Háskóli Íslands

Yfirlit Grímsvatnagosa

Mikill hluti þeirra u.þ.b. 60 gosa sem vitað er um í Grímsvötnum á síðustu 800 árum hafa orðið á stuttum sprungum innan Grímsvatnaöskjunnar. Þó menn hafi séð til Grímsvatnagosa og orðið vitni að öskufalli undanfarnar aldir, þá var það ekki fyrr en 1934 sem farið var til Grímsvatna meðan á gosi stóð. Lega gíga er því þekkt í þeim gosum sem orðið hafa síðan. Allir gígarnir hafa verið undir Grímsfjalli norðanverðu og gosstöðvarnar 1934, 1983 og 1998 voru allar á svo til sama stað, á móts við Svíahnjúk vestri. Gosið 2004 varð hinsvegar í suðvesturhorni vatnanna, tæpum 2 km vestar. Sennilegt er að gígar hafi verið á þeim slóðum í einhverjum gosum á 19. öld. Norðurhlíð Grímsfjalls rís þverbrött 200-300 m yfir íshelluna sem hylur vatnið sem undir liggur. Hlíðin er öll úr móbergi og myndar suðurbrún meginöskju Grímsvatna. Allar gossprungurnar hafa legið samsíða öskjubrotinu.

Undanfari dæmigerðs Grímsvatnagoss er áköf jarðskjálftahrina sem stendur í nokkrar klukkustundir. Ísþykkt undir norðurbrún Grímsfjalls er 50-200 m. Gosin geta farið beint í gegnum ísinn (t.d. 1998) eða tekið allt að hálfa til eina klukkustund að bræða sig gegnum hann (t.d. 2004). Gosin eru sprengigos, þar sem basísk kvika tætist í fíngerða gjósku fyrir áhrif utanaðkomandi vatns. Gos af þessu tagi er nefnd freatómagmatísk og eru þau mjög algeng á Íslandi (t.d. Katla, Grímsvötn, Surtsey). Gosmökkur getur náð 10-14 km hæð. Mökkinn leggur undan vindi og getur gjóskufalls gætt hvar sem er á landinu, en reynslan sýnir þó að gjóskufall utan Vatnajökuls er yfirleitt mjög lítið. Kraftur gosanna er mestur fyrstu 1-2 dagana en síðan fer virknin minnkandi. Yfirleitt standa gosin í 1-2 vikur en dæmi eru um skemmri og lengri gos. Gjóskufall er þó yfirleitt langmest fyrstu 1-2 dagana.

Undanfarin ár hefur Jarðvísindastofnun Háskólans unnið að umfangsmiklum rannsóknum á gosum í Grímsvötnum í samvinnu við Háskólana í Edinborg, Würzburg í Þýsklandi og Bari á Ítalíu. Að því verki hafa m.a. komið framhaldsnemarnir Björn Oddsson og Tanya Jude-Eton. Neðangreindar upplýsingar byggjast að hluta á niðurstöðu þessarar vinnu.

Magn gosefna í síðustu tveimur gosum í Grímsvötnum reiknað sem jafngildi fasts bergs var 40-60 milljón m3 1998 og 20-25 milljón m3 2004. Til samanburðar voru gosefnin í Eyjafjallajökli a.m.k. 150 milljón m3, reiknað í fast berg. Munurinn liggur einkum í því hve lengi Eyjafjallajökulsgosið stóð, kraftur þess var sjaldnast meiri en oft er í Grímsvatnagosum.

Þó svo Grímsvatnagos séu ekki stór, getur kraftur þeirra verið verulegur fyrstu 1-2 sólarhringana. Í gosinu 2004, var kvikustreymið um 150-200 m3/s fyrsta sólarhringinn, eða um 500 tonn/sek. Svipaðar tölur gilda fyrir gosið 1998. Þetta er álíka mikið kvikustreymi og var fyrstu fjóra dagana í gosinu í Eyjafjallajökli í vor. Hæð gosmakkar fyrsta sólarhringinn í Grímsvötnum getur einnig verið svipuð eða hærri en var í Eyjafjallajökli í vor. Ef vindar blása í átt til Evrópu má því búast við að Grímsvatnagos geti valdið verulegum truflunum á flugumferð. Ósennilegt er þó að sú truflun stæði yfir nema brot af þeim tíma sem varð vorið 2010 vegna Eyjafjallajökuls.

Gosefnin í Grímsvötnum eru basalt og tvístrun kvikunnar verður vegna utanaðkomandi vatns. Í gosinu 2004 var meðakornastærð gjóskunnar um hálfur millímetri og um 20% af heildarmassanum voru korn minni en 63 mikrómetrar í þvermál. Í Eyjafjallajökli var meðalkornastærðin miklu minni og a.m.k. 50% undir 63 míkrómetrum að stærð. Svona fínefni fellur mjög hægt til jarðar og getur borist langar leiðir með loftstraumum. Vegna meiri grófleika má því búast við að Grímsvatnagjóska berist ekki eins langt og gjóskan úr Eyjafjallajökli.

Magnús Tumi Guðmundsson

 

     

Þversnið frá suðri til norðurs gegnum gossprungur við Vestari Svíahnjúk

Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is