Háskóli Íslands

Krafla

Krafla 1980 - Mynd: Guðmundur Sigvaldason

GPS staðsetning: 65°42'53'' N, 16°43'40'' V
Hæsti punktur: 818 m.y.s.

Krafla er þróuð megineldstöð sem í landslagi minnir á skjöld eða stóra bungu. Bungan er um 25 km í þvermál og rís hæst í Kröflufjalli, 818 m.y.s. Nærri miðju eldstöðvarinnar er stór askja, 10 x 8 km í þvermál. Mikið lag af sambræddri gjósku sem finnst í jarðlögum á svæðinu ber vitni um stórt sprengigos. Líklega hefur askjan myndast í tengslum við það gos,  á hlýskeiði ísaldar fyrir um 100 þúsund árum. Þá þegar höfðu myndast miklar hraunlagasyrpur á svæðinu, m.a. hraunlagadyngja sem er um 20 km í þvermál og mótar bungulögun megineldstöðvarinnar. Sprungusveimur sem er um 90 km langur gengur gegnum megineldstöðina. Mikið af súru og ísúru bergi hefur orðið til í Kröflueldstöðinni, oft blandað basískri kviku úr sprungusveimnum. Á sögulegum tíma hafa basaltgosin verið ríkjandi. Eins og raunin er í flestum þróuðum megineldstöðvum er mikill jarðhiti á Kröflusvæðinu.

Tvær goshrinur hafa orðið í Kröflueldstöðinni á sögulegum tíma svo vitað sé. Mývatnseldar stóðu yfir 1724 til 1729. Hrinan hófst með sprengigosi sem myndaði Víti, en síðan urðu nokkur hraungos með mislöngum hléum. Talið er að lítið gos sem varð árið 1746 hafi verið “eftirhreytur” af Mývatnseldum.

Seinni goshrinan var Kröflueldar á árunum 1975 til 1984. Virknin var svipuð og í Mývatnseldum, kvikuhlaup og hraungos urðu til skiptis á þessu árabili. Flatarmál hrauna var um 36 km2 og rúmmál 0,25 km3 . Talið er að svipað magn hafi komið upp í Mývatnseldum. Fyrstu árin eftir að Kröflueldum lauk streymdi kvika inn í kvikugeymsluna undir svæðinu uns fyrri landhæð var náð. Frá árinu 1989 hefur land verið að síga á umbrotasvæðinu.

Tekið saman af Guðrúnu Sverrisdóttur í janúar 2012.

Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is