Eldfjallafræði

Rannsóknir í eldfjallafræði hafa þau markmið að auka skilning á eldvirkni og eldstöðvum og þeim ferlum sem eru að verki í þróun þeirra, með hverjum þeim aðferðum sem jarðvísindin þekkja. Eldfjallafræði er því þverfaglegt rannsóknaþema í þeim skilningi að verkfærum jarðfræði, jarðeðlisfræði, jarðefnafræði, bergfræði og fleiri faghópa er beitt jöfnum höndum.  

Fjöldi starfsmanna vinnur að þessum verkefnum og myndar svokallaðan þemahóp. Í þeim hópi eru auk fastra starfsmanna framhaldsnemar og styrkþegar Norræna eldfjallasetursins (NordVulk). Fleiri starfsmenn koma þó að þessum rannsóknum tímabundið eða óbeint, auk sér þjálfaðra tæknimanna.  

Norræna eldfjallasetrið er sá þáttur í starfsemi Jarðvísindastofnunar sem byggir alfarið á eldfjallarannsóknum. Styrkþegar og fastir starfsmenn á vegum NordVulk starfa því náið með flestum sérfræðingum Jarðvísindastofnunar að öllu sem varðar eldfjallafræði. Auk þess er ýmis konar samstarf við innlenda og erlenda aðila í eldfjallarannsóknum. 

Image
""

Áherslum í rannsóknum á sviði eldfjallafræði má skipta í tvo flokka. Annars vegar kvikuferli og eldstöðvakerfi og hins vegar eldgos og umhverfisáhrif. Í þeim báðum nálgast rannsakendur verkefnið með þverfaglegum aðferðum, draga ályktanir af niðurstöðum og búa til líkan eða tilgátu.  

Viðfangsefnin flokkanna ná yfir leit að uppruna bergkviku djúpt í möttli jarðar, könnun á ferð hennar gegnum skorpuna í tíma og rúmi, hvernig hún brýst á mismunandi hátt upp á yfirborðið í eldgosum, og loks hver eru áhrif eldgosa á umhverfið á jörðinni. 

Í flokknum kvikuferli og eldstöðvakerfi er m.a. rannsakað uppruni og flutningur kviku, kvikuhólf og innskot, eldstöðvakerfi auk kviku og skorpuhreyfingar. 

Í flokknum eldgos og umhverfisáhrif er m.a. rannsakað eðli eldvirkni, forboðar eldgosa og eldgos, framleiðsla eldstöðva og gossaga, staðbundin og hnattræn umhverfisáhrif auk eldfjallavár og viðbragða.