Háskóli Íslands

Jarðvísindastofnun er í samstarfi með HS Orku, Veðurstofu Islands og ÍSOR að mæla jarðskorpuhreyfingar á Reykjanesskaga. Jarðvísindastofnun hefur rekið fjórar síritandi GPS mælistöðvar á Reykjanesskaga í samstarfi við HS Orku síðan 2013. Megintilgangur stöðvanna er að fylgjast með landbreytingum vegna jarðhitavinnslu, en stöðvarnar nýtast einnig til mælinga á flekahreyfingum og kvikuhreyfingum. Í kjölfar jarðskjálftahrinu við Grindavík
22. janúar 2020 fóru síritandi stöðvar í grennd Svartsengis að sýna hreyfingar sem vísa út frá fjallinu Þorbirni í grennd Grindavíkur. Hreyfingarnar nema nú (27. janúar) um 8 mm í láréttu plani en um 3 cm í lóðréttum þætti og sýna mælingarnar svipaðan aflögunarhraða yfir þessa daga.

Hér má sjá síðu sem sýnir GPS tímaraðir frá Reykjanesi

 

 

InSAR bylgjuvíxlmælingar, sem framkvæmdar eru með Sentinel gervitunglum evrópsku geimvísindastofnunarinnar (ESA) sýna samsvarandi aflögunarmerki. Við staðsetningu á miðju merkisins ber að gæta að flugstefnu gervitunglsins, en sumar myndir er teknar er gervitunglið horfir til vinstri og sumar er gervitunglið horfir til hægri, og hefur það áhrif á hvað miðja merkisins virðist vera. Gervitunglin mynda Reykjanesskaga á nokkurra daga fresti. Bráðabirgðalíkanreikningar sýna að rismiðjan er undir eða skammt vestan við fjallið Þorbjörn á nokkurra kílómetra dýpi.

Nánari upplýsingar má finna á heimasíðu Veðurstofu Íslands

Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is