Háskóli Íslands

HeklaGPS staðsetning: 63°59'29''N 19°39'41''V
Hæsti punktur: Um 1490 m.y.s.

Hekla er ein virkasta megineldstöð á Íslandi. Hún er á jaðri eystra gosbeltisins á Suðurlandi, þar sem Suðurlandsskjálftabeltið sker gosbeltið.
Megineldstöðin er virk á um 5 km sprunguröð sem hefur gosið margoft og byggt upp eldhrygg sem líkist eldkeilu séð þvert á sprungustefnu. Eldfjallið er hlaðið upp ofan á móbergssökkul og er í miðju 40 km sprungusveims með NA-SV stefnu, sem hefur verið virkur á nútíma og eingöngu framleitt basalthraun. Hekla hefur verið virk frá því á fyrri hluta nútíma og efnasamsetning kviku í gosum hennar er frá rhýólíti að basaltísku andesíti, stundum í sama gosinu. Gjóskulögin eru því oft tvílit eða marglit þegar kvikugerðirnar tvær blandast í misjöfnum hlutföllum fyrir gos. Heklugos hefjast með þeytigosi og gjóskuframleiðslu en enda sem flæðigos með hraunrennsli. Þó hefur virknin breyst nokkuð með tíma. Frá forsögulegum tíma eru þekkt fá en stór þeytigos sem framleiddu mikla gjósku, en sennilega lítið hraun. Í byrjun þessara stóru gosa kom upp súr kvika (rhýólít), en ísúr (basaltískt andesít) er leið á gos. Minni þeytigos urðu milli stórgosanna, en lítið er vitað um hraun frá þeim.  Stóru gosin hafa verið tímasett fyrir rúmum 7000, 4200, 3900 og 3000 árum.

Á sögulegum tíma hafa orðið 18 gos í Heklu svo vitað sé, eða að meðaltali tvö á hverri öld. Þau eru tímasett árin 1104, 1158, 1206, 1222, 1300, 1341, 1389, 1510, 1597, 1636, 1693, 1766, 1845, 1947, 1970, 1980, 1991 and 2000 e.Kr. Öll hófust þau með þeytigosi en fyrsta kvikan var missúr eftir því hve langt var frá síðasta gosi, og flestum lauk með hraunrennsli af basaltísku andesíti. Aðeins í því fyrsta, á árinu 1104, kom eingöngu upp súr gjóska líkt og í stóru forsögulegu gosunum. Seinni hluta 20. aldar breyttist goshegðun Heklu enn, eftir fremur stórt blandað gos 1947 varð minna gos árið 1970 og síðan þá á um 10 ára fresti. Þessi gos eru einnig blanda þeytigosa og hraunrennslis, en efnasamsetningin er nær eingöngu basaltískt andesít.

Guðrún Sverrisdóttir tók saman í janúar 2011.

Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is