Háskóli Íslands

Halldór Geirsson og Þóra Árnadóttir hljóta verkefnisstyrk á sviði Raunvísinda og stærðfræði fyrir verkefnið:

Víxlverkun jarðhita, jarðskjálfta og kvikuhreyfinga á Hengilssvæðinu

Ágrip:

Markmið þessa verkefnis er að rannsaka víxlverkun ferla í jarðhitavinnslu, jarðskjálftavirkni og kvikuhreyfingum með sérstaka áherslu á Hengilssvæðið – sem er náttúruleg rannsóknarstofa fyrir verkefnið. Mikilvæg þróun í jarðhitavinnslu á Hengilssvæðinu varð árið 2016 þegar jarðhitavinnsla hófst úr Hverahlíð með tilheyrandi breytingum á aflögun, vökvaþrýsting og spennum í jarðskorpunni. Við munum nota nýjar og eldri mælingar á aflögun, jarðskjálftavirkni og jarðhitavinnslu til að setja upp reiknilíkön af jarðskorpuferlum og tilheyrandi spennubreytingum; meta spennubreytingar beint út frá jarðskjálftum; kortleggja misgengi með háupplausnar afstæðum jarðskjálftastaðsetningum; og samþætta niðurstöðurnar með þróuðu reiknilíkani sem til er af jarðhitakerfum Hengilssvæðisins. Niðurstöður verkefnisins munu auka þekkingu á einu virkasta eldstöðvakerfi Íslands hvað jarðskjálta varðar, og auka skilning á uppruna og sjálfbærni jarðhitakerfa.

Verkefnið mun greiða laun tveggja nýrra doktorsnema við HÍ og verður unnið í samvinnu við hóp vísindamanna, m.a. Kristínu Vogfjörð, Gunnar Guðmundsson, Benedikt Ófeigsson og Kristínu Jónsdóttur ( Veðurstofu Íslands), Bjarna R. Kristjánsson (Orkuveitu Reykjavíkur), Freystein Sigmundsson (Jarðvísindastofnun Háskólans), Björn Lund (Uppsala háskóla) og Andrew Hooper (háskólinn í Leeds).

Nánari upplýsingar um styrkhafa og styrkt verkefni má finna á vef Rannís

Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is