Háskóli Íslands

Hópur frá Jarðvísindastofnun fór austur að Heklu 6. júní, síðastliðinn, til að fylgjast með hallbreytingum á mælistöð við Næfurholt. Í hópnum voru Ásta Rut Hjartardóttir, Halldór Ólafsson, Páll Einarsson og Stéphanie Dumont.

naef-e1606.jpg

Hallamælingar við Heklu sýna að kvikuþrýstingur undir fjallinu vex stöðugt, nema í eldgosunum 1991 0g 2000.  Þá féll hann. Línuritið gerði Erik Sturkell.

 

Hvert er ástand Heklu?

Ein algengasta spurning sem eftirlitsfólk með eldstöðvum landsins fær frá almenningi og fjölmiðlafólki fjallar um goslíkur í eldstöðvum landsins og þá sérstaklega í Heklu. Hvar verður næsta eldgos á landinu og hvenær gýs Hekla næst? Þetta eru eðlilegar spurningar í landi þar sem eru meira en 30 virk eldstöðvakerfi og eldgos verða að meðaltali annað hvert ár. Á síðustu 45 árum hafa orðið 22 staðfest eldgos á landinu auk smærri atburða undir jöklum sem gætu verið smágos sem ekki hafa náð að bræða sig í gegnum jökulinn. Helstu aðferðir til að fylgjast með ástandi eldstöðva byggjast á skjálftamælum og landmælingatækni, svo sem GPS-mælingum, hallamælingum og ratsjármælingum úr gervitunglum. Eldstöð sem er að undirbúa gos, tútnar oft út vegna kvikusöfnunar í kvikuhólfi. Þessu fylgja skjálftar og mælanleg aflögun á yfirborði jarðar í kringum eldfjallið, mörgum mánuðum eða jafnvel árum fyrir gos. Kröftugar skjálftahrinur fylgja því svo þegar kvikan brýst að lokum út úr hólfinu og leitar upp til yfirborðs. Þessi mælanlegi undanfari goss getur verið mjög skammvinnur, klukkustundir eða dagar. Þegar þessi hegðun íslenskra eldstöðva er athuguð kemur í ljós að flest kerfin eru í biðstöðu. Hreyfingar eru litlar sem engar. Nokkur kerfi sýna óreglulega eða óvissa hegðun en þrjú skera sig nokkuð úr. Hekla, Grímsvötn og Bárðarbunga eru í óða önn að búa sig undir næsta gos. Undir þessum eldstöðvum safnast um þessar mundir saman kvika. Kvikusöfnunin kemur fram með ýmsu móti, allt eftir eðli hverrar eldstöðvar. Ef kvikusöfnunin heldur nógu lengi áfram leiðir það til eldgoss. Tímasetning slíks goss er óviss. Hún fer eftir því hversu ör kvikusöfnunin er og hve lengi þrýstingur jarðskorpunnar getur staðið á móti því að kvikan brjótist út úr hólfi sínu. Spennuástand jarðskorpunnar ræður því einnig hvort kvikan kemst upp á yfirborð eða hvort auðveldara er fyrir hana að opna nýjar sprungur og setjast að neðanjarðar. Þar sem flest af þessu er illa þekkt, er ógerningur að spá fyrir um atburðarás af nákvæmni. Það verður því að fylgjast náið með framvindunni á mælitækjum. Einnig er þýðingarmikið að reyna að gera sér grein fyrir hvaða atburðarás sé líkleg eða möguleg við tilteknar aðstæður.

     En snúum okkur nú að Heklu. Hún hefur gosið nokkuð títt og reglulega síðustu áratugina, 1970, 1980-81, 1991, og 2000. Þetta er ný hegðun. Á fyrri öldum gaus hún einu sinni til tvisvar á öld. Rétt er að geta þess að reglusemi eins og Hekla hefur sýnt undanfarið er óvenjuleg í heimi eldfjalla. Miklu algengara er að eldfjöll gjósi með mjög óreglulegu millibili. Hættulegustu gosin verða stundum í lok langs hvíldartímabils. Komið hefur í ljós eftir að mælingar hófust við Heklu, að eldstöðin safnar kviku á milli gosa. Kvikuþrýstingurinn vex jafnt og þétt fram að gosi en þá minnkar hann snögglega við það að hluti kvikunnar leitar til yfirborðs og fjallið hjaðnar. Strax eftir gos byrjar þrýstingur aftur að vaxa undir fjallinu. Nýtt gos verður síðan ekki fyrr en þrýstingurinn hefur aftur náð fyrra hágildi. Á meðfylgjandi línuriti má sjá hvernig halli lands nálægt Næfurholti á Rangárvöllum endurspeglar þrýstinginn undir Heklu. Fjallið hjaðnaði í gosunum 1991 og 2000, en strax að loknum gosunum fór það að tútna út aftur. Fjallið hefur stöðugt tútnað út síðan 2000 og var komið í fyrri hæð um 2006. Gera má ráð fyrir að þrýstingur í kvikuhólfinu hafi þá verið orðinn nægilegur til að koma upp gosi. Allan tímann síðan hefur þrýstingur þó verið að aukast umfram þetta. Síðasta mæling fór fram nú í júní og staðfestir hún þrýstingshækkunina.

     En þýðir þetta að Hekla sé um það bil að springa í loft upp eða að miklar hamfarir séu í aðsigi með tilheyrandi truflunum á flugumferð, eins og lesa má í erlendum fjölmiðlum?  Hér þurfa menn að halda ró sinni. Í fyrsta lagi er þetta ástand Heklu búið að vara í 10 ár. Engar sérstakar vísbendingar eru um að að gos sé um það bil að bresta á. Eldstöðin gæti allt eins haldið í sér í nokkur ár eða áratugi í viðbót. Engin aðferð er þekkt til að ákvarða með löngum fyrirvara hvenær næsta gos verður. Frá fyrri reynslu verður að teljast líklegt að fjallið gefi ekki frá sér merki um yfirvofandi gos fyrr en  ½ - 1 ½  klukkustund áður en kvika kemur til yfirborðs. Það er undir hælinn lagt hvort sá fyrirvari nýtist til að gefa út viðvörun um gos. Þetta er umhugsunarefni vegna vaxandi ferðamennsku á fjallinu. Gönguhópar í hlíðum Heklu geta ekki reiknað með að fá viðvörun sem gagn er í. Það er einnig áhyggjuefni margra að fjölfarin flugleið liggur beint yfir topp Heklu.

     En hvað með truflun á flugumferð milli landa? Eyjafjallajökulsgosið 2010 og tjónið sem það olli er ofarlega í hugum margra. Þar er þess að gæta að aðstæður í því gosi voru um margt sérstæðar. Þar spiluðu saman gerð kvikunnar, bráðnandi jökulís, kornastærð öskunnar, tímalengd gossins og vindáttir meðan á því stóð. Gosið var í raun hvorki sérlega stórt né kraftmikið. Miklu stærri gos, eins og í Grímsvötnum 2011 og Holuhrauni 2014-1015, ollu ekki nærri eins mikilli truflun á flugumferð. Síðustu gos í Heklu (1970, 1980-81, 1991 og 2000) ollu heldur ekki mikilli truflun á flugi. Það er því ekki nein sérstök ástæða til hrakspáa um næsta gos í Heklu, þótt auðvitað þurfi alltaf að vera á varðbergi.

Páll Einarsson
30. júní 2016

Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is