Háskóli Íslands

Prófessor Áslaug Geirsdóttir sæmd heiðursmerki hinnar íslensku fálkaorðu

Áslaug Geirsdóttir var á nýársdag sæmd heiðursmerki hinnar íslensku fálkaorðu af forseta Íslands fyrir störf á sviði jarðvísinda og loftslagsrannsókna.  Áslaug er prófessor við jarðvísindadeild Háskóla Íslands og stundar rannsóknir í jöklajarðfræði og fornloftslagsfræðum við Jarðvísindastofnun, Raunvísindastofnunar Háskólans.  
 
Áslaug lauk BS- prófi í jarðfræði við HÍ 1979, meistaraprófi í jarðfræði frá Christian Albrechts háskólanum í Kiel, Þýskalandi 1982, og doktorsprófi í jarðfræði frá Coloradoháskóla í Boulder, Bandaríkjunum 1988. Áslaug hefur starfað við Háskóla Íslands og Raunvísindastofnun Háskólans frá árinu 1989. Hún var ráðin lektor við jarð- og landfræðiskor HÍ 1991, dósent við sömu skor árið 1994 og prófessor árið 2000. Áslaug hefur einnig gegnt stöðu gestaprófessors við háskólann í Bergen, Noregi, og hefur stöðu gestaprófessors við Institute of Arctic and Alpine Research (INSTAAR) og miðstöð framhaldsnáms við háskólann í Boulder, Colorado.

Áslaug hefur stýrt stórum alþjóðlegum rannsóknaverkefnum og tekið þátt í alþjóðlegum samstarfsnetum. Á síðari árum hefur áherslan í rannsóknum Áslaugar verið á veðurfarsbreytingar síðustu árþúsunda byggt á setkjörnum stöðuvatna. Úr setinu má með jarð- og lífefnafræðilegum rannsóknum lesa margvíslegar breytingar á veðurfarsþáttum sem m.a. hafa haft áhrif á útbreiðslu jökla landsins og landmótun. Nýlegt öndvegisverkefni undir hennar stjórn fjallaði um samþættingu fornveðurvísa úr stöðuvötnum og loftslagslíkana til skilnings á snöggum loftslagsbreytingum í norðurhluta Norður Atlantshafs, en Norðurslóðir hafa verið miðpunktur umfjöllunar um áhrif núverandi loftslagsbreytinga. Áframhald þessara rannsókna sem styrktar eru af vísindasjóði Bandaríkjanna (NSF) byggir á nýrri greiningatækni sem getur stutt við að magnbinda breytingar í veðurfari fyrri tíma til betri skilnings á ástæðum þeirra umhverfsibreytinga sem hafa orðið. Áslaug hefur ásamt samstarfshópi sínum birt fjölda alþjóðlegra ritrýndra greina, þar sem bæði loftslags- og jöklunarsaga Íslands hefur verið til umfjöllunar og samanburður við þróun strauma og hitafars í og við Norður Atlantshafssvæðið.

 

 

 

Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is