Lög og reglur

Reglur Jarðvísindastofnunar

Jarðvísindastofnun Háskólans (JH) og Eðlisvísindastofnun Háskólans (EH) mynda saman Raunvísindastofnun Háskólans (RH). Markmið Jarðvísindastofnunar er að vera virkur þátttakandi í alþjóðlegum jarðvísindum og leiðandi í rannsóknum á jarðfræði Íslands og aðliggjandi svæða. Reglur um Raunvísindastofnun nr. 685/2011 gilda um stofnunina, en að auki eftirfarandi starfsreglur.

Hlutverk Jarðvísindastofnunar Háskólans er að:

a) Afla nýrrar þekkingar með grunnrannsóknum og nytjarannsóknum í jarðvísindum.
b) Reka norrænt rannsóknasetur í eldfjallafræðum sem menntar og þjálfar unga norræna jarðvísindamenn.
c) Starfa með innlendum og erlendum háskólum, rannsóknastofnunum og öðrum aðilum með gagnkvæma miðlun á þekkingu í huga og til þekkingaröflunar fyrir íslenskt samfélag.
d) Byggja upp og standa að aðstöðu fyrir tilraunir og mælingar í jarðvísindum.
e) Annast þjónusturannsóknir á verksviðum, sem krefjast grunnrannsókna og ekki eru í samkeppni við aðrar stofnanir eða fyrirtæki í landinu eftir því sem við á og veita ráðgjöf um náttúruvá, nýtingu auðlinda og umhverfismál.
f) Miðla þekkingu með því að birta og kynna niðurstöður rannsókna á sviði jarðvísinda.
g) Veita nemendum í framhaldsnámi við jarðvísindadeild aðstöðu og aðgang að búnaði samkvæmt þjónustusamningi við deildina.
h) Efla kennslu með því að byggja upp frjótt rannsóknaumhverfi fyrir nemendur og þjálfa þá í vísindalegri hugsun og vinnubrögðum í jarðvísindum.

Stjórn JH er skipuð þeim sex mönnum öðrum en stúdentum sem sitja í deildarráði. Stjórnarformaður og tveir meðstjórnendur eru kjörnir til tveggja ára skv. 11.gr. reglna JH en aðrir stjórnarmenn eftir reglum Jarðvísindadeildar. Formaður stjórnar er kosinn sérstaklega eftir reglum JH (sjá 11. gr.) en stjórn velur varaformann úr röðum annarra stjórnarmanna. Í stjórn skulu sitja bæði konur og karlar. Við kjör stjórnarmanna skal tekið mið af 15. gr. laga nr. 10/2008 um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla.

Rekstrarstjóri JH annast daglegan rekstur Jarðvísindastofnunar í umboði stjórnar JH og framkvæmdastjóra RH. Rekstrarstjóri stýrir gerð rekstrar- og fjárhagsáætlunar í samráði við stjórn, annast fjármál og húsnæðismál, er yfirmaður tæknimanna, og ber ábyrgð á rekstri innviða. Rekstrarstjóri á sæti á stjórnarfundum, hefur þar málfrelsi og tillögurétt, og ritar fundargerðir.

Stjórn stofnunarinnar skilgreinir heildarstefnu og sér um framkvæmd og rekstur samkvæmt innra skipulagi. Meginþáttum í rannsóknum við stofnunina er á hverjum tíma skipað í tiltekin rannsóknaþemu (8. gr.) og faghópa (9. gr.). Stjórn stofnunarinnar er heimilt að skipa nefndir og vinnuhópa, sem í sitja starfsmenn JH, vegna innri málefna JH.
Formaður stjórnar stýrir stjórnarfundum og sameiginlegum rekstri stofnunarinnar. Stjórnin afgreiðir rekstrar- og fjárhagsáætlun fyrir stofnunina og hefur yfirsýn yfir starfsemi stofnunarinnar í heild. Fjárhagsáætlunin er kynnt fyrir fjárhagsnefnd sem hefur tillögurétt um breytingar (sjá 10. gr.). Stjórn stofnunarinnar skiptir fjárveitingu og öðrum framlögum til sameiginlegs reksturs stofnunarinnar milli viðfanga. Formaður starfar í umboði stjórnar og framkvæmir ákvarðanir stjórnarfunda og stofnunarfunda. Hann stýrir gerð rekstrar- og fjárhagsáætlunar í samráði við rekstrarstjóra, verkefnastjóra og oddvita faghópa. Formaður ber ábyrgð á rekstri stofnunarinnar gagnvart stjórn og er tengiliður hennar við starfsmenn. Hann kemur fram fyrir hönd stjórnarinnar og er málsvari hennar. Formaður stjórnar er fulltrúi JH í stjórn RH. Varaformaður er staðgengill formanns. Stjórn er heimilt að fela formanni stjórnar, eða staðgengli í fjarveru formanns, ákvörðunarvald í málum stjórnar á milli stjórnarfunda.

