Háskóli Íslands

Mæling á rúmmáli nýja hraunsins

Gosið í Holuhrauni hefur nú staðið þrjár vikur og heldur áfram með sama krafti og verið hefur.  Vettvangshópur Jarðvísindastofnunar mældi á föstudag og laugardag þykktir hraunsins í 12 sniðum allt frá gígum að jaðrinum við Jökulsá.  Naut hópurinn aðstoðar mælingamanna frá Landsvirkjun. 

Jaðrar hraunsins eru að meðaltali 8 m háir norðan megin en  mest er þykktin á miðlínu hraunsins.   Ef farið er eftir miðlínunni frá gígum til austsuðaustur að jaðri við Jökulsá, er þykktin mest næst gígunum um 30 metrar, en 18-22 metrar víðast hvar annarstaðar.  Meðalþykktin er nú nú talin vera 14 metrar. 

Samkvæmt korti sem Ingibjörg Jónsdótttir á JH hefur sett saman á grundvelli nýjustu gagna var flatarmál hraunsins um 37 km2 á laugardag,  Rúmmálið er metið sem margfeldi þykktar og flatarmáls og niðurstaðan er um 0,5 km3.  Óvissan er allavega 0.1 km3 til eða frá.

Meðalhraunflæðið þessar þrjár vikur hefur samkvæmt þessari niðurstöðu verið á bilinu 230-350 m3/s. 

Þessar tölur eru heldur hærri en þær sem notaðar hafa verið hingað til, enda var farið varlega í að meta þykkt hraunsins þar til mælingar lægu fyrir. 

Hraunið sem myndast hefur er með þeim stærstu sem runnið hafa á Íslandi í langan tíma.  Ef skoðuð eru gos síðustu 150 ára, er aðeins hraunið sem myndaðist í Heklugosinu 1947-48 stærra, 0,8 km3, en það gos stóð í 13 mánuði.  Ef gosið Holuhrauni heldur áfram með sama krafti og verið hefur gæti það náð 0,8 km3 eftir tvær vikur. 

Magnús Tumi Guðmundsson

Úlfar Linnet frá Landsvirkjun við mælingar

Stephanie Dupond og Gro Birkefeld Pedersen með alstöð Landsvirkjunar

 

Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is