Háskóli Íslands

Grímsvötn 2011 - Dagleg samantekt

Grímsvötn - staða 30. maí 2011 kl. 14:00.
Minnisblað frá Veðurstofu Íslands og Jarðvísindastofnun Háskólans

Unnið af:
Steinunni S. Jakobsdóttur, Magnús Tumi Guðmundsson.

Byggt á: Jarðskjálftamælum, athugunum frá Grímsfjalli.

Á laugardagsmorgun klukkan 6:30 dró verulega úr óróa á Grímsfjalli og var hann með öllu horfinn klukkan 7. Frá því á fimmtudag hafði
óróinn verið slitróttur. Í dag, mánudag 30. maí, var það staðfest af leiðangursmönnum í vorferð Jöklarannsóknarfélags Íslands að gosi í
Grímsvötnum væri lokið.

Goslok eru því nú sett klukkan 7 að morgni laugardagsins 28. maí 2011.

Grímsvötn – staða 26. maí 2011 kl. 16:00.
Minnisblað frá Veðurstofu Íslands og Jarðvísindastofnun Háskólans

Unnið af:
Sigurlaugu Gunnlaugsdóttur, Gunnari B. Guðmundssyni og Birni Oddssyni með upplýsingum frá Gunnari Sigurðssyni, Þórði Arasyni, Matthew J. Roberts, Sigrúnu Hreinsdóttur og Sibylle von Löwis.

Byggt á: Jarðskjálftamælum, vatnamælingum, GPS mælum, veðurratsjá, tilkynningum á vefnum um öskufall, eldingamæligögnum bresku veðurstofunnar, MODIS og NOAA gervihnattamyndum.

Gosmökkur:
Hæð:
Hefur ekki mælst á ratsjá síðan í fyrrinótt. Flugmenn sáu hvítan gufustrók í rúmlega 2. km hæð kl. 13:47 í dag.
Stefna: --
Litur: --

Gjóskufall: Ekkert gjóskufall nema í nágrenni eldstöðvarinnar. Lítið öskufjúk vegna úrkomu og lítils vinds.

Eldingar: Engar mældar eldingar frá fyrrinótt.

Drunur: Engar fregnir af drunum.

Bræðsluvatn:
Mjög lítill ís virðist hafa bráðnað í gosinu svo Grímsvatnahlaup er ekki yfirvofandi. Líklega er enn sírennsli úr Grímsvötnum eftir hlaupið í fyrrahaust.

Aðstæður á gosstað:
Enn er kvikusprengivirkni í gíg í suðurjaðri ketils sem myndaðist í gosinu skv yfirlitsflugi frá kl. 19 í gær.

Órói: Svipaður frá því gær en sveiflast mikið til. Óróahviður mælast ennþá á jarðskjálftastöðvum út í allt að 200 km fjarlægð.

Jarðskjálftar:
Engir jarðskjálftar hafa mælst í eldstöðinni sjálfri.

GPS-aflögun:
GPS-mælistöð á Grímsfjalli sýnir óverulega tilfærslu jarðskorpunnar.

Heildarmat:
Litlar breytingar á eldgosinu frá því gær. Kvikusprengingar eru áfram í gangi sem hafa nær eingöngu áhrif á nágrenni eldstöðvarinnar.

Grímsvötn - staða 25. maí 2011 kl. 16:00.
Minnisblað frá Veðurstofu Íslands og Jarðvísindastofnun Háskólans

Unnið af:
Gunnari B. Guðmundssyni og Sigrúnu Hreinsdóttur og upplýsingum frá , Hrafni Guðmundssyni, Árna Sigurðssyni, Þórði Arasyni, Sigurlaugu Hjaltadóttur, Þórönnu Pálsdóttir, Gunnari Sigurðssyni, Birni Oddssyni, Ingibjörgu Jónsdóttir, Ármanni Höskuldssyni og Páli Einarssyni.

