. Vel er fylgst með framvindunni.
- - - -
|