Háskóli Íslands

Eldgos í Meradölum

16. ágúst 2022

Í morgun kl. 10 voru gerðar flugmælingar og voru aðstæður til flugs góðar. Mælingarnar staðfesta að hraunrennsli er nú tiltölulega lítið eða um 2 m3/sek síðastliðinn sólarhring en óvissa í þeirri tölu er há.

 

15. ágúst 2022, uppfært

Fyrstu úrvinnslu flugmælinga frá 13. og 15. ágúst er nú lokið. Niðurstöðurnar sýna að mjög hefur dregið úr hraunflæði. Það var 11 m3/s að meðaltali 4.-13. ágúst en meðalrennslið frá laugardegi til mánudags var miklu minna, 3-4 m3/s.  Óvissa er há í einstökum mælingum þegar tímabilin eru svon stutt, en samanlagt sýna þær mælingar sem nást hafa frá laugardagmorgni (þar af ein úr Pleiades gervitunglinu) svo ekki verður um villst að mjög hefur dregið úr gosinu.  Er þetta í samræmi við að undanfarna daga hefur gosopum fækkað og hrauntaumar hafa runnið skemur í Meradölum en var framan af.  Ómögulegt er að segja um á þessu stigi hvort goslok séu nærri, eða hvor nú er aðeins tímabundið lágmark í gosinu. 

Gröf 14. ágúst 2022
 

15. ágúst 2022

Í gær komu fyrstu gögnin frá Pleiades gervitunglinu með myndum af Meradölum, en skýjahula hefur hindrað sýn hingað til.  Búið er að vinna úr gögnunum og gera nýtt kort af gossvæðinu. Það sýnir að hraunið þekur 1,25 ferkílómetra, rúmmál þess er 10,6 milljón rúmmetrar og meðaltal hraunflæðis síðustu 10 daga (4.-14. ágúst) er 10,4 m3/s.  Hraunflæði hefur því minnkað frá því sem var fyrsta sólarhrnginn. Þetta er algengt í eldgosum.  Loftmyndir voru einnig teknar á laugardagsmorgun og sunnudagskvöld.  Unnið verður úr þeim gögnum í dag og fæst þá betra mat á hver staðan er núna, en talan hér að ofan er meðaltal fyrir 10 daga tímabil.
 


 

9. ágúst 2022 – Fyrstu niðurstöður efnagreininga

Ekki hefur verið veður til flugs síðustu daga en unnið hefur verið úr sýnum á hrauni og gasi. Aðalefnagreiningar á sýnum fyrstu daga gossins í Meradölum sýna að basaltkvikan er mjög álík þeirri sem gaus í september 2021. 

Samsetning gassins (hlufall koltvíoxíðs og brennisteinstvíoxíðs) bendir til djúps uppruna gassins. Unnið er að frekari túlkun gagna.
 

Eldgos í Meradölum 9.ágúst 2022

 

 

Meradalir 2022-08-04

 

4. ágúst 2022

Eldgos hófst í Meradölum, á um 300 m langri sprungu sem liggur í NNA upp í hlíðar vestasta Meradalahnjúksins 3. ágúst um kl. 13:20.  Sprungan er um það bil einn kílómetra norðaustur af megingígnum sem var virkur í gosinu í fyrra, en það stóð frá mars fram til loka september á síðasta ári.  Staðsetningin fellur vel að því að gossprungan liggi yfir suðurenda gangsins sem myndaðist í jarðskorpunni dagana fyrir gosið. 

Mælingar á hraunflæði

Að mælingum á rúmmáli hraunsins koma sérfræðingar hjá Landmælingum Íslands, Náttúrufræðistofnun og Jarðvísindastofnun í samvinnu við Almannavarnir og Veðurstofuna.  Fyrsta mælingin var gerð í gær (kl. 17:05) og síðan  endurtekin í dag kl. 11.  Teknar eru loftmyndir með Hasselblad myndvél Náttúrufræðistofnunar úr flugvél Fisfélags Reykjavíkur, TF-204. Gerð hafa verið landlíkön eftir þessum mælingum og þau borin saman við mælinguna sem gerð var í gær, kl. 17:05.

Hraunið mældist um 144.000 m2 (0,144 km2), meðalþykktin 11,1 metri og rúmmálið 1,60 millj. rúmmetrar kl. 11 í morgun (4. ágúst). 

Meðal hraunflæði milli kl. 17 í gær og til kl. 11 í morgun er 18 m3/s.  Rennslið hefur því minnkað töluvert frá því sem það var fyrstu klukkutímana (32 m3/s).  Þessi hegðun er mjög lík því sem yfirleitt er í gosum hér á landi; að gosið sé kröftugt fyrst og síðan dragi úr.  Óljóst er hvort þessi þróun heldur áfram en reynt verður að mæla aftur á morgun, ef skyggni leyfir.

Um kortlagningu hraunsins:

Reiknað er með að eftirfarandi tvær aðferðir verði einkum notaðar við að kortleggja hraunið:

  1. Myndir teknar lóðrétt niður á hraunið og síðan unnið landlíkan úr myndunum.
  2. Mælingar úr Pléiades gervitungli frönsku geimvísindastofnunarinnar.  Tunglið fer yfir a.m.k. einu sinni á dag en nær ekki myndum ef skýjahula þekur svæðið.

Rúmmál hraunins er fengið með því að draga eitt landlíkan frá öðru. Mælingar eru festar við nýleg nákvæm landlíkön sem unnið hefur verið af öllu landinu.  Nákvæmni landlíkana er talin vera 20-30 cm í hæð. 

Vinna við mælingar og úrvinnslu

Kortlagning hraunsins er samstarfsverkefni margra aðila:  Hér á landi eru það aðallega Jarðvísindastofnun Háskólans, Náttúrfræðistofnun Íslands og Landmælingar Íslands.  Einnig koma að verkinu Veðurstofan, Ísavia og Almannavarnir.  Loftmyndir er teknar úr flugvél Garðaflugs eða flugvél Fisfélags Reykjavíkur.  Franskt samstarfsfólk kemur líka að málinu því aðgangur að Pléiades gervitunglinu hefur fengist gegnum CIEST2, franskt rannsóknaverkefni.   

Jarðefnafræðin er einkum unnin á Jarðvísindastofnun Háskólans.  Að gasmælingum koma sérfræðingar Veðurstofunnar og fólk á Jarðvísindastofnun.   

Að vinnunni kemur því allstór hópur sérfræðinga á ofangreindum stofnunum, tæknifólk á tilraunastofum og nýdoktorar við Jarðvísindastofnun. 

Jarðefnafræði

Heildarberg-efnagreiningar hafa verið gerðar með ICP-OES (Inductively Coupled Plasma – Optical Emission Spectroscopy ) tæki Jarðvísindastofnunar.  Þær eru gerðar á hraunsýnum teknum með reglulegu millibili. Í þessari aðferð er LiBO2 flúx bætt við mulin bergsýni, bræðslumark þeirra lækkar í kjölfarið og þau því auðbrædd við 1000°C. Bráðin myndar gler við hraða kælingu.  Glerið er leyst upp í sýrublöndu en sú blanda er síðan mæld beint. Þessi aðferð er notuð til að greina öll aðalefni bergsins ásamt nokkrum snefilefnum.

Texti og myndir: Magnús Tumi Guðmundsson, Joaquin Belart, Olgeir Sigmarsson, Jóhann Gunnarsson Robin, Guðmundur H. Guðfinnsson, Sæmundur Ari Halldórsson, Þórdís Högnadóttir.

 

Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is