Háskóli Íslands

Grímsvötn 2010 - Minnisblöð Veðurstofu Íslands og Jarðvísindastofnunar

Grímsvötn - staða 3. nóvember 2010 kl. 17:00.

Minnisblað frá Veðurstofu Íslands og Jarðvísindastofnun Háskólans

Unnið af: Þórunni Skaftadóttur, Agli Axelssyni, Steinunni S. Jakobsdóttur, Matthew J. Roberts og Eyjólfi Magnússyni

Byggt á: Jarðskjálftamælum, vatnamælingum, GPS mælum og athugun úr TF-SIF, flugvél Landhelgisgæslunnar.

Bræðsluvatn: Enn eykst rennsli úr Grímsvötnum. Rennsli var mælt í Gígjukvísl kl. 9:30 í morgun og gaf mælingin 2600 m3/s. Rafleiðni hefur einnig hækkað upp í 560 μS/cm. Rafleiðni í Súlu er svipuð og í Gígjukvísl og hefur rennsli þar aukist. Vatnshæð við brúnna yfir Gígjukvísl hefur hækkað frá því í morgun um 20 cm og hefur sennilegast náð hámarki.

Órói: Klukkan 2:30 í nótt jókst skyndilega óróinn á Grímsfjalli á öllum tíðniböndum, en mest á tíðnibandinu 1,5 - 5 HZ. Óróinn hefur haldist svipaður síðan þá. Ekki er alveg vitað hvað veldur, en möguleg skýring er breyting á vatnsrennsli úr Grímsvötnum. Óróabreytingarnar sjást ekki á öðrum stöðvum.

Jarðskjálftar: Klukka 17:44 í gær mældist skjálfti undir Grímsvötnum, 1,6 að stærð. Í nótt klukkan 02:29, rétt áður en óróinn fór að vaxa, mældist þar lítill skjálfti. Um ísskjálfta virðist vera að ræða. Í morgun á milli klukkan 09:03 og 10:45 mældust fjórir skjálftar, allir á stærðarbilinu 1,5 til 1,6. Þessir skjálftar virðast vera brotaskjálftar.

GPS-aflögun: Engin breyting. Sjá minnisblað frá 1. nóvember 2010.

Heildarmat: Vatnsrennsli heldur áfram að vaxa í Gígjukvísl. Rafleiðni hefur aukist bæði í Gígjukvísl og Súlu. Hlaupið hefur líklega náð hámarki. Hlaupórói eykst á skjálftamælinum á Grímsfjalli vegna breytinga á vatnsrennsli. Engin merki um gosóróa sjást á mælum og engin merki um eldsumbrot sáust í flugi Landhelgisgæslunnar yfir Grímsvötnum eftir hádegihádegi, en ís virtist hafa hrunið í einum sigkatli við Grímsfjall. Vel er fylgst með framvindunni.

- - - -
 Grímsvötn - staða 2. nóvember 2010 kl. 14:00.

Minnisblað frá Veðurstofu Íslands og Jarðvísindastofnun Háskólans

Unnið af: Þórunni Skaftadóttur, Agli Axelssyni, Rikke Pedersen og Gunnari B. Guðmundssyni.

Byggt á: Jarðskjálftamælum, vatnamælingum og GPS mælum.

Bræðsluvatn: Enn eykst rennsli úr Grímsvötnum en þó virðist sem dregið hafi úr vaxtarhraðanum. Rennsli var mælt í Gígjukvísl kl. 9:30 í morgun og gaf
mælingin 1200 m3/s. Rafleiðni hefur hækkað ásamt auknu rennsli eða í um 500 μS/cm. Aukin rafleiðni í Súlu bendir til þess að þar sé farið að renna
jarðhitavatn, en ekki mikið.

Órói: Hátíðni hlaupóróinn heldur áfram að vaxa á jarðskjálftastöðinni á Grímsfjalli (grf) . Óróinn líkist ennþá mjög hlaupóróanum sem var 2004.

Jarðskjálftar: Í gærkvöldi mældust tveir jarðskjálftar undir Grímsvötnum. Annar kl. 18:50 en hinn kl. 20:59. Í dag hafa mælst tveir skjálftar, kl. 06:06 og kl.
06:42. Stærð skjálftanna er á stærðarbilinu 1,2 til 1,5. Í nótt mældist einn ísskjálfti í vestanverðum Skeiðarárjökli.

GPS-aflögun: Engin breyting. Sjá minnisblað frá 1. nóvember 2010.

Heildarmat: Vatnsrennsli heldur áfram að vaxa í Gígjukvísl. Rafleiðni hefur aukist töluvert. Það bendir til þess að jarðhitavatn sé í ánni. Aukin rafleiðni
mælist í Súlukvísl. Hlaupórói eykst á skjálftamælum. Engin merki um gosóróa sjást. Vel er fylgst með framvindunni.

- - - -

 Grímsvötn - staða 1. nóvember 2010 kl. 17:00.

Minnisblað frá Veðurstofu Íslands og Jarðvísindastofnun Háskólans

Unnið af: Þórunni Skaftadóttur, Agli Axelssyni, Rikke Pedersen og Gunnari B. Guðmundssyni.

Byggt á: Jarðskjálftamælum, vatnamælingum og GPS mælum.

Bræðsluvatn: Það fékkst staðfest á föstudaginn með leiðnimælingu að hlaup væri hafið í Gígjukvísl og hefur rennsli aukist stöðugt síðan. Vegna breytinga á farvegum Skeiðarár skilar vatnið sér nú niður í Gígjukvísl og hafa vatnamælingamenn frá Veðurstofunni mælt rennsli af brúnni yfir Gígju. Rennsli mældist um miðjan dag á sunnudag um 144 m3/s. Í morgun mældist rennslið um 455 m3/s. Síðdegis í dag eða kl. 16:00 mældist rennslið 627 m3/s. Rafleiðni hefur vaxið samhliða vexti í rennsli eða frá 180 μS/cm upp í 320 μS/cm.

Órói: Óróapúls kom fram á jarðskjálftamælinum við Grímsfjall um miðnætti þann 21. október og stóð fram á miðjan dag. Miðvikudagskvöldið þann 27. október eykst órói og hefur farið vaxandi síðan. Óróinn líkist mjög hlaupóróanum sem var 2004.

Jarðskjálftar: Aðfaranótt 31. október kl. 03:19 varð jarðskjáfti um 3 að stærð með upptök í Grímsvötnum. Í dag 1.11. hafa orðið 3 jarðskjálftar undir Grímsvötnum, kl. 02:47 að stærð 0,9, kl. 03:12 að stærð 1,7 og kl. 16.56, að stærð 2,8. Ísskjálftar í Skeiðarárjökli komu fram í gær.

GPS-aflögun: GPS mælingar hafa sýnt hægt vaxandi þenslu undir eldstöðinni síðan 2004. Erfitt er að meta lóðréttar hreyfingar vegna ísbráðnunar. Láréttar hreyfingar sýna svipaða þenslu og var fyrir gosið 2004. Hraði láréttra hreyfinga hefur aukist síðustu mánuði.

Heildarmat: Staðfest var á föstudaginn 29. október að hlaup var hafið í Gígjukvísl. Rennslið í kvíslinni hefur aukist stöðugt. Rafleiðni hefur aukist töluvert. Það bendir til þess að jarðhitavatn sé í ánni. Engin merki um gosóróa sjást. Vel er fylgst með framvindunni.

- - - -

 

Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is