Háskóli Íslands

Hekla - Virkni og vöktun

Staða í maí 2012

Á sögulegum tíma hefur Hekla gosið tvisvar á öld að meðaltali. Á seinni hluta síðustu aldar jókst gostíðnin. Árið 1970 voru aðeins 23 ár liðin frá stóru gosi, en gosið 1970 var mun minna. Frá þeim tíma hefur Hekla gosið á um það bil 10 ára fresti. Eftir gosið 1980 hófust mælingar sem áttu að veita vitneskju um hvað væri að gerast undir fjallinu milli eldgosa, og eftir gosið 1991 kom í ljós að slíkar mælingar gætu gert mögulegt að spá fyrir um gos. Þetta er gert með því að fylgjast náið með jarðskorpuhreyfingum á svæðinu og það hefur komið í ljós að fjallið lyftist fyrir gos þegar kvika safnast fyrir undir því, en sígur aftur eftir gos. Þessar mælingar voru fyrst einfaldar hallamælingar, en nú eru notaðar mjög nákvæmar landmælingar með GPS tækni og InSAR myndatöku. Myndin hér að neðan sýnir landhæðarbreytingar við Heklu á tímabilinu 1988 til 2009. Þar sést hvernig land byrjar að rísa strax eftir að gosi lýkur, landhæð virðist ná hámarki og stendur í stað í mislangan tíma á undan næsta gosi, en þá sígur landið mjög snögglega. Þessi mynd segir okkur að þegar land hættir að rísa megi fara að búast við næsta gosi. Það sem veldur hinsvegar óvissu er hve fjallið virðist “bíða” mislengi með gos þegar hámarksrisi er náð. Í núverandi fasa virðist sem það bíði lengur en fyrr eftir að “hásléttu” (plateau) mælinganna er náð, og samkvæmt mælingum frá 2011 hefur landris byrjað aftur. Þetta má alveg túlka þannig að hólfið sem kvikan er að safnast í sé að stækka, rúmi því meira efni og tíminn milli gosa lengist aftur. Enn verður þó að líta svo á að eldfjallið sé tilbúið fyrir gos og gæta varúðar í nágrenni þess samkvæmt því. Ástæða þess hve mikil áhersla er lögð á varúð vegna yfirvofandi Heklugoss er fyrst og fremst hve stuttur fyrirvarinn er. Það verður ekki aukin skjálftavirkni í Heklu vikur eða mánuði fyrir gos eins og algengt er með aðrar eldstöðvar. Aðeins um 1 klst. fyrir gos eykst smáskjálftavirkni og órói undir fjallinu. Einnig er orðið mjög vinsælt að ganga á Heklu og því aukast líkurnar á að fólk sé statt á fjallinu þegar gos hefst.
 

Mynd úr grein: Ofeigsson B. G., A. Hooper, F. Sigmundsson, E. Sturkell, and R. Grapenthin (2011), Deep magma storage at Hekla volcano, Iceland, revealed by InSAR time series analysis  J. Geophys. Res., 116,  B05401   DOI: 10.1029/2010JB007576 

Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is