Saga Jarðvísindastofnunar

Jarðvísindastofnun Háskólans hóf starfsemi 1. júlí árið 2004 með sameiningu Norrænu eldfjallastöðvarinnar og jarðvísindahluta Raunvísindastofnunar Háskólans, skv. samkomulagi undirrituðu af menntamálaráðherra, Þorgerði Katrínu Gunnarsdóttur, Páli Skúlasyni rektor og Sigurði Helgasyni, aðstoðarframkvæmdastjóra Norrænu ráðherranefndarinnar í apríl sama ár. Jarðvísindastofnun er til húsa í Öskju, náttúrufræðahúsi Háskólans, sem var vígt við hátíðlega athöfn í apríl 2004. 

Markmið Jarðvísindastofnunar er að vera metnaðarfull alþjóðleg rannsóknastofnun á sviði jarðvísinda, sem endurspegli hina einstöku jarðfræði Íslands og þá þekkingu í jarðvísindum sem byggst hefur upp á Íslandi. 

Jarðvísindastofnun heyrir undir Raunvísindastofnun en er stjórnunar- og skipulagslega sjálfstæð innan þess ramma sem lög og reglur Háskóla Íslands setja.

Við stofnun Jarðvísindastofnunar tók gildi nýr samningur milli Háskóla Íslands og Norrænu ráðherranefndarinnar um rekstur Norræna eldfjallasetursins. Samkvæmt honum fluttust öll verkefni Norrænu eldfjallastöðvarinnar til Norræna eldfjallaseturins. Mikilvægasti liðurinn í norrænni starfsemi eru fimm stöður fyrir unga norræna vísindamenn sem veittar eru til árs í senn. Norræn verkefnanefnd skipuð einum fulltrúa frá hverju norrænu landanna hefur ráðgjafarhlutverk hvað varðar norræna vídd í starfseminni.