Háskóli Íslands

Kort Þorbjörns Sigurgeirssonar af segulsviði yfir Íslandi

Þorbjörn Sigurgeirsson (1917-88) var meðal merkustu vísindamanna þjóðarinnar. Sem prófessor í eðlisfræði 1957-84 efldi hann mjög rannsóknir og kennslu í raungreinum við Háskóla Íslands. Sjá um vísindastörf hans á https://notendur.hi.is/~leo/Thorbjorn89.pdf.

Segulmælingar voru eitt helsta áhugamál Þorbjörns. Þar komu m.a. við sögu mælingar á flökti segulsviðs jarðar í rannsóknastöð sem hann kom á fót 1957 og enn er starfrækt, mælingar á segulmögnun bergs sem hann var brautryðjandi í, og ekki síst mælingar á styrk segulsviðsins yfir öllu Íslandi úr flugvél. Sá styrkur er breytilegur um fáeina hundraðshluta frá einum stað til annars. Breytingarnar endurspegla ýmsa þætti í aldri og gerð berggrunns, og koma jafnvel fram á svæðum sem eru hulin jarðvegi, sjó eða jöklum. Til síðastnefndu mælinganna hannaði Þorbjörn mjög nákvæm tæki af nýrri gerð sem hann nefndi Móða, ýmsan skráningarbúnað fyrir gögnin og síðar Loran-C staðsetningartæki í flugvélina. Tækin voru smíðuð af Jóni Sveinssyni o.fl. á rafeindaverkstæði Raunvísindastofnunar Háskólans. Skipulegar mælingar hófust 1968 á Suðvesturlandi, og þeim lauk 1980. Þorbjörn flaug sjálfur eins hreyfils vél sem notuð var við mælingarnar. Heildar-lengd mælilínanna mun vera um 33 þús. km, auk m.a. flugs til og frá þeim svæðum sem mæld voru í hverjum áfanga, og flugs við prófanir á mælibúnaði.

Níu kortblöð sem sýndu segulsviðsfrávik á fluglínunum, teiknuð á Landmælingum Íslands, voru gefin út í kvarða 1:250 000 af Raunvísindastofnun Háskólans 1970-85. Þau vöktu athygli á ýmsum fyrirbrigðum í byggingu jarðmyndana landsins sem ekki hafði verið mikið tekið eftir áður. Kortin hafa ekki verið fáanleg um nokkra hríð. Í tilefni þess að liðin eru hundrað ár frá fæðingu Þorbjörns, hafa þessi kort nú verið skönnuð í þéttleika 600 dpi og gerð aðgengileg á vef Jarðvísindastofnunar Háskólans innan Raunvísindastofnunar (http://jardvis.hi.is/segulkort_thorbjorns_sigurgeirssonar) í 300 dpi. Sömuleiðis kontúrkort af tveim kortblaðanna, en fleiri slík voru ekki teiknuð. Mæligögn Þorbjörns voru m.a. notuð í heildar-segulsviðskort af Norður-Atlantshafi og Íshafinu sem erlendir aðilar tóku saman og gáfu út 1983, 1987 og 1996.

Á árunum 1985-86 var haldið nokkuð áfram með þetta verkefni á Raunvísindastofnun. Flogið var þá yfir Húnaflóa, Faxaflóa, og eitt svæði í Þingeyjarsýslum sem vantaði í kort Þorbjörns. Útbúnar voru jafnframt stafrænar skrár af öllum níu kortum hans með þeim viðbótum sem og nokkrum lagfæringum. Þeim var steypt saman við niðurstöður sem höfðu fengist fyrr kringum landið, í segulsviðsmælingum Samstarfsnefndar um landgrunns-rannsóknir frá skipum 1972-73 og mælingum úr lofti á vegum sjóhers Bandaríkjanna 1973-74. Út kom svo 1989 marglitt segulfrávika-kort í kvarða 1:1 000 000. Tilurð korta Þorbjörns og úrvinnslu mælinganna er ítarlega lýst í fjölritaðri skýrslu eftir Leó Kristjánsson, Geirfinn Jónsson og Martein Sverrisson (https://notendur.hi.is/~leo/greinar/Skyrsla1989.pdf).

Þorbjörn Sigurgeirsson framkvæmdi einnig þéttar segulsviðsmælingar úr flugvél yfir nokkrum svæðum sem þóttu sérlega áhugaverð. Fyrst var það Surtsey (1965, úr þyrlu), síðan m.a. Hvanneyri, Skjaldbreiður, Kröflusvæðið, Hengill og Hellisheiði, jarðhitasvæði á Reykjanesi, og fornar megineldstöðvar við Stardal og Ferstiklu. Sumt af þeim mælingum var kostað af Orkustofnun og kort þá birt í skýrslum þeirrar stofnunar.

  

Þorbjörn Sigurgeirsson.       Fluglínur frá 1968-80, með smávægilegum viðbótum frá 1985-86.

Öll segulkort Þorbjarnar eru nú aðgengileg hér

Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is