
Safnað var náttúrulega storknuðum sýnum af mismunandi hraunmyndunum, sem og nornahári. Auk þess voru glóandi hraunsýni harðkæld í vatnsfötu á vettvangi. Sýnin eru líklega öll frá upphafsfasa eldgossins sem hófst nærri Sundhnúksgígum í júlí. Sýnin voru efnagreind með örgreini Jarðvísindastofnunar Háskólans. Þau samanstanda af þóleiísku basaltgleri sem og plagíóklas (pl), ólivín (ol) og ágít (cpx) (mynd 1) smádílum og örkristöllum. Basaltglerið inniheldur 4,8-6,3% MgO og K2O/TiO2-hlutfallið er 0,13±0,01.
Sem fyrr endurspeglar MgO-styrkurinn kólnun og kristöllun kvikunnar og K2O/TiO2-hlutfallið sýnir breytingar á samsetningu basalts sem kemur dýpra að. Nornahárið hefur hæstan styrk MgO, sem endurspeglar hversu hratt þessar örmjóu nálar storknuðu og hversu kristalsnauðar þær eru af þeim sökum (mynd 1).
Í samanburði við nálarnar eru hraunssýnin meira kristölluð og hafa þróaðri glersamsetningu (lægri MgO-styrk). Engu að síður eru allar glersamsetningar örlítið þróaðri en í gjósku sem myndaðist í gosinu 1. apríl 2025 og hafa nokkuð lægra K2O/TiO2-hlutfall (mynd 2).
Þessar bráðabirgðatölur benda til þess að engin marktæk breyting hafi orðið á kvikuþrónni undir Svartsengi og að kvikan frá júlí 2025 hafi ekki komið beint af meira dýpi í jarðskorpunni.

Mynd 1: Endurkasts-rafeindamyndir af sýni af apalhrauni (a), nornahári (b) og náttúrulega storknuðu gjalli (c); pl-plagíóklas, gl-basaltgler, cpx-ágít, ól-ólívín.
Brennisteinsinnihald (S) nokkurra glerinnlyksa var einnig mælt og nær allt að 1340 ppm. Aftur á móti inniheldur basaltgler í grunnmassa hraunsins aðeins 200-550 ppm S, sem bendir til þess að glerið í grunnmassanum hafi verið misjafnlega afgasað. Munurinn á samsetningu glerinnlyksa og grunnmassaglersins veitir upplýsingar um losun brennisteins um gosopin, en afgösun hraunbreiðunnar má áætla með því að gera ráð fyrir algerri losun SO2 úr grunnmassaglerinu. Út frá þessum gögnum er reiknað að hver 1 m3 af basaltkviku hafi losað 7,2 kg af SO2, sem olli þeirri loftmengun sem varð um miðjan júlí.

Mynd 2: Tímaröð sem sýnir efnasamsetningu basaltglers frá eldgosum við Sundhnúksgíga. Gögnin frá fyrstu fjórum gosunum eru úr grein Matthews o. fl. (2024). Skyggðu svæðin gefa til kynna breytileika sem mælist í sýnum frá Reykjaneseldum sem urðu á miðöldum. Gögnin koma úr grein Caracciolo o. fl. (2023).
Heimildir
Caracciolo, A., Bali, E., Halldórsson, S. A., Guðfinnsson, G. H., Kahl, M., Þórðardóttir, I., Pálmadóttir, G. L., & Silvestri, V. (2023). Magma plumbing architectures and timescales of magmatic processes during historical magmatism on the Reykjanes Peninsula, Iceland. Earth and Planetary Science Letters, 621. https://doi.org/10.1016/j.epsl.2023.118378
Matthews, S. W., Caracciolo, A., Bali, E., Halldórsson, S. A., Sigmarsson, O., Guðfinnsson, G. H., Pedersen, G. B. M., Robin, J. G., Marshall, E. W., Aden, A. A., Gísladóttir, B. Y., Bosq, C., Auclair, D., Merrill, H., Levillayer, N., Low, N., Rúnarsdóttir, R. H., Johnson, S. M., Steinþórsson, S., & Drouin, V. (2024). A dynamic mid-crustal magma domain revealed by the 2023 to 2024 Sundhnúksgígar eruptions in Iceland. Science, 386(6719), 309-314.