Háskóli Íslands

Hekla - Gossaga

Hekla 2000 - Sigurjón Sindrason

Heklugos árið 2000   Mynd: Sigurjón Sindrason

Hekla hefur gosið mjög oft á Nútíma, og alls framleitt mikið magn af vikri sem stundum hefur þakið allt að tveim þriðju landsins (þ.e. fyrir 7000, 4500 og 2900 árum og svo árin 1104 og 1158). Fyrsta gosið á sögulegum tíma, þ.e. 1104, var gríðarmikið sprengigos sem lagði Þjórsárdal í auðn. Í því komu upp um 2,5 rúmkílómetrar af súrri (rhyodasít) gjósku, sem barst einkum til NNV. Í eftirtöldum sögulegum gosum í Heklu hefur gosið bæði hrauni og gjósku: 1158, 1206, 1222, 1300, 1341, 1389, 1510, 1597, 1636, 1693, 1766, 1845, 1947, 1970, 1980, 1991 og 2000. Sum þeirra ollu miklum búsifjum, sér í lagi gosin á árunum 1510, 1693 og 1766. Heildar-rúmmál hrauna frá Heklu á sögulegum tíma er um 8 rúmkm., og heildar-rúmmál gjósku er um 7 rúmkm.

Milli gosa verður hægfara þróun á samsetningu bráðarinnar í kvikuhólfi Heklu, sem leiðir til þess að kísil-  og alkali-magn í kvikunni eykst eftir því sem goshlé hefur verið lengra. Sömuleiðis verður þá meiri kraftur í upphafi gossins, og meira kemur upp af gosefnum. Eftir að sú sprengivirkni er afstaðin, getur rólegra hraungos staðið í marga mánuði. Samsetning gosefnanna breytist þannig að fyrst kemur upp kísilríkt efni og síðar fyrrnefnt íslandít með 54-55% SiO2. Reglubundin breyting á samsetningu á sér stað í öllum þekktum Heklugosum á Nútíma. Í stærstu gjóskugosunum eru afurðirnar í goslok þó kísilríkari en hraunin sem orðið hafa til á sögulegum tíma. Nánari rannsókn á mynstri breytinganna í samsetningu bendir til að ekki sé hægt að skýra það með neinni einstakri gerð af ferli á borð við hlutbráðnun.

Auk 18 gosa úr Heklu sjálfri eru 5 þekkt úr nágrenni hennar á sögulegum tíma. Í sumum þeirra síðarnefndu, eins og Rauðubjalla-gosinu 1554 og gosinu í Lambafit 1913, kom upp svonefnt alkali-ólivinbasalt sem er greinilega frábrugðið hinum eiginlegu Hekluhraunum. Þessi blágrýtishraun koma að líkindum úr ytri hlutum kvikuhólfsins sem er neðst í jarðskorpunni. Það er lagskipt eftir eðlisþyngd og hefur einnig breytilega samsetningu frá einum stað til annars. Lögun þessa hólfs, staðsetning þess vestantil í gliðnunarbelti sem er að teygja sig til suðvesturs, og tengsl við veikleika í jarðskorpunni, á allt þátt í hinni miklu gosvirkni í Heklu.

Síðustu gos í Heklu urðu 1970, 1980, 1991 og 2000:

Gosið 1970 hófst 5. maí og opnuðust þá samtímis sprungur norðaustan, sunnan og suðvestan við Heklu-hrygginn. Gjóska kom upp fyrstu 2 klukkutímana, alls um 30 milljón rúmmetrar sem bárust til NNV. Hámarks-þykkt lagsins nærri Heklu er 18 cm, í 170 km fjarlægð er þykktin 4 mm. Svæðið innan 0.1 mm jafnþykktarlínu er næstum tíundi hluti Íslands að flatarmáli. Í gjóskunni var mikið af flúor (yfir 2000 ppm sumstaðar) sem olli eituráhrifum og dauða á búpeningi á beit, einkum norðanlands. Þann 20. maí opnaðist ný sprunga, 1 km löng, um 1 km norðan sprungunnar frá 5. maí sem hætti að gjósa um líkt leyti. Fyrsta daginn voru 8 til 10 gígar virkir á nýju sprungunni en smátt og smátt dróst gosið þar saman uns einn virkur gígur var eftir. Hann hafði byggt upp um 100 m háa gjallkeilu í júnílok. Gosið 1980-81 hófst í ágúst 1980 með því að gjósku og hrauni gaus á 7 km langri sprungu á megin-hrygg Heklu. Þessi kafli stóð í 3 daga og framleiddi um 60 milljón rúmmetra gjósku auk hrauns sem var um 22.5 ferkílómetrar að stærð (meðalþykkt 5 m). Eftir margra mánaða hlé hófst nýr kafli í gosinu í apríl 1981 og stóð í viku. Þá var aðeins toppgígurinn virkur, og framleiddi hraun sem þakti 6 ferkílómetra. Enn gaus svo 1991, og hófust þeir atburðir 17 janúar en lauk 11 mars. Í gosinu kom nær eingöngu upp andesit-hraun sem nær yfir 23 ferkílómetra og er rúmmál þess áætlað 0.15 rúmkílómetrar. Jarðskjálftar urðu tæpum hálftíma fyrir gosið, og sömuleiðis snögg aflögun jarðskorpunnar sem mælitæki í borholum á svæðinu skráðu. Sprengivirknin í upphafi gossins var mjög skammlíf, og myndaði aðeins um 0.02 rúmkm. af gjósku. Gosmökkurinn náði 11.5 km hæð á aðeins 10 mínútum en losnaði frá fjallinu faeinum klukkustundum síðar. Annan dag gossins hafði virknin dregist saman á einn stað á gossprungunni og myndaðist þar síðan gígur. Um 800 rúmmetrar gosefna komu upp á hverri sekúndu að meðaltali fyrstu tvo dagana, en síðar minnkaði framleiðslan í 10-20 og eftir það hægar í 1 rúmmetra á sek., var svo á bilinu 1-12 rúmmetrar á sek. til gosloka.

Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is