Náttúruvá og vöktun
Veðurstofa Íslands annast vöktun vegna náttúruvár og eru starfsmenn Jarðvísindastofnunar í nánu samstarfi við stofnunina, Almannavarnir og aðra aðila sem koma að vöktun náttúruvár.
Eldsumbrot
Eldsumbrot hafa í gegn um aldirnar valdið miklum skaða, en sjaldan beinu manntjóni í seinni tíð. Það skiptir því miklu máli að sjá fyrir hegðun einstakra eldstöðva og geta jafnvel sagt fyrir um yfirvofandi eldsumbrot eins og íslenskum jarðvísindamönnum hefur tekist.
Jarðskjálftar
Svæði þar sem vænta má jarðskjálfta á Íslandi eru vel skilgreind, en spá um skjálfta er oftast langtímaspá. Slík spá kemur þó að gagni hvað varðar hönnun bygginga og annan viðbúnað. Þétt net jarðskjálftamæla er rekið á Íslandi í samvinnu við Veðurstofu Íslands og fleiri aðila.
Jökulhlaup og önnur flóð
Vatnsflóð og aurflóð eða skriður hafa alltaf valdið miklu tjóni á Íslandi, að ógleymdum snjóflóðum. Jarðvísindastofnun stundar víðtækar rannsóknir á jöklum landsins, m.a. í samvinnu við Veðurstofu Íslands sem hefur með höndum hið stjórnskipulega hlutverk að vara við náttúruhamförum á Íslandi.