Háskóli Íslands

Sigketill í Öræfajökli. Mælingar TF-FMS, 18. nóv. 2017 – 5. jan. 2018

Ketillinn hefur hefur lítið breyst milli 11. desember og 5. janúar. Rúmmálið hefur minnkað aðeins en munurinn er þó ekki marktækur. Sennilegt er að dregið hafi úr afli jarðhitans undanfarnar vikur.
Dálítil lækkun mælist þó á jökulyfirborði á nokkur hundruð metra breiðu svæði norðaustan til í öskjunni.  Þar kemur fram 3-4 m lækkun milli 11. des. og 5. jan. Mögulegt er að þetta séu merki um jarðhita undir jöklinum en of snemmt er að kveða upp úr um það enn sem komið er.

Úrvinnsla:  Gögn TF-FMS eru mælingar úr flughæðarradar (C-band, bylgjulengd 7 cm) og þegar mælt er að vetrarlagi á hájöklum eins og Öræfajökli  þarf að leiðrétta fyrir svokallaðri kuldabylgju.  Hjarnið frýs á veturna og þá kemur endurkast ekki frá yfirborðinu heldur frá fleti  niðri í hjarninu þar sem það er við frostmark.  Ef miðað er við fyrstu mælingu, 18. nóv. er þessi leiðrétting talin vera 30 cm 27. nóv. , 85 cm 11. des. og 215 cm 5. janúar. Með leiðréttingunni næst gott samræmi milli hæðarmælinga utan við ketilinn.  Innbyrðis nákvæmni mælinganna er talin 1 metri.

Mælingar TF-FMS 18. nóv. 2017 – 5. jan. 2018
Frávik frá korti sem gert var eftir myndum frá 9. ágúst úr Pleiades gervitungli.

Mælingarnar sýna að ketillinn er að nánast hringlaga.  Þvermál þess svæðis þar sem sigs gætir er 1200-1500 metrar.    Sé mælt milli þeirra staða þar sem dýpi er 10% af mesta dýpi fást 1000-1100 metrar.  Í samanburði við flesta sigkatla er þessi fremur víður og grunnur enn sem komið er. 
 

Jarðvísindastofnun Háskólans, MTG, ÞH, FP, EM, JB

 

Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is