
- Ný rannsókn íslenskra og erlendra vísindamanna birtist í Science í gær
- Niðurstöður benda til að erfitt geti reynst að spá fyrir um eldgos á svæðinu og hegðun þeirra
Efnasamsetning kviku í fyrstu fjórum gosunum í Sundhnúksgígaröðinni á Reykjanesskaga bendir til þess að kvikan komi úr nokkrum kvikuhólfum eða -þróm sem eru nálæg hver annarri á um fimm kílómetra dýpi. Það þýðir að erfitt gæti orðið að spá fyrir um næstu gos og hegðun þeirra. Þetta sýna niðurstöður rannsókna sem unnar voru undir forystu vísindamanna við Jarðvísindastofnun Háskólans í samstarfi við Veðurstofu Íslands en greint var frá þeim í grein sem birtist í hinu virta vísindatímariti Science í gær.
Eins og flestum er kunnugt hafa eldsumbrot staðið yfir á Reykjanesi frá árinu 2021. Í upphafi gaus í grennd við Fagradalsfjall en í lok síðasta árs hófust eldsumbrot á Sundhnúksgígaröðinni eftir að mikill kvikugangur myndaðist snögglega undir gígaröðinni í hamförum í nóvember. Síðan hafa orðið sex eldgos á gígaröðinni en rannsóknin í Science byggist á gögnum frá fjórum þeim fyrstu, þ.e. í desember, janúar, febrúar og mars síðastliðnum, en það síðastnefnda stóð fram í maí.
Markmið rannsóknarinnar var að öðlast betri skilning á kvikusöfnun fyrir hvert gos með því að rýna í efnasamsetningu kvikunnar sem kom upp. Reyndist hún breytileg í hverju gosi væri það vísbending um að kvikan kæmi úr fleiri en einu kvikuhólfi.
Fleiri sýnum safnað en í fyrri rannsóknum
Meðan á eldgosunum fjórum stóð söfnuðu vísindamenn fjölda hraunsýna víða á gossvæðunum með það fyrir augum að kanna breytileika í efnasamsetningu kvikunnar. Alls var 161 sýni tekið sem er umtalsvert ítarlegri söfnun en í fyrri rannsóknum. Greining á sýnunum fór fram við Jarðvísindastofnun Háskólans og Laboratoire Magmas et Volcans á vísindastofnun Frakklands (CNRS) í Clermont-Ferrand.