
Sigurður Reynir Gíslason, jarðefnafræðingur og rannsóknaprófessor við Jarðvísindastofnun Háskólans, hefur verið kjörinn heiðursmeðlimur í Bandarísku lista- og vísindaakademíunni (American Academy of Arts and Sciences) fyrir störf sín á sviði jarðvísinda.
Akademían er í senn samfélag sem heiðrar framúrskarandi vísindamenn, listamenn og leiðtoga og leiðir saman vísindamenn og sérfræðinga úr ólíkum vísinda-, lista- og starfsgreinum til að takast á við áskoranir sem snerta samfélög um allan heim. Akademían var sett á laggirnar árið 1780 og meðal þeirra sem kjörin hafa verið í hana má nefna Benjamin Franklin, George Washington, Margaret Mead, John F. Kennedy, Martin Luther King, Jr., Mörthu Graham, Georgiu O’Keeffe og Madeleine Albright.
Alls eru 250 félagar á 31 sérfræðisviði teknir inn í Bandarísku lista- og vísindaakademínuna í ár, langflestir frá Bandaríkjunum, en þeirra á meðal eru Pulitzer-verðlaunahafinn Jhumpa Lahiri, leikarinn og leikstjórinn George Clooney og Tim Cook, forstjóri Apple. Sigurður Reynir er í hópi 25 alþjóðlegra heiðursmeðlima sem teknir eru inn að þessu sinni og bætist þar í hóp ekki ómerkari erlendra akademíumeðlima en Charles Darwin, Albert Einstein, Wislawa Szymborska, Gabriel Garcia Márquez, Nelson Mandela og Claude Jean Allegre