Háskóli Íslands

Jarðvísindastofnun Háskólans hefur opnað nýjan vef, seismis.hi.is, sem hefur að geyma skjálftarit frá skjálftamælum á Íslandi á tímabilinu 1910-2010 og ýmis önnur gögn um jarðskjálfta frá sama tíma. Alls verða um 300 þúsund pappírsrit í skjálftaritasafni landsins.

Skjálftarit er línurit úr skjálftamælum, sírit sem sýna hreyfingu jarðarinnar þar sem mælarnir eru staðsettir. Úr skjálftaritunum má því lesa hvernig og hvenær jörðin bifaðist.

Vefurinn ætti að nýtast öllum sem gætu haft gagn af frumheimildum um virkni í jarðskorpu Íslands, t.d. jarðvísindamönnum sem vilja rannsaka jarðskjálfta, eldvirkni og fyrirbrigði tengd þessari virkni. Skjálftamælar veita einnig upplýsingar um innri gerð jarðar og fjarlæga skjálfta. Sagnfræðingar gætu auk þess haft gagn af skjálftaritunum, jafnvel afbrotafræðingar.

Að sögn Páls Einarssonar, prófessors emeritus við Jarðvísindadeild Háskóla Íslands og annars af upphafsmönnum verkefnisins, er tilgangur þess tvíþættur. „Annars vegar að varðveita gögnin og hins vegar að gera þau aðgengileg til rannsókna á hræringum jarðskorpunnar á Íslandi. Verkið hófst um mitt ár 2017, að frumkvæði Sigurðar Jakobssonar, fyrrverandi jarðefnafræðings hjá Jarðvísindastofnun, og stefnt er að verklokum árið 2021.“

Fyrsti jarðskjálftamælir var settur upp á Íslandi 1910 á vegum alþjóðlegra samtaka skjálftafræðinga. Þegar Veðurstofan tók til starfa voru skjálftamælingar eitt af verksviðum hennar. Mælar voru fáir og fjölgaði hægt fyrstu áratugina en á áttunda og níunda áratug síðustu aldar fjölgaði þeim ört og fleiri stofnanir komu að mælingunum. Gögnin voru skráð á pappír og safnaðist mikið af slíkum skjálftaritum þar til tölvur tóku við sem skráningartæki upp úr 1990. Síðan 2010 hafa allar skjálftamælingar verið tölvuskráðar.

Gamla skjálftaritasafnið er að mestu til í söfnum en er illa aðgengilegt til rannsókna. Lauslega áætlað telur það um 300.000 pappírsrit. Þegar er búið að skanna um 130.000 rit. Þó verkinu sé hvergi nærri lokið, miðar því vel og því hefur verið opnaður aðgangur að afrakstrinum fram til þessa.

Að verkefninu standa helstu stofnanir sem komið hafa að söfnun gagnanna í gegnum tíðina: Háskóli Íslands, Raunvísindastofnun Háskólans, Veðurstofa Íslands, Landsvirkjun, Orkuveita Reykjavíkur, Viðlagatrygging og Þjóðskjalasafn Íslands. Innviðasjóður Rannís styrkir verkefnið.

        

Skjálftaritasafnið telur um 300.000 pappírsrit. Nú þegar er búið að skanna um 130.000 rit.

Skjálftaritin berast til Öskju í kössum, frá ýmums stofnunum.

Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is