Háskóli Íslands

KatlaGPS staðsetning: 63°38'0"N, 19°3'0"V
Hæsti punktur:~1500 m.a.s.l.

Á Eystra gosbeltinu er ~80 km langt eldstöðvakerfi kennt við Kötlu. Það samanstendur af megineldstöð og sprungusveimi sem teygir sig í NA átt út frá henni. Megineldstöðin er að hluta hulin Mýrdalsjökli og í henni er 600-750 m djúp og ~100 km2 stór askja. Ef litið er til gostíðni er Katla fjórða virkasta eldstöðvakerfi landsins á eftir Grímsvötnum, Bárðarbungu og Heklu en miðað við framleiðni eldstöðvakerfanna á sögulegum tíma (eftir ~870 AD) þá hefur Katla vinninginn, þar eð hún hefur myndað um 25 km3 í um 20 gosum. Þrennskonar gosvirkni er þekkt á kerfinu á Nútíma: (1) basísk þeytigos og (2) súr þeytigos, sem myndast er gossprungur opnast undir jökli, og (3) basísk flæðigos sem myndast að mestu á íslausa hluta sprungusveimsins. Basísku þeytigosin eru langalgengust en rannsóknir hafa leitt í ljós meira en 300 slík gos á síðustu 8400 árum. Ekki hefur gosið súru þeytigosi á sögulegum tíma en í það minnsta 12 slík eru þekkt á tímabilinu frá ~5500 f.Kr. til 400 e.Kr. Basísku flæðigosin eru sjaldgæfust á Kötlukerfinu, á milli þeirra geta liðið árþúsund, en þau geta myndað mikil hraun sbr. Eldgjárhraunið sem myndaðist á árunum 934-940 og er um 18 km3. Kötlugosum fylgja oft mikil jökulhlaup (sbr. Kötluhlaupið 1918).
Þekkt gos á sögulegum tíma: 1918, 1860, 1823, 1755, 1721, 1660, 1625, 1612, 1580, 1500,15. öld, 1440, 1416, 1357, 1262, 1245, 1179, 12. öld, 934/938, 920, 9. öld. Árin 1955 og 1999 komu fram jökulhlaup á Sólheimasandi sem hugsanlega tengjast eldvirkni í Kötlu en þau gos náðu ekki að brjótast upp í gegnum jökulhuluna.

Bergrún Arna Óladóttir tók saman 28.01.2011

Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is