Byggt á:
Jarðskjálftamælum, vatnamælingum, GPS mælum, veðurratsjá, tilkynningum á vefnum um öskufall, eldingamæligögnum bresku veðurstofunnar, MODIS og NOAA gervihnattamyndum.

Gosmökkur:
Hæð:
Í gærkvöldi fram til kl. 20 fór gosmökkurinn ekki upp fyrir 5 km hæð, en eftir það púlsaði hann oft í 5-7 km hæð. Kl. 2 í nótt fór hann hæst í 12 km hæð, en eftir kl. 2:20 hefur strókurinn ekki sést á radar, nema þegar gufustrókur náði 5 km hæð kl. 03:30. Sjónarvottar hafa greint frá litlum gufustrókum í dag. Víða er aska sjáanleg úr flugi í skýjalögum í 5-7 km hæð V af gosstöðvunum og einnig sést öskumistur undir 3 km hæð SV af eldstöðinni. Samkvæmt gervitunglamyndum var mikið öskumistur í lofti um landið austanvert og um hádegisbil lágu mörkin frá Ölfusárósum í suðri að Skaga í norðri. Gjókufok var í suðurátt. Eftir hádegi í dag fór að sjást til gosstöðvanna við Grímsvötn en gosmökkur var afar lítill.
Stefna: Hæg norðaustlæg átt, en hægviðri í nótt og í dag í kringum gosstöðvarnar.
Ákveðin suðaustan og sunnan átt fyrir ofan 4 km.
Litur: Ljósbrúnn.
Gjóskufall: Ekkert gjóskufall nema í nágrenni eldstöðvarinnar.
Eldingar: Tvær eldingar mældust kl. 21:02 í gær og 12 eldingar milli kl. 02:09-02:19 í nótt.

Drunur:
Engar fregnir hafa verið af drunum.

Bræðsluvatn:
Samkvæmt gervihnattamyndum hefur lítill ís bráðnað í gosinu og ekki eru nein ummerki um vatnavexti.

Aðstæður á gosstað:
Kvöldið 24.05.2011 var enn nokkur sprengivirkni á gosstöðvunum í Grímsvötnum. Virknin er bundin við þrjá til fjóra gíga. Vatn er í katlinum. 200-300 m hár gufumökkur rís upp frá gígunum en nær í nokkra km við sprengingar. Engin samfelldur mökkur liggur frá gosstöðvunum þar sem sprengivirknin nær ekki að viðhalda honum. Skv. eftirlitsflugi í gærkvöldi var gosið einangrað við 2 lítil gosop umlukin af litlum gjallkraga.

Órói:
Gosórói á jarðskjálftamælinum á Grímsfjalli minnkaði mikið milli kl. 21:15 og 21:45 í gærkvöldi. Um kl. 02:10 í nótt minnkaði hann snögglega en hvarf þó ekki. Hann hefur síðan aukist nokkuð aftur. Dæmigerður gosórói mælist á skjálftastöðvum út í a.m.k 100 km fjarlægt.

Jarðskjálftar:
Engir jarðskjálftar hafa mælst í eldstöðinni sjálfri.

GPS-aflögun:
GPS-mælistöð á Grímsfjalli sýnir óverulega tilfærslu jarðskorpunnar í gær.

Heildarmat:
Mælingar og athuganir sýna verulega minnkun á eldgosinu. Öskufall er núna einskorðað við nágrenni eldstöðvarinnar.

 - - - -

Grímsvötn - staða 24. maí 2011 kl. 16:00.
Minnisblað frá Veðurstofu Íslands og Jarðvísindastofnun Háskólans

Unnið af:
Gunnari B. Guðmundssyni og Freysteini Sigmundssyni og upplýsingum frá Elínu Björk Jónasdóttur, Árna Sigurðssyni, Þórði Arasyni, Bergþóru S. Þorbjarnardóttur, Matthew J. Roberts, Gunnari Sigurðssyni, Birni Oddssyni, Magnúsi Tuma Guðmundssyni, Ingibjörgu Jónsdóttur og Sigrúnu Hreinsdóttur.

