Háskóli Íslands

Þrír starfsmenn Háskóla Íslands, þau Eiríkur Rögnvaldsson, prófessor við Íslensku- og menningardeild, Páll Einarsson, prófessor við Jarðvísindadeild, og Erna Sigurðardóttir, deildarstjóri á skrifstofu Heilbrigðisvísindasviðs, hlutu í dag viðurkenningu fyrir lofsverðan árangur í starfi. Viðurkenningarnar voru veittar á upplýsingafundi Jóns Atla Benediktssonar, rektors háskólans, með starfsfólki skólans í Hátíðasal Aðalbyggingar.

Páll Einarsson, prófessor við Jarðvísindadeild á Verkfræði- og náttúruvísindasviði, hlaut viðurkenningu fyrir lofsvert framlag til rannsókna við skólann. Páll lauk Vordiplom-prófi í eðlisfræði frá Háskólanum í Göttingen í Þýskalandi árið 1970 og doktorsprófi í jarðskjálftafræði frá Columbia University í Bandaríkjunum árið 1975. 
 
Páll varð sérfræðingur við Raunvísindastofnun árið 1975, fræðimaður 1987 og vísindamaður frá 1997. Hann var stundakennari við Háskóla Íslands á árunum 1975-1994. Frá árinu 1994 hefur Páll verið prófessor við Háskóla Íslands.
 
Í rökstuðningi valnefndar segir: „Rannsóknir Páls eru á sviði jarðskjálftafræði, landmælinga og jarðskorpuhreyfinga. Hann er frumkvöðull í mælingum á jarðskorpunni og átti þátt í að setja upp umfangsmikið mælanet strax að loknu doktorsprófi. Páll skipulagði rannsóknir á Kröflueldum 1975-1989 og á jarðskjálftum á Suðurlandi og á Reykjanesi. Hann hefur skipulagt rannsóknir á fjölmörgum eldfjöllum og jarðskorpuhreyfingum, nú síðast í Bárðarbungu og Holuhrauni. 
 
Páll er brautryðjandi í beitingu jarðskjálftafræði og landmælingafræði í rannsóknum á kviku- og jarðskorpuhreyfingum á Íslandi og í Norður-Atlantshafi. Rannsóknir hans hafa markað tímamót í könnunum á sjávar- og eldfjallahryggjakerfum. Páll er afar virtur vísindamaður meðal starfsfélaga sinna hérlendis og erlendis. Hann hefur gefið út mikinn fjölda vísindagreina í samstarfi við breiðan hóp fræðimanna og er mjög óeigingjarn á tíma sinn og sérþekkingu. Hann er vinsæll og virtur kennari grunnnema, framhaldsnema og nýdoktora og er annt um hag og þróun starfsferils þeirra.
 
Sem helsti sérfræðingur landsins í eldfjöllum og jarðskjálftum hefur Páll verið ötull að útskýra eðli þeirra og framvindu atburða fyrir almenningi. Einnig hefur hann verið ráðgjafi Almannavarna ríkisins. 
 
Áhrifamiklar birtingar Páls, handleiðsla tveggja kynslóða afburða vísindamanna, óeigingjarnt samstarf og þjónusta í þágu almennings eru ótvíræður vitnisburður um að Páll er vísindamaður í fremstu röð.“
 
Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is