Háskóli Íslands

Lítið hlaup úr Grímsvötnum

Frétt af vef Veðurstofu Íslands
 

Hámarkrennsli í Gígjukvísl spáð á miðvikudaginn. Auknar líkur á eldgosi í kjölfar hlaups.

10.10.2022

Mælingar Jarðvísindastofnunar Háskóla Íslands gefa til kynna að vatn er farið að streyma úr Grímsvötnum og von er á hlaupi í Gígjukvísl. Íshellan hefur sigið um tæpa 3m á síðustu dögum, en lág vatnsstaða er í Grímsvötnum og því von á litlu hlaupi, eða tæplega fimmtungi á við síðasta hlaup.  Líklegast er að hlaupið komi fram í Gígjukvísl á morgun, þriðjudag, og standi yfir í nokkra daga. Talið er að ef vötnin tæmist alveg geti íshellan sigið um 10-15m í heildina.

 

Síðast hljóp úr Grímsvötnum í desember í fyrra og því er stutt frá síðasta hlaupi. Benda mælingar á vatnsstöðunni í Grímsvötnum til þess að hámarksrennsli hlaupsins núna verði lítið eða um 500 m3/s, en í fyrra náði rennslið mest tæpum 3.000 m3/s. Það hlaup hafði lítil sem engin áhrif á mannvirki s.s. vegi og brýr.

 

Graf

 

Vel fylgst með virkni í eldstöðinni

Dæmi eru um að eldgos verði í Grímsvötnum eftir að vatn hleypur þaðan. Talið er að skyndilegur þrýstiléttir vegna lækkandi vatnsborðs hleypi af stað gosum. Síðast varð atburðarásin slík árið 2004 og þar áður 1934 og 1922. Mun oftar hefur þó hlaupið úr Grímsvötnum án þess að til eldgoss komi. Fluglitakóðinn fyrir Grímsvötn hefur þó verið færður yfir á gult vegna hlaupsins þar sem erfitt er að útiloka þann möguleika að eldgos hefjist í kjölfarið þó það teljist ólíklegt. Tvennt þarf að koma til; þrýstingsléttir þarf að vera nægur "gikkur" til vekja eldstöðina og þrýstingur í eldstöðinni þarf að vera nægur til að koma af stað eldgosi, en óvissa ríkir um báða þætti. Búast má við mestum þrýstingsléttingi í Grímsvötnum á miðvikudaginn þegar hlaupið nær hámarki og þar með auknum líkum á eldgosi sem fara hratt þverrandi eftir að hlaupi líkur.

Veðurstofan ásamt vísindamönnum Jarðvísindastofnunar Háskólans halda áfram að vakta Grímsvötn og munu birta upplýsingar eftir því hver þróun atburðarásarinnar verður. Í ljósi þessa er rétt að benda að samfara jökulhlaupi má búast við gasmengun sem verður mest næst jökuljaðrinum og við árfarveg Gígjukvíslar.

Nánar um eldstöðina Grímsvötn

Grímsvötn er virkasta megineldstöð Íslands, þar sem á virknitímabilum eins og verið hefur frá 1996, er algengt að 5-10 ár séu milli gosa. Um 20 gos hafa orðið í Grímsvötnum og nágrenni á síðustu 200 árum.  Síðasta gos í Grímsvötnum var árið  2011 og var það nokkuð stórt og kröftugt en annars hafa síðustu gos verið fremur lítil og staðið yfir í nokkra daga.  Meiri upplýsingar um eldstöðina er að finna í vefsjá íslenskra eldfjalla.

 

Frétt af vef Veðurstofu Íslands

Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is