Háskóli Íslands

Eldfjallafræði

Eldfjallafræði er eitt af áherslusviðum í rannsóknum á Jarðvísindastofnun Háskólans. Unnið er að því að auka skilning á eldvirkni og eldstöðvum og þeim ferlum sem eru að verki í þróun þeirra, með hverjum þeim aðferðum sem jarðvísindin þekkja. Eldfjallafræði er því þverfaglegt rannsóknaþema í þeim skilningi að verkfærum jarðfræði, jarðeðlisfræði, jarðefnafræði, bergfræði og fleiri faghópa er beitt jöfnum höndum. Fjöldi starfsmanna vinnur að þessum verkefnum og myndar svokallaðan þemahóp. Í þeim hópi eru auk fastra starfsmanna framhaldsnemar og styrkþegar Norræna Eldfjallasetursins (NordVulk). Fleiri starfsmenn koma þó að þessum rannsóknum tímabundið eða óbeint, auk sérþjálfaðra tæknimanna. NordVulk er sá þáttur í starfssemi Jarðvísindastofnunar sem byggir alfarið á eldfjallarannsóknum. Styrkþegar og fastir starfsmenn á vegum NordVulk starfa því náið með flestum sérfræðingum Jarðvísindastofnunar að öllu sem varðar eldfjallafræði. Samstarf  er við innlenda og erlenda aðila í eldfjallarannsóknum.

Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is