Háskóli Íslands

Jöklar á Íslandi

Jöklar á Íslandi, helstu kennistærðir:

  • Flatarmál: ~11000 km2, rúmmál ~3600 km3; massaflæði við jafnvægi er um 1.5-2 m að vatnsgildi á ári (3-4 m af snjó) (þykkt lags sem safnast að vetri en bráðnar að sumri ef jöklarnir væru í jafnvægi við loftslag).
  • Geyma um tuttugfalda meðalúrkomu, jafngildi 1 cm hækkunar sjávarborðs, jökulís væri um 35 m þykkur jafndreifður um landið.
  • Allir jöklarnir eru þíðir, spanna 0-2110m hæð, hæð jafnvægislínu er á bilinu 600-1200 m eftir landshlutum, elsti ísinn er um 800 ára.
  • Um 10% íss tapaðist á 20. öldinni, um 3% á fyrsta ártug þeirrar 21.

     Um 10% af flatarmáli Íslands er hulið jökulís. Rúmmál íssins er um 3600 km3; það jafngildir 35 m íslagi jafndreifðu yfir allt landið.  Ef ísinn bráðnaði jafngildir rúmtak hans 1 cm hækkun yfirborðs í heimshöfunum. Jöklarnir eru stærstu vatnsgeymar landsins; þeir rúma vatn sem svarar til um 20 ára úrkomu á landið allt.  Breytilegt loftslag ræður útbreiðslu og hreyfingu jöklanna og þeir móta mjög umhverfi sitt. Margar virkar eldstöðvar eru í jöklunum; eldgos og jarðhiti bræða ís og jökulhlaup vegna þess ógna byggð og mannvirkjum. Helstu vatnsföll landsins eiga upptök í jöklum, jökulvatn er nú um þriðjungur þess vatns sem fellur til sjávar af Íslandi.
     Frá því að jöklar fóru að minnka í lok 19. aldar hefur stærsti jökullinn, Vatnajökull, tapað um 10% af rúmmáli sínu sem jafngildir um 1 mm hækkað sjávarborð. Á fyrsta ártug 21. aldar hafa jöklarnir rýrnað enn hraðar vegna hlýnandi loftslags; Vatnajökull hefur hefur rýrnað um ~3% á 10 árum.  
     Dæmigert er að geislun valdi um 2/3 leysingar en varmi frá andrúmslofti 1/3. Eldgos og jarðhiti bræða líka jökulís en heildaráhrif þess á afkomu jöklanna eru lítil. Flestir skriðjöklarnir hlaupa fram á nokkurra áratuga fresti; snöggt framskrið og lækkun yfirborðs sem fylgir hefur mikil áhrif á hreyfingu þeirra, afkomu og vatnafar. Á síðustu öld var a.m.k. 10% íss fluttur á leysingasvæðin í framhlaupum í Vatnajökli.
     Samtengd reiknilíkön um hreyfingu jökla, afkomu þeirra og spá um framtíðarloftslag, benda til að jöklarnir munu tapa um 25-35% rúmmáli síns á næstu 50 árum og að 150-200 árum liðnum verði einungis eftir leifar þeirra á hæstu fjöllum.  Samkvæmt líkönunum mun afrennsli vatns frá jöklum ná hámarki um miðja þessa öld en verða aftur svipað og nú eftir um 100 ár.

Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is