Háskóli Íslands

Íslenski kristallinn sem breytti heiminum

Um 250 ára skeið var Helgustaðir í Reyðarfirði eini þekkti staður veraldar þar sem finna mátti tæra og stóra silfurbergskristalla sem hægt var að nýta til vísindarannsókna. Hundruð tonna af silfurbergi voru flutt frá námunni á þessu tímabili víða um heim og hafði silfurbergið áhrif á verk margra af frægustu vísindamönnum sögunnar, t.d. Christiaan Huygens, Isaac Newton, Jean-Baptiste Biot, David Brewster, François Arago, Augustin-Jean Fresnel, Louis Pasteur, Michael Faraday, James Clerk Maxwell og Albert Ein­stein.

Silfurbergið var því lykillinn að ýmsum ráðgátum um eðli ljóssins, raf- og segulhrif, uppbyggingu efnisheimsins, víxlverkun ljóss og efnis og eðli rúms og tíma í alheim­inum. Framþróunin varð undirstaða nýrrar samfélagsgerðar með m.a. framleiðslu og flutningi raforku, framförum í efnistækni og fjarskiptum, og matvæla- og efnaframleiðslu. Íslenska silfurbergið gegndi mikilvægu hlutverki á öllum þessum sviðum.

Saga silfurbergsins frá Helgustöðum er rakin í bókinni Silfurberg – íslenski kristallinn sem breytti heiminum, sem kom út nýlega og er eftir feðgana Leó Kristjánsson og Kristján Leósson. Leó var jarðeðlisfræðingur og vísindamaður við Jarðvísindastofnun Háskólans en hann lést fyrr á árinu. Kristján sonur hans er eðlisfræðingur og starfaði sem vísindamaður hjá eðlisfræðistofu Raunvísindastofnunar á árunum 2005-2014. Hann starfar nú sem þróunarstjóri hjá sprotafyrirtækinu DT-Equipment ehf.

Kristján Leósson er eðlisfræðingur og starfaði sem vísindamaður hjá eðlisfræðistofu Raunvísindastofnunar á árunum 2005-2014. Hann starfar nú sem þróunarstjóri hjá sprotafyrirtækinu DT-Equipment ehf. Mynd/Hulda Sif Ásmundsdóttir.

 

Heildarumfang þeirra áhrifa sem silfurbergið hafði hefur hingað til verið flestum hulið en það var fyrir tilviljun sem Leó rakst á gamlar fræðigreinar fyrir um aldarfjórðungi þar sem vísað var í silfurbergskristalla frá Íslandi og tækjabúnað sem á þeim byggði.

Kristján segir að í rúma tvo áratugi hafi Leó leitað heimilda á bóka- og skjalasöfnum víða um heim sem smám saman leiddu í ljós hin gríðarmiklu áhrif sem silfurberg frá Íslandi hafði haft á framþróun vísinda í Evrópu og víðar, allt frá 17. öld og fram á þá tuttugustu. „Afrakstur þessarar vinnu tók Leó saman í skýrslum sem hafa verið aðgengilegar á netinu um nokkurra ára skeið, bæði á ensku og íslensku. Þær byggja á lestri rösklega tíu þúsund fræðigreina og hundraða bóka um kristalla- og ljósfræði, aðallega frá tímabilinu 1780–1930.“

Skautunarsjá Jean-Baptiste Biot, líklegast smíðuð á árunum 1812–1814. Í miðju hringskífunnar er silfurbergskristall.

 

Sökum þess hversu lítið hefur farið fyrir þessu veigamikla framlagi Íslands til vísindasögunnar segist Kristján hafa fyrir nokkrum árum, í samstarfi við föður sinn, hafið vinnu við að útbúa efnið á þann hátt að það yrði aðgengilegra hinum almenna lesanda. „Auk þess vildum við setja efnið í samhengi við þróun vísinda og tækni á ofangreindu tímabili sem og aðra sögulega viðburði á Íslandi og í Evrópu.“

Bókin Silfurberg – íslenski kristallinn sem breytti heiminum, fæst í vefverslun Forlagsins og í bókabúðum.

Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is