Byggt á:
Jarðskjálftamælum, vatnamælingum, GPS mælum, veðurratsjá, tilkynningum á vefnum um öskufall, eldingamæligögnum bresku veðurstofunnar, MODIS og NOAA gervihnattamyndum.

Gosmökkur:
Hæð:
Gosmökkurinn hefur að öllum líkindum verið undir 5 km hæð seint í nótt og snemma í morgun en ekki sást til hans vegna veðurs. Ský yfir Vatnajökli voru í 5-7 km hæð og mökkurinn náði ekki upp fyrir skýjabakkann. Gosmökkurinn fór í 8 km kl. 14 en lækkaði fljótt aftur. Skv. flugmönnum sem hafa farið yfir svæðið er mökkurinn í uþb. 10 þúsund fetum og er að mestu ljós , en fer upp í 15 þúsund fet (3-5 km) og dökknar þá um leið. Áætlað kvikuflæði út frá hæð gosmakkar jafngildir um 10-70 tonnum/ s af gjósku. Ský hylja allstóran hluta Vatnajökuls og því erfitt að greina gosmökk þar á gervitunglamyndum. Sunnan Íslands sést öskuslæða í suður og suðaustur, yfir 800 km frá gosstöðvunum.
Stefna: Mökkinn rekur undan norðanvindinum sem er ansi hvass á svæðinu, og fer í SSV.
Litur: Aðallega ljósgrár.
Gjóskufall: Þykktarás megin gjóskugeirans liggur í stefnu milli S til SSV frá Grímsvötnum. Þykktin er um 5 cm í Fljótshverfi. Samkvæmt viðtölum við veðurathugunarfólk, liggur dökkur og vel afmarkaður öskumökkur milli Lómagnúps og Mýrdalsjökuls (að Hjörleifshöfða). Mökkurinn er ekki mjög þykkur og er fjúkandi aska á bland. Á Kirkjubæjarklaustri hafði öskufall minnkað frá því sem það hafði verið daginn áður. Skyggnið í morgun náði 200 m og mögulegt að vera úti án hlífðargleraugna. Hins vegar dimmdi yfir aftur undir hádegið og
skyggni minnkaði í um 100 m
Eldingar: Engar eldingar hafa mælst síðan um miðjan dag í gær.

Drunur:
Engar fregnir hafa verið af drunum.

Bræðsluvatn:
Ekki hafa sést nein ummerki um vatnavexti í Gígju eða Núpsvötnum vegna gossins. Eldstöðvarnar eru á svipuðum slóðum innan Grímsvatnaöskjunnar og 2004 og því nær gosið ekki að bræða mikinn ís og ekki eru líkur á stóru hlaupi. Leiðni hefur hækkað í Núpsvötnum vegna öskufalls í Súlu og Núpsá. Ekki hefur sést breyting á leiðni í Gígju.

Aðstæður á gosstað:
Gosið er í suðvesturhorni Grímsvatna. Vegna veðurs hefur ekki verið flogið yfir gosstöðvarnar í dag og ekki komist að gosstöðvum á jörðu niðri.

Órói:
Gosórói á jarðskjálftamælinum á Grímsfjalli hefur verið nokkuð stöðugur frá miðjum degi í gær en inn á milli hafa komið sterkari hviður.

Jarðskjálftar:
Engir jarðskjálftar hafa mælst í eldstöðinni sjálfri. Þrír skjálftar á stærðarbilinu 1,2-1,8 mældust í gærkvöldi um 12-20 km suður og suðvestur af eldstöðinni. Upptök þeirra voru við yfirborð og eru mögulega ísskjálftar.

GPS-aflögun:
GPS-mælistöð á Grímsfjalli sýnir óverulega tilfærslu jarðskorpunnar frá kl. 00:00 – 24:00 í gær.

Heildarmat:
Breytingar á hæð gosmakkar, öskufalli í byggð, fjölda eldinga, skjálftaóróa og jarðskorpuhreyfingar benda til þess að áfram dragi úr eldgosinu, og sprengivirkni nú sé aðeins lítið brot af því sem var í upphafi.

