Háskóli Íslands

Ármann Höskuldsson er með þekktari jarðvísindamönnum landsins og í hópi þeirra sem oftast er rætt við í fjölmiðlum þegar jörð opnast í eldgosum eða þegar hræringar eiga sér stað í jarðskorpunni. Jarðskjálftar eru alvarlegt fyrirbæri og því mikilvægt að vakta þá stöðugt. Þeir eru nefnilega ekki bara hættulegir einir og sér því þeir eru stundum undanfari eldgosa. 

Undanfarin misseri hefur jörð skolfið á Reykjanesi langt ufram það sem gerist venjulega og fáir staðir á landinu hafa verið jafnvel vaktaðir. Mest hefur jörð skolfið og risið í kringum fjallið Þorbjörn við Grindavík og nú síðast kröftuglega nærri Krýsuvík. Eðlilegt er að fólk sé uggandi yfir jarðhræringum á þessum slóðum. Nærri eru þéttbýlisstaðir, hafnir, iðnaðarmannvirki og samgönguæðar auk stærsta flugvallar landsins sem tryggir langmesta flugumferð til og frá landinu. 

Markmið vöktunar á Reykjanesi og annars staðar er m.a. að mæla hreyfingar á misgengjum og flekaskilum, sem þurfa ekki endilega að tengjast hugsanlegum jarðeldum. Í þessum mælingum er líka metin söfnun á bergkviku í rótum eldstöðva. Af þeim er urmull á Reykjanesi þótt fæstar þeirra hafi bært á sér á síðastliðin árhundruð – þó eru mikil hraun á Reykjanesi sem hafa runnið skömmu eftir landnám.

Nánari upplýsingar um rannsóknirnar má finna á heimasíðu Háskóla Íslands

Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is