Eyjafjallajökull 2010

Myndir frá gosinu í Eyjafjallajökli 2010. Myndirnar sýna jökulhlaup í Markarfljóti 14. apríl 2010, þar sem hlaupvatn flæddi yfir farveg árinnar og skemmdi vegi (vinstri), og gosmekk rísa upp úr gígnum 11. maí 2010, þegar sprengivirkni olli gjóskufalli yfir jökulinn og nærliggjandi svæði (hægri).

Gosið í Eyjafjallajökli (14.4.-23.5. 2010) var að langmestu leyti sprengigos sem stóð í 39 daga. Er þetta þriðja gosið sem orðið hefur í Eyjafjallajökli síðan um landnám; fyrri gosin urðu um 920 og 1821-23. Gosið 2010 skiptist í fjóra fasa. Í fyrsta fasa (14.-18. apríl) var sprengigos en í öðrum fasa (18. apríl - 4. maí) var kraftlítið sprengigos samhliða hraunrennsli undir jökli niður Gígjökul. Í þriðja fasanum (5.-17. maí) efldist sprengigosið á ný og hraunrennslið hætti. Í fjórða fasanum (18.-22. maí) dró jafn og þétt úr gosinu þar til það lognaðist út af. Dálítil sprengingar urðu í byrjun júní, en gjóska frá þeim féll aðeins í nágrenni gíganna. Gosið varð þar sem ís var 170-200 m þykkur og tvö jökulhlaup komu fyrsta gosdaginn (14. apríl) og það þriðja á öðrum degi (15. apríl). Þessi hlaup fylltu Gígjökulslónið og síðasta hlaupið stórskemmdi varnargarðinn við Þórólfsfell. Kvikan sem kom upp í gosinu var ísúr, og flokkast að miklu leyti sem trakýt, sem er ein gerð andesíts. Mikið af gjóskunni, ekki síst fyrstu dagana, var mjög fínkorna og átti það þátt í að hluti hennar barst langar leiðir út fyrir Ísland.

Ríkjandi vindátt þetta vor var úr norðvestri og því barst gjóska úr gosinu alla leið til Evrópu. Þar olli hún mestu truflunum sem orðið hafa á flugi síðan í síðari heimstyrjöld, á 5. áratug 20. aldar. Fyrir vikið er Eyjafjallajökulsgosið eitt frægasta eldgos sem orðið hefur á síðustu áratugum. Tugir milljóna jarðarbúa urðu fyrir beinum og óbeinum áhrifum af gosinu vegna hinna miklu truflana sem urðu í farþegafluginu í Evrópu og víðar. Gjóska huldi allan Eyjafjallajökul þegar gosinu lauk. Þykktin skipti mörgum metrum næst gígunum en var yfir 1 metri víða í suðurhlíðum jökulsins. Heildarmagn gjósku er talið hafa numið um 0,27 rúmkílómetrum, hraunið sem rann niður Gígjökul var um 0,02 km3. Samanlagt svarar þetta til um 0.18 rúmkílómetrum af föstu bergi.

Nánari upplýsingar um eldgos í Eyjafjallajökli/eldstöðvakerfi Eyjafjallajökuls er að finna á Íslensku eldfjallavefsjánni: https://islenskeldfjoll.is/?volcano=EYJ

EPOS Íslands
Share