- - - -

Grímsvötn - staða 23. maí 2011 kl. 17:00.
Minnisblað frá Veðurstofu Íslands og Jarðvísindastofnun Háskólans

Unnið af:
Gunnari B. Guðmundssyni, Rikke Pedersen, Níels Óskarssyni, Einari M. Einarssyni, Árna Sigurðssyni, Þórði Arasyni, Bergþóru S. Þorbjarnardóttur, Matthew J. Roberts og Sigrúnu Hreinsdóttur

Byggt á:
Jarðskjálftamælum, vatnamælingum, GPS mælum, veðurratsjá, tilkynningum á vefnum um öskufall, eldingamæligögnum bresku veðurstofunnar og MODIS gervihnattamyndum.

Gosmökkur:
Hæð:
Gosmökkurinn náði 8 - 10 km hæð í nótt og fram á morgun. Hæðin á mekkinum hefur verið í kring um 5 til 9 kílómetra síðustu tímana en hafa ber í huga að mjög hvöss norðanátt er á staðnum sem haft getur áhrif á hæðina.
Stefna: Meginmökkurinn fer til suðurs. Í 8 km og hærra er austanátt og fer þá sá hluti mökksins í vestur.
Litur: Brún- eða gráleitur og stundum svartur næst gosstað.
Gjóskufall: Mikið öskufall frá Vík í Mýrdal og austur fyrir Öræfajökull. Mest öskufall hefur verið í nágrenni Kirkjubæjarklausturs. Öskuryks hefur orðið vart víða um land nema á norðvestanverðu landinu. Rannsakað var sýni frá Kirkjubæjarklaustri, safnað um kl 1 aðfaranótt 22. maí 2011. Öskufall var þá um 9,4 g pr fermetra. Eins og í undanförnum Grímsvatnagosum er fyrsta askan hreint glerríkt berg með mjög lítið magn efna á yfirborði. Askan inniheldur 5-10 mg/kg af vatnsleysanlegum flúor á yfirborði. Sýrustig skolvatns (1g aska, 5g vatn) er veikbasískt - pH 8,6, sem bendir til að askan hafi sundrast í vatnsgufu eins og í upphafi annara Grímsvatnagosa. Við þær aðstæður leitar sýra úr eldfjallagasi í gufuna og þéttivatn úr henni.
Eldingar: Milli kl. 17-18 í gær mældust um 300 eldingar en miklu minna eftir það. Þær voru tíðastar í mekkinum sunnan Grímsvatna.

Drunur:
Engar fregnir hafa verið af drunum.

Bræðsluvatn:
Engar breytingar hafa mælst á vatnshæð í Gígju og Núpsvötnum. Þar sem gosið er nánast á sama stað innan Grímsvatnaöskjunnar og í seinasta gosi, má reikna með að lítil ísbráðnun sé í gangi og því er ekki reiknað með vatnavöxtum á næstu dögum.

Aðstæður á gosstað:
Gosið kemur upp í suðvesturhorni Grímsvatna, á sama stað og gaus 2004. Kvikan er basísk og tætist í gjósku vegna snertingar við utanaðkomandi vatn. Mjög kröftugar sprengingar verða á gosstaðnum.

Órói:
Gosórói á mælinum á Grímsfjalli var nokkuð stöðugur í gærkvöldi og fram á nótt. Í morgun og fram eftir degi hafa verið nokkrar sveiflur í honum en lítillega hefur dregið úr gosóróanum frá því í nótt.

Jarðskjálftar:
Engir jarðskjálftar hafa mælst í eldstöðinni síðan seinni partinn í gær.

GPS-aflögun:
Hröð færsla mældist á samfelldri GPS stöð á Grímsfjalli (GFUM) á fyrstu klukkutímum eldgossins. GFUM er staðsett 5 km austan við gosstöðvarnar. Á fyrstu fjórum tímum gossins færðist stöðin u.þ.b. 20 cm í norður, 15 cm í vestur og seig 10 cm. Heildarfærslan á fyrstu tveimur dögum gossins er um 50 cm í NV og 25 cm sig. Þessar færslur eru um 60% meiri heldur en sambærilegar mælingar frá Grímsvatnagosunum 1998 og 2004.

