ELDGOS í Grímsvötnum 2011
|
30. maí, mánudagur |
25. maí, miðvikudagur
|
24. maí, þriðjudagur - Efnasamsetning og gerð gosösku úr Grímsvötnum 2011. N. Oskarsson, G. Sverrisdóttir (pdf-skjal) |
22. maí, sunnudagur 21. maí, laugardagur Eldgos hefst í Grímsvötnum 21. maí 2011 Eldgos hófst í Grímsvötnum um kl. 18-19 þann 21. maí. Kröftug skjálftahrina hófst um klukkustund fyrir gosið. Öskuhlaðinn gosmökkur steig upp í um 17 km hæð (um 55000 fet, áætlað út frá veðurradar, könnunarflugi og tilkynningum flugmanna). Aska dreifðist úr neðri hluta makkarins til suðurs en barst til austurs úr efri hluta hans. Nokkrum klukkutímum eftir að gos hófst tók aska að falla í byggð við sunnanverðan Vatnajökul, í yfir 50 km fjarlægð frá gosstöðvunum.
Grímsvötn eru það eldfjall á Íslandi sem gýs hvað oftast. Þar eru þrjár samliggjandi öskjur og í þeirri yngstu er að finna vatnið sem eldstöðin er kennd við. Eldfjallið er hulið jökli þar sem liggur nálægt miðju Vatnajökuls. Þar kemur einkum upp basaltkvika sem tvístrast þegar hún kemst í snertingu við ís og bræðsluvatn, svo úr verður sprengigos.
Fyrsta könnunarflug og staðsetningar jarðskjálfta benda til að gosstöðvarnar séu við suðurjaðar Grímsvatnaöskjunnar. Ís er þar frekar þunnur (50-200 m) og búist er við að bræðsluvatn safnist fyrir í byrjun í Grímsvötnum. Jökulhlaup fram á Skeiðarársand gæti fylgt síðar.
Hæð gosmakkarins í byrjun þessa Grímsvatnagoss, um 17 km, er miklu meiri en í Grímsvatnagosinu 2004, en þá reis mökkur upp í um 6-10 km hæð yfir gosstöðvar. Mökkurinn er einnig hærri en í gosinu í Eyjafjallajökli í fyrra.
Landmælingar á GPS-mælistöð á Grímsfjalli hafa sýnt stöðugt landris og útþenslu um nokkra sentímetra á ári síðan 2004, túlkað sem afleiðing af kvikustreymi inn í grunnstætt kvikuhólf undir Grímsvötnum. Annar langtíma forboði eldgossins var aukin skjálftavirkni síðustu mánuði. Þá varð jafnframt vart við aukinn jarðhita mánuðina fyrir gos.
Öskufallsspá gerir ráð fyrir að flugumferð raskist innanlands og í nágrenni landsins.
Upplýsingar: Veðurstofa Íslands (www.vedur.is), Jarðvísindastofnun og Norræna eldfjallasetrið, Háskóla Íslands (www.jardvis.hi.is).
Samantekt: Freysteinn Sigmundsson (fs@hi.is), Steinunn Jakobsdóttir (ssj@vedur.is), Guðrún Larsen (glare@raunvis.hi.is), Björn Oddsson (bjornod@hi.is), Þórdís Högnadóttir (disah@raunvis.hi.is), Sigurlaug Hjaltadóttir (slauga@hi.is), Magnús Tumi Guðmundsson (mtg@hi.is).
|