Háskóli Íslands

Ólafur Ingólfsson hlýtur norrænu jarðvísindaverðlaunin

Einn af hápunktum Norræna vetrarmótsins sem fram fór í Háskóla Íslands 11.-13. maí síðastliðinn var afhending Norrænu jarðfræðiverðlaunanna „Nordic Geoscientist Award“, en tilurð þeirra má rekja aftur til 2012 þegar þau voru fyrst afhent hér í Reykjavík.  Allir meðlimir í jarðfræðafélögum Norðurlanda geta tilnefnt til verðlaunanna en þau eru veitt einstaklingi  sem hefur skarað fram úr á sínu fagsviði og ekki síst komið þekkingu sinni áfram til samfélagsins. Að þessu sinni voru verðlaunin veitt Ólafi Ingólfssyni prófessor emerítus við Jarðvísindadeild. Þess ber að geta að Ólafur var tilnefndur frá þremur löndum, sem hefur ekki áður komið fyrir í sögu þessara verðlauna og var dómnefndin einróma í niðurstöðu sinni. Í aðalfyrirlestri ráðstefnunnar fór Ólafur rannssóknir sínar og annarra á tilvist og útbreiðslu jökla á Berentshafssvæðinu. Við óskum Ólafi innilega til hamingju með verðlaunin.    
 
Ólafur er annar Íslendingurinn sem hlotið hefur þessi verðlaun, en Páll Einarsson hlaut þau árið 2018. Handhafa Norrænu jarðfræðiverðlaunanna er afhentur verðlaunagripur sem skilyrt er að gerður sé úr bergi frá því landi þar sem ráðstefnan er haldin. Verðlaunagripurinn í ár var hannaður af Önnu Líndal listakonu. Gripurinn var gerður úr hraunkjarna úr Fagradalshrauni, en svo heitir nýja hraunið sem rann í gosinu í Geldingadölum á síðasta ári.

Norrænna vetrarmótið er haldið á tveggja ára fresti, til skiptist á Norðurlöndunum. Mótið nú var það 35 í röðinni og það fimmta sem haldið er hér á landi. Um 360 manns voru skráðir á mótið og um 300 erindi og veggspjöld voru kynnt.  Mótið þótti takast mjög vel. Allmargir framhaldsnemar í jarðvísindum aðstoðuðu við framkvæmdina auk þess sem mörg þeirra kynntu verkefni sín í erindum eða á veggspjöldum.

Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is