Heildarmat:
Dregið hefur úr gosinu frá því í gær. Ekkert hraunrennsli var úr gígnum í morgun.

- - - -

22. maí 2011, sunnudagur

Grímsvötn - staða 22. maí 2011 kl. 17:00.
Minnisblað frá Veðurstofu Íslands og Jarðvísindastofnun Háskólans

Unnið af:
Magnúsi Tuma Guðmundssyni, Ingibjörgu Jónsdóttur, Þórdísi Högnadóttur, Birni Oddsyni, Steinunni S. Jakobsdóttur, Gunnari Sigurðssyni og Óla Þór Árnasyni. 
   
Byggt á: 
Jarðskjálftamælum, vatnamælingum, GPS mælum, upplýsingum úr flugi kl. 9 - 11, veðurratsjá, tilkynningum á vefnum um öskufall, eldingamæligögnum bresku veðurstofunnar og MODIS gervihnattamyndum.

Gosmökkur:
Hæð: 
 Gosmökkurinn náði 15 - 19 km hæð í nótt og fram á morgun. Hæðin á mekkinum hefur verið í kring um 14 til 15 kílómetra síðustu tvo tímana en frá hádegi til u.þ.b. kl. 15 hélt mökkurinn sig í um 10 kílómetra hæð.
Stefna: Meginmökkurinn fer til suðurs.  Gisið og lægra ský berst til suðvesturs og fer yfir austanvert Suðurlandsundirlendi.  Mökkurinn myndar  síðan um 60 km langt nánast hringlaga ský umhverfis gosstöðvarnar með neðra borð í um 5 km hæð.  Frá því liggur mjög gisið ský til norðurs og náði það um 450 km norður fyrir gosstaðinn kl. 14:54.
Litur:  Brún- eða gráleitur og stundum svartur næst gosstað.
Gjóskufall:  Gríðarmikið öskufall frá Kirkjubæjarklaustri og inn á miðjan Mýrdalssand.  Skyggni oft nánast ekkert. Öskufallið er þéttast sunnan við eldstöðina. Útfellingin er mun minni norður- og austuraf.
Eldingar:  Eldingar hafa verið nokkuð stöðugt 60 - 70 á klukkutíma síðustu tímana og eru þær tíðastar í mekkinum sunnan Grímsvatna.

Drunur:
Engar fregnir hafa verið af drunum.

Bræðsluvatn: 
Engar breytingar hafa mælst á vatnshæð í Gígju og Núpsvötnum. Leiðnipúls mældist í Núpsvötnum og náði hann hámarki um klukkan 11 í morgun. Þessi púls er að öllum líkindum vegna öskufalls. Þar sem gosið er nánast á sama stað innan Grímsvatnaöskjunnar og í seinasta gosi, má reikna með að lítil ísbráðnun sé í gangi og því er ekki reiknað með vatnavöxtum á næstu dögum.

Aðstæður á gosstað:
Gosið kemur upp í suðvesturhorni Grímsvatna, á sama stað og gaus 2004.  Kvikan er basísk og tætist í gjósku vegna snertingar við utanaðkomandi vatn.  Mjög kröftugar sprengingar verða á gosstaðnum.

Órói:
Órói frá Grímsfjalli var í hámarki klukkan 19 í gær. Nokkur sveifla er í óróanum fram til klukkan rúmlega 22 en eftir það fer heldur að draga úr honum. Óróinn mælist minnstur á milli klukkan 9 og 11 í morgun og hefur aukist örlítið síðan.

Jarðskjálftar:
Um klukkan 17:30 í gærkvöldi hófst skjálftavirkni í Grímsvötnum með fjölda smáskjálfta. Stærstu skjálftarnir náðu stærð 3 og þó nokkrir voru yfir 2,5 að stærð. Eftir því sem óróinn jókst varð erfiðara að greina skjálftana. Upp úr klukkan 19 fór skjálftum fækkandi en þá var óróinn einnig í hámarki.

