Dósent í haffræði
Laust er til umsóknar starf kennara á sviði hafefnafræði eða hafeðlisfræði við Jarðvísindadeild Verkfræði- og náttúruvísindasviðs Háskóla Íslands. Starfið er hluti af uppbyggingu rannsókna og kennslu í haffræði við Háskóla Íslands.
Kennarinn mun hafa starfsaðstöðu á Jarðvísindastofnun Háskólans, sem er faglega og fjárhagslega sjálfstæð stofnun innan Raunvísindastofnunar Háskólans. Jarðvísindastofnun hefur sterk alþjóðleg tengsl og mörg rannsóknaverkefni eru unnin í víðtæku samstarfi vísindamanna hérlendis og erlendis. Þar eru stundaðar fjölbreyttar rannsóknir á sviðum bergfræði og bergefnafræði, ísaldarjarðfræði og setlagafræði, eðlisrænnar jarð- og landfræði, jarðefnafræði vatns, veðrunar og ummyndunar, margvíslegrar eldfjallafræði, jarðeðlisfræði, aflögunar, jarðskjálfta- og jöklafræði auk rannsókna í haffræði. Á Jarðvísindastofnun er fjölbreyttur tækjabúnaður til rannsókna á vatni, seti og föstu bergi sem nýst geta nýjum starfsmönnum, m.a. rannsóknastofur á sviði jarðefna- og bergfræði auk ýmissa tækja til jarðeðlisfræðilegra mælinga.
Áætlað er að umsækjandi geti hafið störf 1. mars 2021 eða eftir samkomulagi.
Umsóknarfrestur er til 25. september 2020.