Formaður stjórnar boðar stjórnarfundi með dagskrá, í tölvupósti eða á annan hátt sem stjórn samþykkir með minnst þriggja daga fyrirvara. Skylt er að boða stjórnarfund óski tveir eða fleiri stjórnarmenn þess. Sama gildir ef formaður stjórnar Raunvísindastofnunar ber fram slíka ósk og hefur hann málfrelsi og tillögurétt á fundinum. Falli atkvæði jöfn á stjórnarfundi ræður atkvæði formanns. Stjórnarfundur er ályktunarbær ef minnst fjórir stjórnarmenn eða varamenn þeirra taka þátt í fundinum. Framkvæmdastjóri Raunvísindastofnunar hefur seturétt, málfrelsi og tillögurétt á stjórnarfundum JH. Færa skal fundargerð. Fundargerðir skulu aðgengilegar öllum starfsmönnum stofnunarinnar sem og formanni stjórnar Raunvísindastofnunar og forseta Verkfræði- og náttúruvísindasviðs. Stjórnin getur tekið ákvarðanir í tölvupósti milli funda.

Stjórn JH er heimilt að skipa sérstakan verkefnisstjóra Norræna eldfjallasetursins (Nordvulk), sem starfar í umboði stjórnarformanns JH. Verkefnisstjórinn hefur umsjón með málefnum styrkþega Nordvulk, þ.m.t. fjármálum verkefna þeirra, auk þess að vera tengiliður við verkefnanefnd eldfjallasetursins og Norrænu ráðherranefndina.

Starfsmenn skipa sér á rannsóknaþemu eftir verkefnum og áhuga. Þeir geta tilheyrt fleiri en einu rannsóknaþema. Eitt þessara rannsóknaþema skal vera í eldfjallafræði sbr. samning Háskóla Íslands og Norrænu ráðherranefndarinnar um Norræna eldfjallasetrið.

Faghópar eru vettvangur starfsmanna (skv. a-e lið 9. gr. reglna RH) sem nýta skylda fagþekkingu, aðstöðu eða mælitækni við rannsóknir. Hver faghópur kýs sér oddvita sem er talsmaður hans við formann stjórnar og stjórn og þeim til ráðgjafar um stefnu og aðstöðu.

Hlutverk fjárhagsnefndar er að tryggja samráð við þá aðila sem veita fé til reksturs stofnunarinnar og fylgjast með ráðstöfun þess samkvæmt rekstrar- og fjárhagsáætlunum. Formaður fjárhagsnefndar er skipaður af forseta fræðasviðs verkfræði- og náttúruvísinda og er ekki starfsmaður Jarðvísindadeildar eða Jarðvísindastofnunar. Aðrir nefndarmenn eru formaður stjórnar JH, tveir fulltrúar verkefnanefndar Norræna eldfjallasetursins og tveir meðstjórnendur úr stjórn JH samkvæmt ákvörðun stjórnar.

