Háskóli Íslands

JöklafræðiViðbrögð íslenskra jökla við loftslagsbreytingum

Rannsóknir á íslenskum jöklum geta lagt mikinn skerf til jöklafræða. Óvíða hefur jafnítarlegra gagna verið aflað um alla þætti sem lýsa jöklum: lögun þeirra, afkomu, hreyfingu og afrennsli. Nákvæm stafræn kort hafa verið gerð af botni og yfirborði (eftir íssjármælingum, GPS-mælingum og ýmsum fjarkönnunargögnum), kort verið gerð af afkomu og leysingu, einnig skriðhraða (með mælingum á yfirborði jöklanna og fjarkönnun úr gervitunglum og flugvélum). Veðurstöðvar hafa verið reknar á jöklunum og tengsl fundin milli veðurþátta og afkomu. Framhlaupum hefur verið lýst, jökullónum og jökulhlaupum, áhrifum eldvirni undir jöklum.  Líkön hafa verið gerð til þess að lýsa hreyfingu jöklanna og viðbrögðum þeirra við loftslagsbreytingum. Benda má á að á Íslandi eru jöklar nú hliðstæðir þíðum jökulhvelum á síðasta jökulskeiði og með könnun þeirra má meta hvernig aðstæður yrðu á heimskautajöklum við hlýnandi loftslag.

Sambúð jökla og eldfjalla
Sambúð jökla og eldfjalla er mikilvæt rannsóknarsvið. Af verkefnum má nefna: a) myndun jarðhitakerfa undir jöklum, þar sem leysingarvatn sækir varma úr kvikuskrokkum grunnt í jarðskorpunni, b) mat á varmastraumi frá jarðhitakerfum með mælingu á ísbráðnun, c) varmaflutningur og hitafar í jökullónum, d) afrennsli bræðsluvatns, uppsöfnun þess í jökullónum og jökulhlaup, e) myndun jökullóna sem vitnisburður um eldvirkni undir jökli, f) varmaflutningur og framleiðsla bræðsluvatns við eldgos í jökli, og árhrif þess á ferli í eldgosum og gosefni sem verða til, myndun móbergshryggja, móbergshæða og stapa, g) áhrif eldgosa á jökulskrið, h) áhrif breytinga í jökulfargi og vatnsþrýtings á jarðhitakerfi og eldstöðvar, áhrif loftslagsbreytinga á virkni eldstöðva í jöklum, i) könnun eldgosasögu með því að rekja og greina aldur öskulaga sem grafist hafa í jökul, j) aukinn skilningur á sambúð íss og eldvirkni á öðrum hnöttum.

Skilningur á loftslagi við Norður Atlantshaf
Ísland er á mörkum heitra og kaldra strauma í lofti og hafi og loftslag þar hefur orðið fyrir miklu meiri áhrifum af hnattrænum sveiflum í hringrás hafs og lofts en önnur landsvæði á norðurhveli jarðar. Landið er því mikilvæg rannsóknarstofa til aukins skilnings á loftslagsferlum og í jarðlögum og jöklum er geymd saga loftslagsbreytinga, sem mikilvægt er að þekkja við mat á líklegum loftslagsbreytingum á komandi tímum. Há fjöll, mikil úrkoma og svöl sumur valda því að jöklar eru stórir. Þeir bregðast skjótt við loftslagsbreytingum og rof þeirra og setflutningur hefur mótað landið og landgrunnið. Saga jökla, plöntu- og dýralífs ísaldar er skráð í setlögum á landi og sjávarbotni, og geymd milli hraunlaga. Íslenskar eldstöðvar hafa dreift gjóskulögum vítt um Norður Atlantshafs svo að unnt er að greina aldur jarðminja og tengja jarðlög saman þótt slitrótt séu.

Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is