Háskóli Íslands

Minnisblað

Afmyndun hlíðar norðan við Tungnakvíslajökul í Þórsmörk

Á grundvelli samanburðamælinga á loftmyndum og LiDAR DEM sem unnar hafa verið við Jarðvísindastofnun Háskólans og Landmælingar Íslands hefur komið í ljós mikil afmyndun í hlíð norðan við Tungnakvíslajökul sem gengur úr Mýrdalsjökli vestanverðum, í innanverðri Þórsmörk. Hlíðin sem nær upp í 1127 m hæð ber nafnið Moldi, Teigstungur og Teigstunguháls (mynd 1).

Mynd 1. Hlíðin norðan við Tungnakvíslajökul í vestanverðum Mýrdalsjökli. Rekja má sprungu eftir brún fjallsins frá um 4-500 m hæð og upp að jöklinum í um 1100 m hæð, eða alls um 2-2,5 km (www.map.is).

Þær samanburðarmælingar sem gerðar hafa verið sýna að hlíðin hefur verið á hreyfingu alla vega frá árinu 1945 eða frá því að fyrstu loftmyndir voru teknar af svæðinu. Yngri loftmyndaseríur og önnur gögn sýna að þessi hreyfing hefur haldið áfram allt til dagsins í dag og er hlíðin nú á mikilli hreyfingu.

Þau gagnasett sem skoðuð hafa verið eru frá 1945, 1960, 1980, 1994, 1999, 2010 og 2014. Unnið er að því að fá frekari gögn til úrvinnslu meðal annars með InSAR gögnum. Samkvæmt frumniðurstöðum þá nemur heildar færsla á hlíðinni frá 1945 til dagsins í dag um 180 m. Svo virðist sem hlíðin hafi verið á hægri hreyfingu frá 1945 til 1960, en frá 1960 til 1999 seig hlíðin um 30 m. Frá árinu 1999 til ársins 2010 nam færslan um 110 m og frá 2010 til 2014 nam færslan um 20 m (mynd 2). Ljóst má sjá á þessu að færsla hlíðarinnar er nokkuð breytileg yfir þetta tímabil og er unnið að því að afla frekari gagna til að skoða færsluna betur.

Mynd 2. Samanburðarmælingar á hreyfingu hlíðarinnar ofan við Tungnakvíslajökul. Útlínur jökulssins eru merktar með punktalínu (gögn frá Joaquin Maria Munoz Cobo Belart 2019).

Brotsár í hlíðinni gengur eftir efstu brún hennar og má rekja hana frá um 4-500 m hæð að vestanverðu og upp í um 1100 m hæð að austanverðu við jökulinn og er lengd sprungunnar um 2 til 2,5 km. Alls er svæðið sem er á hreyfingu um 0,8 til 1 km2 að flatarmáli. Rúmmál þess hefur ekki verið reiknað út, en til samanburðar þá er svæðið sem er á hreyfingu í Svínafellsheiði í Öræfum um 1 km2 að flatarmáli og lengd sprungunnar þar um 1,7 km.

Athygli vekur að skriðan er á miðju því svæði sem sýnt hefur þráláta skjálftavirkni um áratuga skeið og hefur gjarnan verið kennt við Goðabungu.

Ekkert bendir til þess að stóratburðir séu yfirvofandi á þessari stundu, enda hefur hlíðin sýnt þessa hegðun í langan tíma. Augljóslega þarf þó að rannsaka þessa atburði betur, meðal annars að kortleggja svæðið nákvæmlega og skoða orsakasamhengi þeirra hreyfinga sem hafa orðið í hlíðinni og jarðskjálftavirkni á svæðinu. Eins er mjög mikilvægt kortleggja lands­lagið undir Tungnakvíslarjökli með tilliti til hugsanlegra myndunar jökullóns þar í framtíðinni.

Rannsóknarhópnum þótti eðlilegt í ljósi almannahagsmuna að tilkynna Almanna­vörn­um, Lögreglunni á Suðurlandi, Umhverfisráðuneytinu og Veðurstofunni þessa uppgötvun og einnig að benda á mikilvægi þess að stórefla þarf rannsóknir og vöktun á hlíðum fjalla á Íslandi, sér í lagi í ljósi þeirra öru loftlagsbreytinga sem nú eiga sér stað. Hópurinn mun tilkynna ofangreindum aðilum frá framvindu þessarar vinnu.

 

Reykjavík 28 júní 2019,

Fyrir hönd rannsóknarhópsins

 

Dr. Þorsteinn Sæmundsson, jarðfræðingur

Jarðvísindastofnun Háskólans

Rannsóknahópurinn samanstendur af

Páli Einarssyni, Joaquin M.M.C. Belart, Ástu Rut Hjartardóttir, Finni Pálssyni, Eyjólfi Magnússyni, Gro B.M Pedersen og Þorsteini Sæmundssyni.     

 

Eftirfarandi skýringamynd er fengin af vef RÚV © Ragnar Visage

 

Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is