Kjörfund skal halda eigi síðar en í lok mars það ár sem kjörtímabil stjórnarmanna rennur út. Mánuði fyrir kjörfund skipar stjórn JH kjörstjórn þriggja manna til að annast undirbúning og framkvæmd kjörs formanns stjórnar og tveggja meðstjórnenda. Kjörgengir eru starfsmenn skv. a og b lið 9. gr. reglna RH. Menn í kjörstjórn eru ekki kjörgengir. Kjörstjórn birtir lista með nöfnum kjörgengra manna eigi síðar en 10 dögum fyrir kjörfund og sker úr þeim vafaatriðum sem upp koma. Atkvæðisbærir eru allir starfsmenn JH skv. a og b lið 9 gr. reglna RH og þeir starfsmenn skv. c og d lið sem starfað hafa við stofnunina samfellt í þrjú ár eða lengur. Eigi síðar en þremur dögum fyrir kjörfund boðar kjörstjórn til fundar allra starfsmanna þar sem fram fer umræða um kjörið og framboða til stjórnarsetu leitað í samræmi við ákvæði 3. gr. Á fundinum skal m.a. fjalla um hvernig fagleg breidd stjórnar og kynjaskipting skuli tryggð. Kosning er rafræn og telst lögmæt ef a.m.k. helmingur atkvæðisbærra starfsmanna greiðir atkvæði.

Kjörstjórn setur reglur um atkvæðagreiðslu utan kjörfundar. Fyrst er gengið til atkvæða um formann stjórnar en síðan um tvo meðstjórnendur. Formaður stjórnar skal kjörinn með a.m.k. helmingi greiddra atkvæða. Hljóti enginn tilskilinn fjölda atkvæða er kosið aftur milli þeirra tveggja sem flest atkvæði hlutu í fyrstu umferð. Hljóti báðir jafnmörg atkvæði í annarri umferð ræður hlutkesti hvor þeirra er kjörinn. Þeir tveir sem flest atkvæði hljóta í kjöri um meðstjórnendur teljast rétt kjörnir stjórnarmenn. Fái þeir sem lenda í öðru og þriðja sæti jafnmörg atkvæði ræður hlutkesti hvor þeirra er kjörinn. Varamenn í stjórn teljast þeir sem lenda í þriðja og fjórða sæti í kjörinu.

Um stofnunarfund Jarðvísindastofnunar gilda hliðstæð ákvæði og um starfsmannafund Raunvísindastofnunar Háskólans, sbr. 8. gr. í reglum RH. Formaður stjórnar boðar til stofnunarfundar. Fundurinn kýs fundarstjóra. Stofnunarfundir eru vettvangur stjórnarinnar til að kynna störf sín, þ.á.m. rekstrar- og fjárhagsáætlun stofnunar. Stofnunarfundir fjalla um sameiginleg málefni stofnunarinnar og gera tillögur til stjórnar um meðferð sameiginlegra málefna. Stjórn JH skal bera undir stofnunarfund allar meiri háttar breytingar á rannsóknastefnu og stærri breytingar á reglum þessum.

Formaður stjórnar JH tekur ákvörðun um veitingu og umfang aðstöðu fyrir utanaðkomandi aðila í samræmi við 4. gr. reglna RH í samráði við oddvita faghóps eftir því sem við á. Ákvörðun um veitingu og umfang rannsóknaaðstöðu samkvæmt 4. gr. reglna RH tekur mið af því hvernig rannsóknir viðkomandi falla að hlutverki Jarðvísindastofnunar, þörfum fyrir aðstöðu og umsvifum á stofnuninni. Stjórn skal kanna þessa þætti reglulega. Stjórn stofnunarinnar er heimilt að veita starfsmanni, sem látið hefur af störfum fyrir aldurs sakir, rannsóknaaðstöðu í samræmi við reglur Háskóla Íslands um starfsaðstöðu.

Jarðvísindastofnun gefur út ársskýrslu þar sem gerð er grein fyrir rannsóknum, öðrum verkefnum og árangri. Skýrslan skal vera aðgengileg á heimasíðu stofnunarinnar. Auk þess skal skila ársskýrslu í samræmi við leiðbeiningar Norrænu ráðherranefndarinnar um skýrslugerð samstarfsstofnana. Árlega eru haldnir samráðsfundir milli JH og skrifstofu Norrænu ráðherranefndarinnar.

Þessar starfsreglur eru settar á grundvelli 3. mgr. 3. gr. reglna um Raunvísindastofnun Háskólans nr. 685/2011 og með vísan í samning Norrænu ráðherranefndarinnar og Háskóla Íslands um Jarðvísindastofnun Háskólans og Norræna eldfjallasetrið. Þær öðlast strax gildi. Úr gildi falla eldri reglur JH frá 4. maí 2012 með síðari breytingum.“