GPS-aflögun:
Litlar breytingar að sjá enn sem komið er. Þó eru vísbendingar um færslu til vesturs og norðurs eftir að gos hófst.

Heildarmat:
Lítillega hefur dregið úr gosinu frá því það var í hámarki síðastliðna nótt þegar kvikuflæði kann að hafa náð yfir 10 þúsund tonnum á sekúndu.  Kvikustreymi síðdegis er talið af stærðargráðunni 2-5 þúsund tonn á sekúndu.  Ekkert hraunrennsli var úr gígnum í morgun.

Eldgos hefst í Grímsvötnum 21. maí 2011

Eldgos hófst í Grímsvötnum um kl. 18-19 þann 21. maí. Kröftug skjálftahrina hófst um klukkustund fyrir gosið. Öskuhlaðinn gosmökkur steig upp í um 17 km hæð (um 55000 fet, áætlað út frá veðurradar, könnunarflugi og tilkynningum flugmanna). Aska dreifðist úr neðri hluta makkarins til suðurs en barst til austurs úr efri hluta hans. Nokkrum klukkutímum eftir að gos hófst tók aska að falla í byggð við sunnanverðan Vatnajökul, í yfir 50 km fjarlægð frá gosstöðvunum.
 
Grímsvötn eru það eldfjall á Íslandi sem gýs hvað oftast. Þar eru þrjár samliggjandi öskjur og í þeirri yngstu er að finna vatnið sem eldstöðin er kennd við. Eldfjallið er hulið jökli þar sem liggur nálægt miðju Vatnajökuls. Þar kemur einkum upp basaltkvika sem tvístrast þegar hún kemst í snertingu við ís og bræðsluvatn, svo úr verður sprengigos.
 
Fyrsta könnunarflug og staðsetningar jarðskjálfta benda til að gosstöðvarnar séu við suðurjaðar Grímsvatnaöskjunnar. Ís er þar frekar þunnur (50-200 m) og búist er við að bræðsluvatn safnist fyrir í byrjun í Grímsvötnum. Jökulhlaup fram á Skeiðarársand gæti fylgt síðar.
 
Hæð gosmakkarins í byrjun þessa Grímsvatnagoss, um 17 km, er miklu meiri en í Grímsvatnagosinu 2004, en þá reis mökkur upp í um 6-10 km hæð yfir gosstöðvar. Mökkurinn er einnig hærri en í gosinu í Eyjafjallajökli í fyrra.
 
Landmælingar á GPS-mælistöð á Grímsfjalli hafa sýnt stöðugt landris og útþenslu um nokkra sentímetra á ári síðan 2004, túlkað sem afleiðing af kvikustreymi inn í grunnstætt kvikuhólf undir Grímsvötnum. Annar langtíma forboði eldgossins var aukin skjálftavirkni síðustu mánuði. Þá varð jafnframt vart við aukinn jarðhita mánuðina fyrir gos.
 
Öskufallsspá gerir ráð fyrir að flugumferð raskist innanlands og í nágrenni landsins.
 
Upplýsingar: Veðurstofa Íslands (www.vedur.is), Jarðvísindastofnun og Norræna eldfjallasetrið, Háskóla Íslands (www.jardvis.hi.is).
 
Samantekt: Freysteinn Sigmundsson (fs@hi.is), Steinunn Jakobsdóttir (ssj@vedur.is), Guðrún Larsen (glare@raunvis.hi.is), Björn Oddsson (bjornod@hi.is), Þórdís Högnadóttir (disah@raunvis.hi.is), Sigurlaug Hjaltadóttir (slauga@hi.is), Magnús Tumi Guðmundsson (mtg@hi.is).

                               

Myndir teknar í yfirlitsflugi að kvöldi 21. maí. Ljósmyndari: Þórdís Högnadóttir
 

 

Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is