Háskóli Íslands

Níu nemendur og fjórir fræðimenn á afar fjölbreyttum fræðasviðum við bæði íslenska og japanska háskóla hljóta styrki samtals að upphæð um ellefu milljónir króna úr Watanabe-styrktarsjóðnum við Háskóla Íslands. Styrkirnir voru afhentir við athöfn í Hátíðasal Háskóla Íslands fimmtudaginn 27. apríl. Viðstödd úthlutunina voru Toshizo Watanabe, stofnandi sjóðsins, og eiginkona hans, Hidemi Watanabe.

Toshizo Watanabe stofnaði sjóðinn við Háskóla Íslands árið 2008 með veglegri peningagjöf en sjóðurinn hefur það markmið að styrkja gagnkvæm fræðileg tengsl Íslands og Japans. Fyrir tilstilli hans gefst íslenskum stúdentum og vísindamönnum einstakt tækifæri til að nema og starfa í japönsku háskólasamfélagi og það sama gildir um japanska stúdenta og vísindamenn sem eiga þess kost að koma til Íslands.

Þetta var í áttunda sinn sem úthlutað var úr sjóðnum og að þessu sinni hljóta þrettán styrk sem fyrr segir, átta frá Íslandi og fimm frá Japan.

Maxwell Christopher Brown, vísindamaður við Jarðvísindastofnun Háskólans, hlaut styrk til tveggja vikna dvalar og rannsóknastarfa tengdum segulsviði jarðar við Kochi University Center for Advanced Core Research. Þar hyggst hann efla frekar samstaf við Yuhji Yamomoto sem kom hingað til lands á síðasta ári fyrir tilstyrk Watanabe-styrktarsjóðsins.

Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is