Háskóli Íslands

Faghópar

Starfsemi Jarðvísindastofnunar skiptist í 6 faghópa á grundvelli þarfar um aðstöðu til rannsókna og fagþekkingar. Hver faghópur velur sér oddvita sem er talsmaður hans.

Bergfræði og bergefnafræði:
Oddviti faghóps: Sigurður Jakobsson.
Berg- og bergefnafræði fæst við rannsóknir á kvikumyndun (bergbráð) í iðrum jarðar og hvernig kvikan breytist á leið sinni til yfirborðsins. Á þeirri leið kólnar kvikan, og kristallar myndast og efnaskipti verða við grannbergið í gosrásinni  sem leiða til mjög breytilegrar gerðar storkubergs á yfirborði jarðar og í jarðskorpunni.

Ísaldarjarðfræði og setlagafræði:
Oddviti faghóps: Ármann Höskuldsson.
Rannsóknir á svið ísaldar- og setlagafræði beinast að umhverfisbreytingum, sem lesa má úr fornum jarðlögum og þeim eðlis-, efna- og líffræðilegu ferlum, sem mótað hafa yfirborð jarðar á hverjum tíma. Helstu áhersluþættir eru jöklabreytingar og jökulrof, straumvatna- og afrennslishættir, vindrof, jarðvegseyðing og myndun, setmyndun í stöðuvötnum og sjó, landmótun við strendur og sjávarstöðubreytingar, sem tengjast jöklabreytingum og hreyfingum lands (höggun) og saga lífríkis, sem lesin er úr steingervingum. Loftslagsbreytingar eru ennfremur stórt rannsóknarefni og tengsl þeirra við hafstrauma og veðurfar.

Jarðeðlisfræði og eðlisræn jarð- og landfræði:
Oddviti faghóps: Magnús Tumi Guðmundsson.
Innan fagsviðsins er unnið að rannsóknum í eldfjallafræði, gjóskulagafræði, jarðefnafræði skammlífra samsætna, varma- og vökvafræði jarðefna, fornsegulfræði jarðlagastaflans, fjarkönnun og landupplýsingum, jarðlagafræði, jarðvegsfræði og frjókornarannsóknum. Stundaðar eru rannsóknir á jarðfræðilegri uppbyggingu Íslands, kvikuferlum til yfirborðs og eldvirkni og áhrifum eldgosa á samfélagið, kolefnabúskap (þ. e. bindingu og losun kolefna) og áhrif hans á loftlagsbreytingar og efnaveðrun (tæringu bergs) á vatnasviðum landsins. Starfsemin tengist jöklafræði, ísaldarjarðfræði, berg- og jarðefnafræði og jarðvegs- og fornvistfræði.

Jarðefnafræði vatns, veðrun og ummyndun:
Oddviti faghóps: Sigurður Reynir Gíslason.
Unnið er að rannsóknum á efnafræði vatns og gas, efnaskiptum vatns og gufu við berg, jarðveg, andrúmsloft, lífrænt efni og lífverur. Einkum er fengist við efnafræði jarðhitavökva og eldfjallagas, straumvötn, sjó og ís, samsætur (H, O, C, Cl, S, o.fl.), efnaveðrun og tilraunir með efnaskipti vatns, bergs og lífræns efnis ásamt líkangerð í jarðefna- og jarðhitafræðum. Jarðefnafræði eykur skilning á efnaferlum í jarðhita og eldfjallakerfum, þróun og ástandi í há- og lághitakerfum, í grunnvatni, ölkelduvatni, straumvatni og sjó. Þekking á jarðefnafræði vatns er mikilvægur þáttur umhverfisrannsókna, t. d. vegna súrnunar sjávar, og efnamengunar frá eldgosum. Gerðar eru geislakolsaldurs-greiningar á vatni, jarðfræðilegum sýnum og fornleifum.

Jarðafls- og jarðskjálftafræði:
Oddviti faghóps: Páll Einarsson.
Innan fagsviðsins er unnið að rannsóknum á innri gerð eldstöðva og jarðskorpunnar og efri hluta möttulsins. Jarðskorpuhreyfingar  vegna landreks, jarðskjálfta, kvikuhreyfinga, fargbreytinga frá jöklum, snjóþekju og vinnslu jarðhitavökva á virkjunarsvæðum, eru mældar með GPS, bylgjuvíxlmælingum (InSAR), og hallamælingum. Aukinn skilningur fæst með gerð líkana, sem herma eftir mældum landhreyfingum.  Jarðskorpuferli
 

Jökla-, haf- og hafísrannsóknir:
Oddviti faghóps: Guðfinna Aðalgeirsdóttir.
Hópurinn vinnur m.a. að rannsóknum á jöklum Íslands, fyrr, nú og á komandi tímum, stærð þeirra, lögun, afkomu, hreyfingu og afrennsli jökulvatns. Kortlagning á yfirborði og botni jöklanna, mælingum á afkomu og orkuskiptum við yfirborð þeirra, ísflæði, veðurathuganum á jöklum, fjarkönnun úr gervitunglum og flugvélum, könnun á framhlaup og kelfingu í jökullón. Gerð eru reiknilíkön af afkomu og hreyfingu og viðbrögðum jökla við loftslagsbreytingum, könnun á rennsli vatns um jökla, vatnsforða sem bundinn er í jöklum og mat á hættu sem starfar af jöklum vegna jökulhlaupa frá jaðarlónum og lónum á jarðhitasvæðum undir jöklum eða við eldgos í jöklum; auk viðbraðga jarðskorpu við breytingum í jökulfargi. Með gervitunglamyndun og landupplýsingakerfum er fylgst með og hafísútbreiðslu á Norður-Atlantshafi, þörungablóma, yfirborðshita sjávar og olíumengun í sjó. Breytingar jökla og hafíss við Ísland eru einnig kannaðar út frá sagnfræðilegum gögnum. Unnið er að rannsóknum á súrnun sjávar í Norður-Atlantshafi vegna þess að sjór dregur í sig æ meiri koltvísýring við aukin gróðurhúsaáhrif í andrúmslofti, í samvinnu við Hafrannsóknastofnun. Samsætumælingar eru framkvæmdar í ískjörnum frá Grænlandi og sjálfvirk söfnun loftraka og mælingar á samsætustyrk hans eru gerðar til að auka skilning á þeim eðlisfræðilegu ferlum sem valda fylgni samsæta við veðurfar.

Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is