Háskóli Íslands

Minnisblað um ástand Heklu 2020

Þriðjudaginn 13. júlí síðastliðinn fór hópur vísindamanna frá Jarðvísindastofnun Háskólans og Háskólanum í Gautaborg til hallamælinga við Næfurholt við Heklu. Í hópnum voru Erik Sturkell, Ásta Rut Hjartardóttir, Rikke Pedersen og Cécile Ducrocq.

Mælingar hafa verið gerðar á hallamælilínu við Næfurholt í hálfa öld og sýna mælingarnar einkar vel hegðun Heklu og þrýstingsbreytingar í kvikukerfi hennar, eins og kemur glöggt fram á meðfylgjandi línuriti.

Milli eldgosa vex landhallinn við Næfurholt, upp til austurs, sem stafar af landris umhverfis Heklu. Landrisið stafar af þrýstingsaukningu undir fjallinu, virðist vera á 10-15 km dýpi. Í gosunum 1991 og 2000 minnkaði þrýstingur, hins vegar, og landið seig.

Mælingarnar nú sýna að þrýstingsaukningin, sem byrjaði eftir gosið 2000, heldur áfram. Telja verður að þrýstingur kviku undir Heklu sé núna umtalsvert hærri en hann var á undan gosunum 1991 og 2000. Þrýstingurinn fór fram úr þessu gildi um 2006 og hefur umframþrýstingurinn farið hækkandi síðan.

Mæliniðurstöðurnar gefa tilefni til að minna á að mælanlegur aðdragandi Heklugosa er yfirleitt stuttur, talsvert styttri en algengt er hjá öðrum eldstöðvum.

Ekki er hægt að tryggja það að viðvaranir um yfirvofandi eldgos berist í tæka tíð fyrir ferðafólk að forða sér í öruggt skjól. Hér er þess einnig að gæta að gos í Heklu byrja oft með öflugu gjóskugosi. Hópur óviðbúins göngufólks á fjallinu hefur mjög takmarkaða möguleika til að bjarga sér.

21. júlí 2020.

Erik Sturkell, Ásta Rut Hjartardóttir, Páll Einarsson

Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is