Háskóli Íslands

Mælingar á siginu í Bárðarbungu með flugvél ISAVIA, TF-FMS, 24. október 2014

Farið var í mælingar á umbrotasvæðinu með TF-FMS, flugvél ISAVIA, föstudaginn 24. október.  Sigið í Bárðarbungu var mælt í nokkrum mælilínum yfir öskjuna. Sigið er mest NA við miðju öskjunnar um 40 m (sjá þversnið).  GPS mælir í miðju öskjunnar sýnir að sigið nemur um 30-40 cm á dag.  Rúmmál sigskálarinnar er nú um 1 km3.

Jarðhiti fer nú vaxandi í Bárðarbungu. Í öskjunni hafa verið í áraraðir 2-3 litlir sigkatlar, annars vegar vestast í öskjunni og hins vegar í suðaustur jaðar hennar. Katlarnir eru merki um lítilsháttar en viðvarandi jarðhita. Eftir 20. september fóru sigkatlarnir að dýpka. Ketillinn í suðaustur horninu hefur einkum vaxið hratt og hefur dýpkað um 20-25. Á sama tíma nemur dýpkun ketils vestan í öskjunni um 12 m. Aukning í jarðhita kemur ekki á óvart, enda má búast við að hreyfing á sigsprungum auðveldi streymi jarðhitavatns að heitu bergi.


Ljósmynd úr NV, jarðhitakatlar við vesturbrún hægra megin á mynd. Katlar í SA horni sjás fyrir miðri mynd. Þar sunnan við má sjá sigin sem mynduðust 27. ágúst. Ljósmyndari Þórdís Högnadóttir
 


Ljósmynd af katli í SA horni.  Ljósmyndari Magnús Tumi Guðmundsson
 


Ljósmynd af katli við vestur brún öskjunnar. Ljósmyndari Magnús Tumi Guðmundsson

Fylgst verður náið með breytingum á jarðhitanum. Ef sigkatlarnir verða mjög stórir getur vatn safnast fyrir undir þeim og komið fram í jökulhlaupum. Ef jarðhiti vex mikið frá því sem þegar er orðið gæti það einnig verið vísbending um að kvika nálgaðist yfirborð undir Bárðarbungu.

Magnús Tumi Guðmundsson
Þórdís Högnadóttir

Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is