
Jöklabreytingar á Íslandi hafa verið fremur samstíga og fylgt að mestu leyti loftslagsbreytingum frá lokum 19. aldar þó að framhlaup, eldgos undir jökli og jökulhlaup hafi áhrif á stöðu einstakra jökulsporða. Íslenskir jöklar náðu ekki hámarksútbreiðslu samtímis en flestir þeirra tóku að hörfa frá ystu jökulgörðum um 1890. Heildarflatarmál jökla árið 2019 var um 10.400 km2 og hafa þeir minnkað um meira en 2200 km2 frá lokum 19. aldar, sem samsvarar 18% flatarmálsins um 1890.
Jöklarnir hafa tapað um 750 km2 frá aldamótunum 2000. Stærri jöklarnir hafa tapað 10−30% af flatarmáli sínu en miðlungsstóru jöklarnir (3−40 km2 árið 2000) hafa misst allt að 80% flatarmálsins. Á fyrstu tveimur áratugum 21. aldar hafa jöklarnir minnkað um u.þ.b. 40 km2 á ári að jafnaði. Á þessu tímabili hafa nokkrir tugir lítilla jökla horfið með öllu. Þetta kemur fram í nýjasta tölublaði tímaritsins Jökuls í grein um breytingar á útbreiðslu íslenskra jökla frá lokum litlu ísaldar, seint á 19. öld. Nokkur dæmi um niðurstöður greinarinnar eru sýnd á meðfylgjandi myndum.